Í frétt sem Rúv birti í dag kemur fram að meðaltali kemur einn hundur á ári dáinn eða í lífshættu á spítalann í Víðidal. Katrín Harðardóttir dýralæknir greindi frá þessu og sagði jafnframt að hundar með flatt trýni væru í mestri hættu.

„Þetta eru helst bulldogs og boxerar. Hundar með flatt trýni þola þetta mjög illa. En allir hundar eru í hættu því það verður svo heitt í bílum í sól,“ segir Katrín.

Matvælastofnun gaf frá sér tilkynningu í dag sem minnir á að það er bannað að geyma hunda í bílnum ef hitinn fer yfir 25°  eða undir -5°, og aldrei má skilja hund einan eftir í flutningstæki ef hann sýnir merki um vanlíðan. Katrín varar þó við þessum hitaviðmiðum og bendir á að hitinn þarf ekki að fara yfir 15° til þess að illa fari. Við minnum því á grein sem Berglind skrifaði fyrir Hundasamfélagið í fyrra: Hundar og hitaköst. Einkenni ofhitunar eru (hundurinn þarf ekki að sýna öll einkenni):

 • Rauðir gómar
 • Hundurinn ælir
 • Þykk slímhimna
 • Mæði
 • Mikið slef
 • Ofþornun (ef þú lyftir húðinni upp er hún lengi að fara til baka)
 • Hiti
 • Sjokk
 • Óreglulegur hjartsláttur
 • Öndunarerfiðleikar
 • Svartar, tjörukenndar hægðir
 • Vöðvaskjálfti
 • Undarlegt göngulag
 • Meðvitundarleysi

Passið upp á hundana í sólinni og hitanum bæði inni í bíl og útivið.


Guðfinna á Dandie Dinmont Terrier rakkann Watson. Hún er hönnuður, situr í stjórn Félags ábyrgra hundaeiganda og Dýraverndarsambands Íslands. Hún lærði um hegðun týndra dýra hjá Missing Animal Response Network. Nú hjálpar hún til við að finna týnda hunda, býr til auglýsingar og ráðleggur við leitir, einnig er hún að vinna að þróun smáforrits fyrir týnd dýr.