Það er stór breyting fyrir alla í fjölskyldunni að fá ungabarn á heimilið, ekki síst fyrir hundinn. Best er að byrja ákveðna þjálfun um leið og þungun er staðfest, eða að minnsta kosti einhverjum mánuðum fyrir komu barnsins.
Margir hundar eru vanir því að vera miðpunktur allrar athygli og því getur verið ákveðið sjokk þegar þeir missa það hlutverk. Allt í einu er ekki allur heimsins tími eða orka í klapp, klór, gönguferðir og dekur. Hegðun hunda getur breyst mikið eftir að barnið mætir. Þeir elta eigendur sína á röndum, fela sig og halda sig til hlés eða það versta, verða afbrýðisamir út í barnið. Hér eru nokkur atriði sem geta auðveldað þessa breytingu fyrir hund og eigendur.
Láttu hundinn umgangast börn
Áttu vini eða fjölskyldumeðlimi sem eiga börn? Verið dugleg að bjóða þeim í heimsókn svo hundurinn venjist öllum þeim hljóðum, látum, hreyfingum og skrækjum sem fylgir börnum. Gætið þess þó að hafa alltaf fulla athygli á hundinum. Þú getur aldrei treyst hundi 100% í kringum börn, þrátt fyrir að hann virðist vera fullkomlega barnvænn. Ekki taka neina sénsa.
Hafðu alltaf stað sem hundurinn getur leitað til og fengið frið frá börnunum. Gættu þess að börnin eða foreldrar þeirra skilji að ef hundurinn fer á þennan stað, megi ekki trufla hann.
Ef hundurinn sýnir merki um kvíða eða vanlíðan í kringum börn skaltu hafa hann aðskilinn frá þeim, en í sjónlínu ef hægt er. Barnahlið eru góð lausn. Tengdu komu barna við eitthvað skemmtilegt, eins og Kong með ljúffengri fyllingu.

Góður tími fyrir hlýðniþjálfun
Það er sniðugt að dusta rykið af því sem þið lærðuð í hvolpaskólanum. Leggið áherslu á æfingar eins og að „láttu kjurrt“, „kyrr“, „sestu“, „liggja“, „bakka“ og innkall. Ef hundurinn má vera uppi í sófa eða rúmi skuluð þið kenna stikkorð eins og „færðu þig“ og „niður“. Ef hundurinn hoppar upp á ykkur í æsing skuluð þið kenna honum að hætta því. Góð leið til þess er að veita hundinum enga athygli nema hann sitji á rassinum.
Ef þið eruð vön að leyfa mikla ærslaleiki innandyra mæli ég með að hætta því. Mikinn æsing þar sem hundurinn slær til ykkar loppunni eða þar sem þið notið hendur til að leika við hundinn skal stöðva algjörlega. Þetta minnkar líkurnar á að hundurinn meiði barnið óvart í framtíðinni.
Kynntu þér merkjamál hunda. Það er mikilvægt að þekkja stressmerki til að vita hvenær þú þarft að aðskilja hundinn frá barninu.
Það sem fylgir ungabörnum
Það hljómar kannski kjánalega, en ef hundurinn er líklegur til að eiga erfitt með þessar breytingar er gott að fara í hlutverkaleiki. Gangið um íbúðina með dúkku, syngið og talið fallega við dúkkuna. Skiptið um bleyju og leggið hana í vöggu. Spilið hljóðupptöku af barnsgráti. Ekki gleyma að tengja alla þessa hluti við eitthvað jákvætt fyrir hundinn. Kastið til hans nammibita og hrósið þegar hann sýnir æskilega hegðun, eins og að liggja slakur í bæli.
Nýr svefnstaður fyrir hvutta
Ef það á að breyta svefnstað hundsins skulið þið gera það fyrr en seinna. Sérstaklega ef breytingin er stór, t.d. úr rúminu og í bæli í öðru herbergi. Gerið þetta í litlum skrefum og gætið þess að nýji svefnstaðurinn sé mjög notalegur og spennandi. Ein ástæðan fyrir því að hundum finnst gott að sofa í rúminu er að rúmið er mjúkt og hlýtt. Ef nýja bælið er þunn motta er ekki skrítið að hundurinn sé ekki spenntur fyrir því.
Ef þessi breyting er gerð eftir að barnið er komið er líklegra að hundurinn tengi breytinguna við barnið, sem eykur líkur á afbrýðisemi.
Skoðun hjá dýralækni

Gættu þess að hundurinn sé bólusettur á réttum tíma. Það er líka gott að ormahreinsa hundinn áður en barnið kemur. Biddu dýralækninn um að skoða hundinn vel og ef eitthvað kemur í ljós, til dæmis gigt, er hægt að meðhöndla það og vera undirbúinn fyrir komandi tíma.
Barnaherbergið
Ef barnið fær sitt eigið herbergi skaltu kenna hundinum strax frá byrjun að hann megi ekki vera eftirlitslaus í herberginu, eða að hann megi hreinlega ekki vera þar. Hundar og börn eiga aldrei að vera eftirlitslaus saman. Börnum fylgir einnig mikið smádót og það getur verið öryggisatriði að halda hundinum í burtu frá því (eins og hægt er). Það er sniðug lausn að hafa barnahlið sem hundurinn sér í gegnum.
Matardallarnir
Ef matardallar hundins eru geymdir á stað sem barnið mun eiga gott aðgengi að, skaltu finna nýjan stað fyrir þá. Þetta á sérstaklega við þegar matur er alltaf geymdur í dallinum, þar sem börn geta auðveldlega kafnað á kúlunum.
Lyktin af barninu

Ef barnið kemur ekki heim strax eftir fæðingu er sniðugt að kynna hundinn fyrir óhreinni flík frá barninu. Hundar hafa ótrúlega næmt lyktarskyn og fá því miklar upplýsingar gegnum nefið.
Heimkoman
Það er best að hundurinn sé búinn að fá hreyfingu áður en barnið kemur í fyrsta skipti inn á heimilið. Þegar þú kemur heim með barnið skaltu láta einhvern annan halda á barninu ef hægt er og heilsaðu hundinum rólega. Ef hundurinn sýnir barninu engan áhuga skaltu ekki ota barninu að hundinum. Verðlaunaðu æskilega og rólega hegðun.
Það er mikilvægt að kenna hundinum strax frá upphafi að hann fær ekki að hitta barnið nema vera rólegur og yfirvegaður. Æstur hundur fær ekki að nálgast barnið. Hér kemur sér vel að hafa fínpússað hlýðniæfingar. Við viljum þó auðvitað á endanum að hundurinn fái að hitta barnið og þefa af því. Þegar hundurinn sýnir ró og yfirvegun skaltu bjóða honum að koma. Haltu þannig á barninu að þú hlífir andliti þess. Hundurinn þarf helst að vera það rólegur að honum bregði ekki ef barnið fer skyndilega að gráta. Verðlaunið hundinn með nammi þegar hann sýnir æskilega hegðun og talið fallega til hans. Ef hann æsist upp skuluð þið senda hundinn frá (munið: hundurinn þarf að læra að hann fær aðeins að umgangast barnið þegar hann er rólegur).

Það er eðlilegt að það taki hundinn nokkra daga að venjast barninu. Það er sniðugt að vera með gúmelaði tilbúið handa hundinum (t.d. fyllt kong í fyrstinum eða góð bein) svo hundurinn sé með verkefni fyrstu dagana. Ef mögulegt er skaltu fara með hundinn í göngutúr daglega svo hann fái andlega og líkamlega útrás á heilbrigðan hátt. Munið að þetta er ekki bara stór breyting fyrir ykkur, heldur fyrir hundinn líka.