8 ástæður fyrir því afhverju regluleg tannhreinsun er mikilvæg fyrir hunda.

Ástæða #1: Tannholdsbólga

80% af öllum hundum (og köttum) eru komnir með einhvers konar tannholdsbólgu um 2ja ára aldur. Þessi bólga hefur áhrif á þann stuðning sem tennurnar hafa og hún getur verið í gómnum, við ræturnar eða við kjálkabeinin.

Ástæða #2: Tannsteinn

Það sem gerist í okkar eigin munni, gerist líka í munni hundsins. Þá má aðalega nefna bakteríuhimnu sem þekur tennurnar. Ef þessi bakteríuhimna er ekki þrifin í burtu á 72 klukkustundum, harðnar hún. Með tímanum, þegar þetta ferli endurtekur sig, myndast grjótharður tannsteinn. Tannsteinn er þetta gula og brúna sem festist á tönnum hundsins. Þegar þú sérð tannstein ertu því að horfa á hundruð laga af storknuðum bakteríuhimnum!

Ástæða #3: Tannburstun

Með því að bursta reglulega yfir tennurnar geturðu komið í veg fyrir eða minnkað þessa tannsteinsmyndun. Minni tannsteinn þýðir heilbrigðari tennur til lengri tíma. Byrjið strax að venja hvolpa við tannburstun. Bakteríurnar sem valda tannholdsbólgu finnast í munni hvolpa strax frá unga aldri og því er aldrei of snemmt að byrja. Gefið hundinum nammi þegar tannburstun líkur, það skemmir ekki árangurinn.

Ástæða #4: Engar skyndilausnir

Að skrapa sjálfur tannsteininn í burtu, á hundi sem er vakandi, gerir vissulega sitt gagn. Það nær þó einungis þeim tannstein sem er sjáanlegur utan á tönnunum. Það nær ekki þeim tannstein sem hefur myndast undir tannholdinu og inni í gómnum en það er staðurinn sem mestu bakteríurnar halda sig á. Þú ert því að skilja eftir mikið af slæmum bakteríum sem mynda fljótlega aftur tannstein. Sýkingin undir tannholdinu heldur áfram að versna og valda hundinum óþægindum.

Ástæða #5: Sársauki

Tannsteinn er eins og steypa sem er stútfull af bakteríum. Þessar bakteríur valda bólgu og sýkingu í tannholdinu, gómnum og í beinunum í kringum rætur tannanna. Þessi bólga getur valdið því að tennurnar losna. Lausar tennur valda hundinum miklum sársauka. Það er mikilvægt að fara með hundinn í árlega heilsufarsskoðun til dýralæknis. Þar eru tennurnar skoðaðar. Dýralæknir athugar hvort allar tennur séu heilar og lausar við tannstein. Oft eru tennur brotnar og þá þarf að skoða það betur og hugsanlega fjarlægja tönnina. Þegar hundar brjóta tennur veldur það þeim alveg jafn miklum sársauka og þegar við brjótum okkar tennur. Vandamálið er að þeir sýna það ekki jafn vel. Merki um að hundur sé með skemmda eða brotna tönn er þegar það safnast meiri tannsteinn öðrum meginn í munninum. Þá er hundurinn líklega að hlífa þeirri hlið.

Ástæða #6: Langtímaáhrif

Bakteríur geta komist í blóðið í gegnum sýkta góma og valdið skaða annars staðar í líkamanum, svo sem í hjartanu og nýrunum.

Fyrir tannhreinsun
Fyrir tannhreinsun
Eftir tannhreinsun
Eftir tannhreinsun

Ástæða #7: Hundar eru hörkutól

Hundar eru oft mjög harðir af sér og láta ekki vita þó þeim sé illt í munninum. Þeir geta þó gefið okkur lúmskar vísbendingar, til dæmis þegar þeir vilja ekki toga jafn fast og vanalega í uppáhalds dótið sitt, neita að borða þurrmat, vilja frekar blautmat og þegar þeir nudda munninum í eitthvað. Ef hundurinn þinn er andfúll og með gular/brúnar tennur skaltu láta dýralækni skoða tennurnar.

Ástæða #8: Sumar tegundir viðkvæmari

Margir smáhundar eru líklegri til að fá tannholdsbólgu. Yorkar, pommeranian, dachshound, schnauzer, chihuahua, miniature pincher, cavalier og fleiri tegundir eru mjög líklegar til að mynda tannstein frá ungum aldri. Sömuleiðis hundar sem eru með síð hár í kringum munninn. Ef þú átt einhverja af þessum tegundum og hugsar ekki mikið um tennur hundsins skaltu láta dýralækni skoða tennurnar tvisvar á ári.

Yfirfarið af Ellen Ruth Ingimundardóttur, dýralækni á Dýralæknamiðstöðinni Grafarholti, sem sérhæfð er í tannlækningum dýra.

Þýtt 31. október, 2015 af http://moderndogmagazine.com/articles/8-reasons-you-should-get-your-dogs-teeth-cleaned/78053


administrator

Berglind á íslenska fjárhundinn Hektor og whippetana Blossa og Takt. Hún hefur mikla reynslu af hundum og er lærður hundaþjálfari og -atferlisfræðingur. Hún lærði í bandaríska skólanum The Academy for Dog Trainers. Berglind er að læra dýrahjúkrunarfræði og vinnur hjá Dýralæknamiðstöðinni í Grafarholti, ásamt því að reka hundaskólann Hundasetrið. Berglind lærði hundanudd í Chicago School of Canine Massage. Hún er með BSc í sálfræði og hefur unnið með Dýrahjálp Íslands.