#1: Hundar eru hjarðdýr sem lifa eftir skýrum alpha-reglum.

Þetta er ekki satt. Rannsóknir benda til þess að villtir hundar og götuhundar mynda ekki hjarðir eða hópa. Þeir tengjast öðrum hundum og eignast vini en það fer ekki lengra en það. Rakkar taka ekki þátt í uppeldi afkvæma sinna líkt og úlfar gera. Sjá einnig: Það er ekkert til sem heitir forystuúlfur (alpha wolf).

#2: Þú ert að leyfa hundinum að vera foringi heimilsins þegar þú leyfir honum að ganga á undan þér út um hurðina.

IMG_7296

Engin rannsókn sýnir fram á það að hundar pæli nokkurn skapaðan hlut í því hvað það þýðir að ganga út um hurðina á undan eða á eftir fólki eða öðrum dýrum. Það eru tvær ástæður fyrir því að hundar vaða á undan fólki út um dyr. Önnur ástæðan er sú að þeir eru spenntir fyrir því sem er hinum megin við hurðina (útivera, fólk, börn, dót, göngur). Hin ástæðan er einfaldlega gönguhraði hunda. Hundar ganga hraðar en fólk.

#3: Þeir sem eiga marga hunda ættu að halda valdaröðinni réttri í hundahópnum með því að gefa alpha hundinum nammi, klapp og hrós á undan hinum hundunum.

Það er ekki til nein rannsókn sem sýnir fram á að þetta hafi nokkur áhrif á samskipti hunda. Reyndar er það akkurat öfugt. Ef hundar á sama heimili eiga við samskiptaörðugleika að stríða og lenda t.d. í slagsmálum, er mun vænlegra til árangurs að beita klassískri skilyrðingu. Kennið árásargjörnum hundum að það að annar hundur fái dót/nammi/athygli þýði að þeir fái líka dót/nammi/athygli og jafnvel meira en hinn hundurinn. Smám saman þróar hann með sér ánægjulega tengingu við það að aðrir hundar fái eitthvað. Engin skilyrðing á sér stað með því einu saman að gefa einum hundi nammi eða athygli á undan öðrum.

#4: Hundar hafa meðfædda löngun til að vilja þóknast mönnum.

12190237_10153749650541098_151802912_o

Þó svo að nákvæmlega þessi fullyrðing hafi ekki verið rannsökuð af viti, hafa margar rannsóknir sýnt hvað það er sem drífur hunda mest áfram; matur, vatn og æxlun. Leikur og tími með manneskjum sem þeir eru tengdir (sérstaklega eftir fjarveru) drífur hunda einnig áfram. Sársauki og hræðsla drífur hunda áfram, rétt eins og hjá öllum öðrum dýrum. Þeir sem vilja ekki nota verðlaunaþjálfun hafa ekkert annað í boði en að notast við hræðslu og/eða sársauka í þjálfun. Þjálfarar sem nota hræðslu og/eða sársauka í þjálfun segja oft að það sem fái hundinn til að hlýða sé þessi meðfædda löngun til að vilja þóknast manninum en það sem drífur hundinn raunverulega áfram er óttinn við það sem kemur ef hundurinn hlýðir ekki. Hundar gera það sem virkar.  

#5: Verðlaun í þjálfun ganga út á að múta hundinum og koma þannig í veg fyrir tengslamyndun.

ara3

Í fyrsta lagi ganga mútur út á það að gefa eitthvað áður en eitthvað er gert. Verðlaun eru gefin eftir á. Þú gefur hundinum ekki nammibita og segir honum svo að setjast, er það? Það er svo til heilt haf af rannsóknum sem sýna fram á að jákvæðar þjálfunaraðferðir (verðlaunaþjálfun) styrkja sambönd og auka tengslamyndun.

#6: Þú ýtir undir hræðslu, ef þú klappar hundinum og gefur honum athygli, þegar hann er hræddur.

Hræðsla er tilfinningalegt ástand. Hún er viðbragð við einhverju sem er að gerast, eða sem er að fara að gerast, sem hundurinn telur að sé hræðilegt. Hræðsla er ekki eitthvað sem hundur beitir til að fá athygli eða eitthvað sem þú getur gert verra með því að klappa hundinum. Ef byssumaður ræðst inn í banka og skipar öllum að leggjast á gólfið, eru eðlileg viðbrögð fólks að verða hrætt. Ef ég hrósa manneskju sem liggur dauðskelkuð á gólfinu eða býð henni Snickers, verður manneskjan þá hræddari næst þegar hún lendir í aðstæðum sem þessum? Hljómar fáránlega, ekki satt?

#7: Skammaðu hund sem urrar svo hann verði ekki árásargjarn.

Hundar urra þegar eitthvað sem kemur þeim í uppnám er of nálægt þeim. Ef þú skammar hund fyrir að láta þig vita af því að hann sé í uppnámi, verður hundurin áfram í uppnámi en munurinn er sá að hann einfadlega lætur þig ekki vita. Það veldur því að það sem kemur honum í uppnám getur komið nær og nær þar til hann á endanum neyðist til að bíta (þar sem það virkaði ekki að urra síðast). Ian Dunbar kallar þetta að fjarlægja tifarann úr tímasprengjunni. Það er mun betra að hjálpa hundinum að líða vel í kringum það sem hafði áður komið honum í uppnám, svo honum finnist hann ekki þurfa að urra. Ef þú skammar allt urr úr hundi, lærir hann að það eina sem virkar er að bíta.

#8: Togleikir gera hunda árásargjarna

IMG_7415

Engar rannsóknir hafa sýnt fram á að togleikir geri hunda árásargjarna, hvorki við þá sem þeir leika við eða aðra. Ein rannsókn sýndi að hundurinn beinir athyglinni að dótinu sjálfu, en ekki þeim sem hann er að leika við.

#9: Ef þú gefur hundum nagdót eða nagbein, læra þeir að það sé í lagi að naga allt.

Hundar eru mjög góðir í að greina á milli þess sem má og má ekki. Þeir eiga auðvelt með að læra hvað má naga og hvað þeir eiga að láta í friði. Nagþörf hunda fer eftir ýmsu, til dæmis aldri og andlegri orkuþörf. Sumir hundar þurfa alltaf að hafa eitthvað að naga. Ef þeir fá ekki að naga geta þeir orðið gjörsamlega óþolandi. Þeir verða að fá útrás fyrir nagþörfinni sinni og það er mjög mikilvægt að leyfa þeim það.

#10: Þú getur ekki breytt arfgengri hegðun

Hegðun hunda orsakast bæði af erfðum og umhverfi. Hundar læra suma hluti mjög hratt en eru lengur að læra aðra. Þetta er fullkomlega eðlilegt. Enginn hundur fæðist vonlaus. Uppeldið skiptir máli. Sömuleiðis er ekki hægt að segja að þetta sé einungis spurning um uppeldi. Sjá: Er þetta bara spurning um uppeldi?  

Þýtt og birt með leyfi Jean Donaldson 


administrator

Berglind á íslenska fjárhundinn Hektor og whippetana Blossa og Takt. Hún hefur mikla reynslu af hundum og er lærður hundaþjálfari og -atferlisfræðingur. Hún lærði í bandaríska skólanum The Academy for Dog Trainers. Berglind er að læra dýrahjúkrunarfræði og vinnur hjá Dýralæknamiðstöðinni í Grafarholti, ásamt því að reka hundaskólann Hundasetrið. Berglind lærði hundanudd í Chicago School of Canine Massage. Hún er með BSc í sálfræði og hefur unnið með Dýrahjálp Íslands.