Í frétt sem Rúv birti í dag kemur fram að meðaltali kemur einn hundur á ári dáinn eða í lífshættu á spítalann í Víðidal. Katrín Harðardóttir dýralæknir greindi frá þessu og sagði jafnframt að hundar með flatt trýni væru í mestri hættu.
„Þetta eru helst bulldogs og boxerar. Hundar með flatt trýni þola þetta mjög illa. En allir hundar eru í hættu því það verður svo heitt í bílum í sól,“ segir Katrín.
Matvælastofnun gaf frá sér tilkynningu í dag sem minnir á að það er bannað að geyma hunda í bílnum ef hitinn fer yfir 25° eða undir -5°, og aldrei má skilja hund einan eftir í flutningstæki ef hann sýnir merki um vanlíðan. Katrín varar þó við þessum hitaviðmiðum og bendir á að hitinn þarf ekki að fara yfir 15° til þess að illa fari. Við minnum því á grein sem Berglind skrifaði fyrir Hundasamfélagið í fyrra: Hundar og hitaköst. Einkenni ofhitunar eru (hundurinn þarf ekki að sýna öll einkenni):
- Rauðir gómar
- Hundurinn ælir
- Þykk slímhimna
- Mæði
- Mikið slef
- Ofþornun (ef þú lyftir húðinni upp er hún lengi að fara til baka)
- Hiti
- Sjokk
- Óreglulegur hjartsláttur
- Öndunarerfiðleikar
- Svartar, tjörukenndar hægðir
- Vöðvaskjálfti
- Undarlegt göngulag
- Meðvitundarleysi
Passið upp á hundana í sólinni og hitanum bæði inni í bíl og útivið.