
Bókin Ugla og Fóa var í gær tilnefnd til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar fyrir bestu frumsömdu barnabók ársins. Bókin fjallar um hundana Uglu og Fóu og hvernig þær náðu að vinna hjarta höfundar sem hafði, að eigin sögn, aldrei verið mikill hundamaður.
Ugla og Fóa eru fyrstu hundarnir sem ég kynntist að einhverju ráði. Fyrir mér höfðu hundar verið hávaðasamir, loðnir ferfætlingar sem gátu gert ákveðið gagn úti í sveit en áttu ekkert erindi inn í borg nema kannski sem lögreglu- eða varðhundar. Mér þótti algjör fásinna að taka inn á heimili hálfvillt dýr sem gegndu engu hlutverki en heimtuðu samt mat sinn og engar refjar. Að tveir púðluhundar yrðu félagar mínir og vinir – nei, því hefði ég aldrei trúað um sjálfan mig. Til þess að mynda vinskap verður maður að lifa tilfinningalífi og hundar lifa ekki tilfinningalífi; þeir eru lifandi vélar – það var trú mín. -Ólafur Haukur Símonarson
Linda Ólafsdóttir var einnig tilnefnd fyrir myndir sínar í bókinni.

Reynir Traustason skrifaði stutta umsögn um bókina fyrir Stundin.is og gefur henni 3 stjörnur.
„Manni líður vel eftir lesturinn.“
„Hundaeigendur munu geta speglað sig í frásögninni.“
„Feður, mæður, afar og ömmur geta lesið úr bókinni fyrir börn sín og barnabörn. Það mun engum leiðast lesturinn.“
„Þetta er bók sem hlýjar manni um hjartarætur. Sönn vinátta manns og hunda er sem glitrandi þráður í gegnum alla bókina. Hún fær þrjár stjörnur.“
Bókin er skrifuð sem barnabók en það ættu allir að geta notið sögunnar um 8 ára þróun Uglu og Fóu inn í hjarta höfundar.