
Hundaþjálfarinn Ingibjörg Ylfa Ólafsdóttir, aðalhundaþjálfari Tollstjóra, er nú komin á útkallslista Landamærastofnunar Evrópu, Frontex. Hefur hún öðlast réttindi til þess að kenna leitarhundaþjálfun á vegum Frontex í öðrum löndum.
Hún fékk á dögunum fullgild réttindi sem „European Border Guard (EUBG) Canine Team Instructor.“ Útnefninguna hlaut hún eftir að hafa lokið fimmþættu prófi, sem haldið var á vegum Tollstjóra nýverið, með heildareinkunninni „Outstanding, “ eða framúrskarandi.
„Það að vera komin með alþjóðlega gæðavottun á starfi hundateyma embættisins auðveldar okkur samstarf við aðrar opinberar stofnanir hvað áframhaldandi menntun og þjálfun í opinberri þjónustu varðar,“ segir Ingibjörg Ylfa, spurð um þýðingu þessa áfanga.
Mikil vinna hefur verið í gangi hjá Frontex á undanförnum árum við að samræma kröfur sem gerðar eru til hundateyma sem starfa á landamærum Schengen – og Evrópusambandsins.
Reynslan hefur sýnt að það getur verið erfitt að skipa hundateymi í vinnu í samstarfsverkefnum milli landa þar sem kunnátta, þjálfun og kröfur til getu leitarhunda eru mismunandi frá einu landi til annars.
Samtals eru nú 22 manns á útkallslista Frontex og er Ingibjörg Ylfa eini Íslendingurinn sem lokið hefur umræddu námi og er á ofangreindum lista.
Frétt fengin af Vísir.is]]>