Tinna er tveggja ára labrador tík sem var að leika sér á Rockville svæðinu á Suðurnesjum þegar hún fann plöntu sem hún svo japlaði á. Eiríkur eigandi Tinnu kippti sér lítið upp við þetta og leyfði henni að leika með pottaplöntuna í dálitla stund. Mér fannst það ekkert athugavert. Labradorar smakka á öllu sem þeir finna, sérstaklega ef það lyktar. Það er einfaldlega eðlið. Svo missti hún áhugann á þessu fljótlega í skiptum fyrir pylsubita.

Tveimur tímum seinna sá hann að Tinna var orðin veik. Veikindin ágerðust með kvöldinu og á endanum missti hún saur og þvag. Eiríkur hringdi í dýralækni sem ráðlagði honum að koma með hana morguninn eftir. Eiríkur gerði þar og Tinna fékk vökva í æð. Eiríkur tilkynnti lögreglunni um eitrunina. Lögreglan fór á svæðið og náði í um 12 – 14 kannabisrætur ásamt laufum.

Kannabis er hættulegt hundum og köttum, bæði við inntöku og innöndun. Efnið THC veldur truflun á taugaboðum í heila dýranna og eru einkenni eitrunar eftirfarandi:

  • Þunglyndi
  • Lélegt jafnvægi
  • Þreyta/slappleiki
  • Ógleði í formi slefmyndunar eða uppkasta
  • Niðurgangur
  • Lár hjartsláttur
  • Lár blóðþrýstingur
  • Þungur/erfiður andadráttur
  • Víkkun augnsteina
  • Ofvirkni/titringu í vöðvum
  • Aukið væl/raddbeiting
  • flog
  • Dá/meðvitundarleysi

Áhrif frá eitrun plöntunnar er yfirleitt hægt að sjá á fyrstu þremur tímum eftir inntöku eða innöndun. Innöndunin getur verið í formi óbeinna reykinga. Eiríkur lýsti ástandi tíkarinnar eftir að hún komst í plöntuna á heimasíðu sinni:

Hún fór ekki á teppið sitt eins og venjan er heldur stóð gleið við hlið mér, riðaði á fótunum og tinaði. Hún virkaði í fyrstu taugaóstyrk og viðbrigðin sem síðan þróaðist yfir í að vera stygg og óttaslegin. Hrökk í kút við snöggar hreyfingar eða að ljós væru kveikt og óvænt hljóð og sótti ekki eftir félagsskap. Seinna um kvöldið ýmist lá hún hreyfingarlaus eða sat upprétt og tinaði. Skyndilega missti hún saur niður af sér þar sem hún lá eða sat án þess að hún gerði tilraun til að finna stað. Bara sat í pollinum. Og seinna rann þvag niður af henni með sama hætti. Hún var dauf og sljó til augnanna og máttlaus.

Hundasamfélagið fagnar því að Tinna sé á batavegi og minnir fólk á að fylgjast með hvað hundur setur upp í sig í göngutúr eftir fremsta megni.


Guðfinna á Dandie Dinmont Terrier rakkann Watson. Hún er hönnuður, situr í stjórn Félags ábyrgra hundaeiganda og Dýraverndarsambands Íslands. Hún lærði um hegðun týndra dýra hjá Missing Animal Response Network. Nú hjálpar hún til við að finna týnda hunda, býr til auglýsingar og ráðleggur við leitir, einnig er hún að vinna að þróun smáforrits fyrir týnd dýr.