BB.is greindi frá því í gær að í þjálfun hjá Auði Björnsdóttir er labradorhundurinn Gói sem mun láta flogaveikt barn vita af yfirvofandi flogaköstum. Auður hefur verið að þjálfa Góa seinustu þrjá mánuði og mun hann fara til fjölskyldunnar í ágúst. Ekki er vitað hvernig hundar skynja yfirvofandi flog en talið er að þeir finni lykt af hormónabreytingunum í líkamanum rétt fyrir flog. Þetta er fjórði hundurinn sem Auður þjálfar í þessum tilgangi með því að tengja flogið við leik, eftir flog fær hundurinn leik og byrjar því að bjóða upp á hegðun áður en flogið á sér stað sem gefur einstaklingnum eða aðstandendum tíma til að búa sig undir flogið.

Auður og Gói. mynd fengin af BB.is

Við höfum áður fjallað um Auði hér á hundasamfélaginu þar sem hún þjálfaði hundinn sinn Trygg fyrir 10 árum til að aðstoða Viðar, son Auðar. Viðar er hreyfihamlaður og gat ekki fengið þjónustuhund sem er samþykktur sem hjálpartæki á sama hátt og blindrahundar.

Edda og Loppa eru í miðjunni. Mynd fengin af DV.is

Loppa leiddi eiganda sinn heim eftir ráðvilluflog

Árið 2015 greindi Edda Indriðadóttir frá því í viðtali við DV.is þegar hún fékk ráðvilluflog í göngutúr sem olli því að hún vissi ekki hvar hún væri né nafið á Loppu, eina sem hún náði að segja var „heim“ og leiddi Loppa hana heim.

Viðar og Tryggur fyrir um 10 árum.

Hjálparhundar eru ekki samþykktir á Íslandi

Erlendis eru víða samþykktar mun fleiri tegundir hjálparhunda fyrir fólk með fötlun, raskanir og/eða sjúkdóma sem hamla getu notenda þeirra. Þjónustuhundar eru meðal annars sérþjálfaðir fyrir fólk í hjólastólum, þá sem hafa skert jafnvægi og mismunandi heilsufarsleg eða geðræn vandamál. Hundarnir læra að tilkynna yfirvofandi flog. Þeir láta vita af lágum blóðþrýstingi eða róa niður eigandann þegar hann er í kasti t.d. af völdum einhverfu, kvíða eða áfallastreituröskunnar.
Hundarnir geta sótt hluti sem viðkomandi nær ekki í. Þeir læra að opna og loka hurðum og kveikja og slökkva á ljósarofum. Þeir gelta þegar þörf er á aðstoð fyrir eigendur sína og í sumum tilfellum eru hundarnir þjálfaðir til þess að yfirgefa eiganda sinn til að finna næstu manneskju og leiðbeina henni að eiganda sínum.
Hundar geta einnig unnið sem stuðningstæki fyrir einstaklinga með skert jafnvægisskyn með því að halla sér að manneskju og mynda þannig mótjafnvægi. Þar sem Tryggingarmiðstöð samþykkir ekki hjálparhunda sem hjálpartæki þurfa notendur að standa sjálfir í kostnaði fyrir þjálfun sem getur auðveldlega farið yfir hálfa milljón.

Við mælum með greininni Hvað er hjálparhundur?


Guðfinna á Dandie Dinmont Terrier rakkann Watson. Hún er hönnuður, situr í stjórn Félags ábyrgra hundaeiganda og Dýraverndarsambands Íslands. Hún lærði um hegðun týndra dýra hjá Missing Animal Response Network. Nú hjálpar hún til við að finna týnda hunda, býr til auglýsingar og ráðleggur við leitir, einnig er hún að vinna að þróun smáforrits fyrir týnd dýr.