Hvenær er hundurinn minn öldungur?

Eins og flestir vita er umönnun aldraðra hunda ólík þeirra ungu og hraustu. Það getur þó verið erfitt að meta hvenær hundur flokkast sem öldungur.
Það er enginn ákveðinn aldur sem hægt er að miða við. Stórir hundar eldast almennt hraðar en þeir litlu. Stóri Dani er oft orðinn öldungur 6-7 ára gamall en á þeim aldri er Chihuahua yfirleitt á besta aldri. Tjúarnir eru oft farnir að sýna ellimerki um 10-11 ára. Erfðir, næring, umhverfi og samspil þessara þátta hafa þannig áhrif á það hvernig hundar eldast.

Hverju má búast við þegar hundar eldast?

Margir hundar verða gigtveikir með aldrinum. Þeir geta líka fengið aðra sjúkdóma sem valda því að þeir stirðna upp og verða hægari. Hundurinn þinn gæti þannig ekki enst jafn lengi í göngutúr eða leik og áður. Hundurinn verður þreyttur fyrr og hann á erfiðara með að koma sér fyrir þegar hann leggur sig. Hann gæti hætt að vilja ganga upp og niður stiga eða hoppa upp í bílinn og úr honum.
Tennurnar geta einnig valdið þeim óþægindum. Margir hundar eru komnir með skemmdar tennur um 3-5 ára gamlir. Ef þú hugsar ekki vel um tennur hundsins og sendir hann reglulega í tannhreinsun gæti hann hreinlega misst tennurnar. Skemmdar tennur og tannsjúkdómar valda hundum miklum sársauka og þess vegna eru hundar með tannavandamál oft latir að borða matinn sinn. Þetta getur svo valdið því að hundurinn grennist og feldurinn verður ljótur.
Það geta verið fleiri ástæður fyrir því að hundurinn þinn grennist. Nýrna-, lifra- og hjartasjúkdómar eru algengir hjá gömlum hundum. Þeir geta allir valdið þyngdartapi.
Sumir hundar glíma við andstætt vandamál. Þeir fitna og fitna. Hundar sem hreyfa sig minna en áður og sofa meira eru líklegir til að þjást af ofþyngd. Ofþyngd er stórt vandamál hjá hundum og hægt er að miða við að á meðalstórum hundi stytti hvert aukakíló líf hundsins um heilt ár. Of þungir hundar eldast þannig mun hraðir en þeir sem eru í kjörþyngd.

En hvað geturðu gert til að hjálpa öldungnum þínum?

Það er margt sem hægt er að gera til að koma í veg fyrir alvarleg vandamál eða hægja á ferli þeirra. Hér eru 10 hlutir sem við mælum með að gera.

Farðu reglulega með hundinn til dýralæknis.

Hundar þurfa að fara í skoðun til dýralæknis einu sinni á ári. Í árlegri skoðun eru hundarnir þreifaðir, tennur eru skoðaðar og hlustað er á hjarta og lungu. Hundar þurfa að vera bólusettir annað hvert ár og þeir þurfa að vera ormahreinsaðir á hverju ári.
Margir sjúkdómar greinast ekki í venjulegri skoðun og því er sniðugt að taka blóðprufu úr öldungum á hverju ári. Mundu að það er mun ódýrara að greina sjúkdóm snemma og grípa strax inn í en að meðhöndla þá þegar þeir eru komnir á alvarlegt stig. Sömuleiðis eykur það líkurnar á að hægt sé að gera eitthvað í málnunum ef sjúkdómur er greindur fljótlega eftir að hann byrjar.

gamli5Biddu dýralækninn um að meta líkamlegt ástand hundsins í hverri skoðun.

Biddu dýralækninn sérstaklega um að meta líkamlegt ástanda hundsins. Þannig er hægt að sjá hvort hundurinn sé of þungur, of léttur eða í kjörþyngd. Þú getur líka beðið dýralækninn um að kenna þér að meta líkamlegt ástand hundsins. Skrifaðu niður hvað hundurinn er þungur og fylgstu með breytingum.

Gefðu öldungnum þínum gæðafóður.

Kynntu þér hvað þú þarft að skoða þegar þú velur fóður. Veldu fóður sem hentar orkuþörf hundsins og sem hefur gæðainnihald. Það er góð regla að kaupa ekki fóður sem fást í matvöruverslunum.

Nýttu fóðrið til að halda hundinum í kjörþyngd.

Of þungir hundar eru líklegri til að fá sykursýki, hjartasjúkdóma, húðsjúkdóma og krabbamein. Dýralæknirinn þinn getur hjálpað þér að velja fóður sem hentar þínum hundi, sérstaklega ef hann er þegar of þungur. Það þarf að tryggja að hundurinn fái öll þau næringarefni sem hann þarf þrátt fyrir að vera í megrun. Það er til sérstakt megrunarfóður sem gerir hundinn saddari þrátt fyrir minni skammt.gamli1

Bætiefni gætu hjálpað hundinum.

Það er gott að gefa hundum með gigt eða önnur liða- eða beinavandamál bætiefni. Það er hægt að gefa alls kyns olíur, glúkósamín, chondrotin eða sérstakar töflur fyrir liði. Ræddu möguleikana við dýralækninn þinn og sjáðu hverju hann mælir með fyrir hundinn þinn.

Ef öldungurinn er hjartveikur eða með nýrnaveiki gæti sjúkafóður hentað best.

Það er til sérstakt sjúkrafóður sem hentar hundum með alls kyns sjúkdóma eins og hjartveiki, nýrnaveiki, sykursýki, magavandamál, gigt og fleira. Ræddu sjúkrafóður við dýralækninn þinn til að athuga hvort það sé góður kostur fyrir öldunginn þinn.

Hugsaðu vel um tennur hundsins.

Burstaðu tennur hundsins og farðu reglulega með hann í tannhreinsun hjá dýralækni sem er sérhæfður í tannlækningum dýra. Hér eru 8 ástæður fyrir því að þú ættir að láta tannhreinsa hundinn þinn. gamli3

Haltu öldungnum í góðu formi.

Góð hreyfing heldur hundinum grönnum og hún viðheldur heilbrigðum liðum og vöðvum. Veldu hreyfingu sem hentar þínum hundi. Hundur með liðavandamál ætti til dæmis ekki að fara út að hlaupa með hjóli en lausaganga gæti verið mjög góð fyrir hann. Ef hundurinn þinn er ekki vanur mikilli hreyfingu skaltu byrja hægt og vinna þig smám saman upp. Ef hundurinn þinn á við einhver veikindi að stríða skaltu fyrst tala við dýralækni og láta hann meta hvernig hreyfing væri best.

Hafðu nægt úrval af dóti svo hundinum leiðist ekki.

Gefðu öldungnum krefjandi Kong með gómsætri fyllingu. Æfðu kúnstir með honum og leyfðu honum að hugsa. Farið í feluleik og reynið á heilann. Þó svo að kroppurinn eldist, hafa flestir hundar áfram gaman að því að gera eitthvað skemmtilegt.gamli4

Sumir öldungar þurfa hjálpartæki.

Sumir öldungar þurfa tröppur eða bretti til að komast upp í bílinn. Það hjálpar mörgum hundum með liðavandamál að hafa mottur á gólfum svo þeir hafi betra tak þegar þeir standa upp og ganga um. Mjúk bæli eru mikilvæg fyrir hunda með viðkvæma liði svo álagið á þeim sé sem minnst þegar þeir sofa.
 
 
 
 ]]>


administrator

Berglind á íslenska fjárhundinn Hektor og whippetana Blossa og Takt. Hún hefur mikla reynslu af hundum og er lærður hundaþjálfari og -atferlisfræðingur. Hún lærði í bandaríska skólanum The Academy for Dog Trainers. Berglind er að læra dýrahjúkrunarfræði og vinnur hjá Dýralæknamiðstöðinni í Grafarholti, ásamt því að reka hundaskólann Hundasetrið. Berglind lærði hundanudd í Chicago School of Canine Massage. Hún er með BSc í sálfræði og hefur unnið með Dýrahjálp Íslands.