Hundurinn Tyson rakst á þvottabjörn með eiganda sínum, Birgi Haukssyni, skammt frá Höfnum á Reykjanesi þann 19. mars síðastliðinn. Grein birtist um málið á rúv daginn eftir.
„Hann rakst á þetta hundurinn. Við vorum að leita að sandskeljum í Höfnum; hann hefur engan sérstakan áhuga á skeljatínslu þannig að hann var bara í einhverju öðru á meðan. Ég hélt bara að hann væri búinn að finna mink eins og hann gerir oft en svo komu allt önnur hljóð úr holunni þegar ég fór að kanna málið,“ segir Birgir.
Matvælastofnun birti svo tilkynningu á heimasíðu sinni í dag þar sem tilgreint er að þvottabjörninn hafi verið sendur í rannsókn og að hundurinn Tyson, sem komst í snertingu við dýrið, hafi verið settur í heima einangrun og sýni einnig tekið úr honum. Dýravakt Matvælastofnunnar á Facebook svarar nokkrum fyrirspurnum um hvað felst í heimaeinangrun og hversu lengi hún muni standa yfir. Samkvæmt svörum Matvælastofnunnar þá fer eftirlit með heimaeinangrun fram við heimsóknir og úttektir, heimaeinangrunin er til þess að hundurinn komist ekki í snertingu við önnur dýr og mun vera eins löng og þörf þykir, „Allavega þangað til sýna niðurstöðu liggja fyrir og þá er gert nýtt mat eftir niðurstöðum.“.
Það er eftirlitsstarfsfólk Matvælastofnunnar sem hefur eftirlit með heimaeinangrun. Eftirlit með heimaeinangrun fer fram eins og annað eftirlit hjá stofnuninni, við heimsóknir og úttektir.
Einnig segist Matvælastofnun vera með þrjá minnka af svæðinu en ekki sé búið að taka ákvörðun um sýnatöku og krufningu á þeim á þessu stigi málsins.
Lagaleg óvissa virðist vera um hvað eigi að gera við þvottabjörnin
Þekkt er að þvottabirnir geti borið með sér hundaæði meðal annarra sjúkdóma. Kristinn Haukur Skarphéðinsson dýravistfræðingur segir mikilvægt að rannsaka dýrið betur, þvottabirnir séu friðaðir samkvæmt villidýralögum, en lög um innflutning dýra kveða á um að eyða verði þvottabirninum strax og brenna hræið. Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun er hræið komið til Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Ekki fundust nein opinber skjöl um hvernig heimaeinangrun fer fram á vef Matvælastofnunnar og var skrifstofan búin að loka þegar þessi frétt er skrifuð.