Ársreikningar seinustu sjö ára eru nú opinberir á síðu Heilbrigðiseftirlitsins.
Hundasamfélagið ákvað að rýna stuttlega í tölur seinasta árs.

Hundasamfélagið ákvað að rýna stuttlega í tölur seinasta árs. Samkvæmt yfirlitinu virðist launakostnaður vera stærsti hluti útgjalda Hundaeftirlitsins, fyrir utan árið 2012 þar sem launakostnaður var 220.062 krónum lægri en rekstarkostnaður. Halli hefur verið á rekstrinum öll árin, allt frá 146.426 krónum árið 2009, upp í 4.629.602 krónur árið 2014. Þær tölur gætu útskýrt hvers vegna eftirlitið ákvað að hækka gjaldskrá sína um 4,8% á komandi ári.

1
Skjáskot af ársyfirliti Hundaeftirlitsins

Samkvæmt heimasíðu Heilbriðiseftirlitsins eru aðeins tveir menn á skrá hjá Hundaeftirlitinu:

Hundaeftirlitsmenn eru:

Símatímar starfsmanna eru frá kl. 8:30 – 9:00 og 13:00 – 14:00, alla virka daga.
Viðverutími hundaeftirlitsmanna við síma utan hefðbundins vinnutíma er til kl. 19:00 virka daga.  Vinsamlegast leitið til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á kvöldin og um helgar.

Miðað við að Helgi og Óskar séu þeir einu sem þiggja laun frá Hundaeftirlitinu, er hvor hundafangari um sig að fá 8.750.337 krónur í laun á ári, eða 729.194 krónur á mánuði í heildarlaun. Þá á líklega eftir að taka út greiðslu í stéttarfélag, tryggingar og lífeyrissjóð. Samkvæmt launaskil.is ættu útborguð laun því að vera um 410.591 krónur.
Launatengd gjöld voru ekki tekin með í reikningin þar sem óvíst er hver þau gjöld kunna að vera.
Ef hugmyndir Hundasamfélagsins um laun hundafangaranna eru réttar myndi samantekt launa þeirra líta einhvern veginn svona út:

2
Hér er aðeins um ágiskun að ræða. Þetta er ekki launaseðill né staðfest laun. Aðeins er verið að skoða tölur sem gefnar eru upp af Hundaeftirlitinu og velta þeim fyrir sér.

Uppgefið handsömunargjald er 577.637 þúsund krónur, yfir allt árið. Gjaldskrá Hundaeftirlitsins segir til um að handsömunargjald sé 27.800 krónur, fyrir hvern hund sem er handsamaður. Samkvæmt þeim tölum hafa hundafangarar handsamað og skráð 20,77 hunda, eða rétt undir 21 hund. Þó hafa hundafangarar skilað hundum beint til eigenda sinna, séu þeir vel merktir. Tölur yfir þá hunda eru ekki til.
Hundasamfélagið hefur tekið saman tölur (sem sjá má hér) um auglýsingar um týnda hunda á netinu. Alls hefur verið auglýst eftir 125 hundum á tímabilinu 6. nóvember til 12. desember. Þessar tölur gefa til kynna að annað hvort séu hundafangarar ekki að handsama nema brotabrot þeirra hunda sem týnast, eða að fólk sé hikandi við að tilkynna týnda hunda til Hundaeftirlitsins. Grunur leikur á að handsömunargjaldið spili þar stóran þátt, enda er gjaldið hátt fyrir ein mistök. Hundasamfélagið telur eðlilegt að lækka þetta gjald verulega fyrir fyrstu skipti en hækka gjaldið fyrir þá hunda sem ítrekað sleppa út.
5.420.000 krónur fóru í tryggingar en þegar hundaeigandi borgar leyfisgjald fyrir hund sinn, fylgir trygging gegn þriðja aðila. Hundasamfélagið vill sjá sundurliðun á þessum útgjöldum.
Í ársreikningum kemur einnig fram að Hundaeftirlitið borgar 4 milljónir króna á ári í svokallaða ,,Dýrageymslu“ en hundaeigandi þarf að borga fyrir dvöl hundsins yfir nótt, ef það kemur fyrir.
2.341.703 króna fara svo í ,,annan rekstrarkostnað“. Hundasamfélagið vill sjá góða útskýringu á þessum útlið.

Hundasamfélagið mun fara á fund með Hundaeftirliti Reykjavíkur, þann 7. janúar á nýju ári. Ef þú hefur spurningar sem þú vilt koma á framfæri er þér velkomið að senda þær á voff@hundasamfelagid.is


Guðfinna á Dandie Dinmont Terrier rakkann Watson. Hún er hönnuður, situr í stjórn Félags ábyrgra hundaeiganda og Dýraverndarsambands Íslands. Hún lærði um hegðun týndra dýra hjá Missing Animal Response Network. Nú hjálpar hún til við að finna týnda hunda, býr til auglýsingar og ráðleggur við leitir, einnig er hún að vinna að þróun smáforrits fyrir týnd dýr.