Urr er dýrmæt viðvörun

En var þetta virkilega ,,alveg upp úr þurru“? Engan veginn! Þegar Rökkvi urraði var hann að segja eiganda sínum: ,,Ég er hræddur við þessi börn sem koma til okkar þegar við erum í göngutúr“. Þetta var einnig hans leið til að segja börnunum: ,,Viljið þið vinsamlegast fara í burtu“. Rökkvi var nefnilega farinn að líta á börn sem ógn, sama hver ástæðan fyrir því var. Með því að skamma hann fyrir að urra á börnin, var þessi viðvörun tekin frá honum. Hann gat ekki sagt það en honum líkaði ennþá illa við börn. Þess vegna var það einungis spurning um tíma, hvenær eitthvað barn myndi ganga of langt, að mati Rökkva. Þegar búið var að taka hans viðvörun (urr) frá honum, var ekkert eftir en að bíta. Að skamma hund fyrir að urra, glefsa eða bíta er eins og að setja plástur yfir sýkt sár. Hann mun hylja sárið í takmarkaðan tíma, án þess að græða það. Það mun í raun versna og verða alvarlegra með tímanum. Þessi svörun (að urra, glefsa, bíta) er einfaldlega svörun við ógnandi áreiti. Alveg eins og hjá mönnum, bregðast hundar við ógnandi áreiti með því að berjast eða flýja (e. fight or flight). Sumir hundar fela sig bakvið lappir eigenda sinna. Aðrir berjast. hræddur1 Þegar hundur skynjar hættu eða ógnun og hann hefur lært að það er ekki í boði fyrir hann að flýja, upplifir hann lært hjálparleysi. Þrátt fyrir að Rökkvi hafi litið út fyrir að sýna engin streitumerki hefði manneskja með þekkingu á merkjamáli hunda séð mörg viðvörunarmerki. Hann hélt höfðinu niðri, eyrun voru límd aftur á bak, það sást í hvítuna í augunum á honum og skottið lá alveg undir líkamanum. Hann var stressaður en hann mátti ekki segja neitt án þess að vera skammaður. Hann trylltist úr hræðslu og beit hendina sem hann hélt að ætlaði að ráðast að sér. Þegar eigandi skammar hund fyrir að urra, er hann ekki einungis að hindra eðlileg samskipti hundsins við manneskjuna sína. Eigandinn stífnar sjálfur upp og það segir hundinum mikið. Þegar börn nálguðust Rökkva varð hann stressaður. Eigandinn brást við með því að stífna upp og skamma Rökkva. Rökkvi leit á þetta sem staðfestingu á því að börn væru eitthvað til að hræðast.

Það þarf að ráðast að rótum vandans, ekki bæla einkennin niður.

Sem betur fer hafa rannsóknir í atferlismótun sýnt fram á betri leiðir til að vinna í vandamálum tengdum árársarhneigð, til dæmis með aðferðum ónæmingar og gagnskilyrðingar (e. counter conditioning). Á heimasíðu the Clicker Train USA segir: ,,Við viljum gagnskilyrða hrædda hundinn okkar svo hann læri að taka aðra hunda í sátt. Með því að sameina gagnskilyrðingu og ónæmingu er það hægt. Við byrjum á að kynna hundinn okkar fyrir öðrum hundum, í stjórnuðum aðstæðum og í litlum skömmtum. Við byrjum með eins mikla fjarlægð og hundurinn ræður við. Í hvert skipti sem hundurinn okkar sér annan hund, gefum við honum nammi. Með tímanum náum við að sannfæra hundinn okkar um að aðrir hundar boði gott. hræddur2

Hvað getur þú gert?

Ef hundurinn þinn sýnir árásakennda hegðun skaltu hafa samband við hundaþjálfara sem notast við jákvæðar þjálfunaraðferðir og sem hefur sérhæft sig í atferli hunda. Á meðan þú bíður eftir hjálp hundaatferlisfræðings eru ákveðnir hlutir sem þú getur gert.   Forðastu þær aðstæður sem hundurinn þinn hræðist. Ef þú átt hund sem geltir og/eða urrar á annað fólk en þið farið venjulega í göngutúr þar sem mikið er um fólk, skuluð þið velja nýja og rólegri leið. Því meira sem hundurinn þarf að umgangast áreiti sem hann hræðist, án þess að unnið sé í vandamálinu, því meiri verður hræðslan. Ef þú rekst skyndilega á eitthvað sem hundurinn þinn hræðist skaltu halda ró þinni. Hundurinn lítur á þig og athugar hvernig þú bregst við. Ekki halda niðri í þér andanum, talaðu rólega við hundinn og verðu glaðleg(ur). Komdu hundinum svo úr þessum aðstæðum eins fljótt og þú getur. Best er að þú náir því án þess að strekkja á taum hundsins. Kynntu þér merkjamál hunda. Það að skilja merkjamál hundanna okkar eru grunnurinn að því að vinna í vandamálum þeirra. Við þurfum að skilja hvað þeir eru að segja okkur. Síðast en ekki síst: Ekki halda að þú eigir grimman hund. Hundurinn þinn er ekki vondur þó svo að hann sýni árásarkennda hegðun. Þetta er ekki vondur hundur. Þetta er ekki grimmur hundur. Þetta er hundur sem á við vandamál að stríða. Vandamál sem er oft hægt að vinna í með atferlismótun.

Þýtt 9. desember af http://www.examiner.com/article/thank-your-dog-for-growling


administrator

Berglind á íslenska fjárhundinn Hektor og whippetana Blossa og Takt. Hún hefur mikla reynslu af hundum og er lærður hundaþjálfari og -atferlisfræðingur. Hún lærði í bandaríska skólanum The Academy for Dog Trainers. Berglind er að læra dýrahjúkrunarfræði og vinnur hjá Dýralæknamiðstöðinni í Grafarholti, ásamt því að reka hundaskólann Hundasetrið. Berglind lærði hundanudd í Chicago School of Canine Massage. Hún er með BSc í sálfræði og hefur unnið með Dýrahjálp Íslands.