Fylgstu með merkjamáli hundsins til að fá vísbendingu um hugarástand hundsins. Hundar tala við okkur með merkjamáli. Þannig geta þeir látið okkur vita þegar þeir eru stressaðir með því að sleikja útum, geispa, snúa höfðinu undan og fleira. Ef þú þekkir ekki merkjamál hunda skaltu skoða kennslumyndbönd eða fara á fyrirlestur um merkjamál (HundaAkademían býður upp á merkjamálsfyrirlestur). Til að læra enn betur inn á merkjamál hundsins þíns skaltu fá einhvern til að taka upp myndband af hundinum þínum í erfiðum aðstæðum. Horfðu svo á myndbandið, í slow motion ef það er hægt. Þú munt sjá merki sem hundurinn gefur frá sér áður en hann sýnir önnur viðbrögð. Næst geturðu þá komið honum úr aðstæðunum áður en stressið tekur völdin. Ef þú ert að kenna hundinum þínum að slaka á í erfiðum aðstæðum skaltu passa að ganga ekki fram af honum. Taktu mark á merkjamáli hundsins og sýndu honum þannig að hann geti treyst á þig. pug-leidur

#2: Ónæming er það að kynna hundinn fyrir erfiðu áreiti, en að gera það hægt og kerfisbundið.

Ef hundurinn þinn er hræddur við ryksugu geturðu t.d. byrjað á að dreifa nammibitum í kringum ryksuguna. Þegar hundurinn er ekki lengur hræddur við að ganga framhjá ryksugunni geturðu kveikt á ryksugunni á lægstu stillingu og haldið áfram að dreifa nammi í kringum ryksuguna. Svo byrjarðu að hreyfa ryksuguna örlítið og tekur mjög lítil skref þar til að lokum þú getur ryksugað eins og vanalega án þess að hundurinn sé hræddur. Þú þvingar hundinn aldrei áfram og ef hann verður hæddur þá bakkar þú um eitt eða fleiri skref. Þú vilt alltaf halda þessari upplifun af ryksugunni jákvæðri. Ef þú þvingar hund til að nálgast áreiti sem hann er hræddur við geturðu ekki einungis átt von á að hræðsla hundsins versni, heldur getur traustið sem hundurinn ber til þín minnkað.

#3: Klassísk skilyrðing er námsferli þar sem áður hlutlaust áreiti er tengt við annað áreiti með endurtekinni pörun við hlutlausa áreitið.

Það hafa margir heyrt talað um Pavlov og slefandi hunda sem hann rannsakaði. Í stuttu máli erum við að para saman eitthvað sem hundurinn er hræddur við og eitthvað sem hundurinn elskar. Þetta er t.d. gert þegar hundar eru hræddir við ókunnuga menn í göngutúr. Í hvert skipti sem þið mætið ókunugum mönnum í göngutúr dælirðu nammi í hundinn en hættir um leið og ókunngui maðurinn er farinn. Hundurinn byrjar að tengja ókunnuga og óhugnalega manninn við eitthvað gott (nammi). Hann hugsar: ,,Vá, ég fæ alltaf nammi þegar við mætum ókunnugum mönum. Ókunnugir menn hljóta að boða eitthvað rosalega gott“.

#4: Það er mjög algengt að hundar óttist ókunnuga.

Leyfðu hundinum þínum að ákveða hvort hann vilji heilsa upp á gesti, í staðinn fyrir að leyfa gestum alfarið að ráða hvort hundurinn fái klapp. Ef hundinum þínum finnst í lagi þegar ókunngir nálgast hann, biddu fólk um að heilsa honum ,,rétt“. Góðar leiðir til að heilsa hundum:

  • Nálgastu hundinn hægt
  • Þegar hendi ykkar nálgast hundin, haldið henni með lófann niður og fingur beygða.
  • Klóraðu hundinum í bringuhæð hundsins, t.d. á bringunni fyrir neðan kinnar hundsins.
  • Hallaðu þér örlítið til hliðar og hafðu slaka líkamsstöðu.

Forðastu að heilsa hundi svona:

  • Ekki vaða hratt að hundinum.
  • Ekki setja hendina yfir höfuð hundsins.
  • Forðastu snöggar hreyfingar.
  • Ekki halla þér yfir hundinn.

Það getur verið erfitt að gefa fólki slíkar leiðbeiningar en mundu að þær eru hundinum þínum fyrir bestu og þær geta komið í veg fyrir slys. tenging

#5: Ef um smávægilegt hræðsluvandamál er að ræða, getur viðvani verið rétta lausnin.

Viðvani er í raun það að venja hundinn við áreiti. Þetta er t.d. gert með góðri umhverfisþjálfun þegar hundurinn er almennt óöruggur á nýjum aðstæðum. Farið á alls konar ný svæði og haldið upplifun hundsins jákvæðri. Gerið slökunaræfingar og hrósið hundinum og gefið nammi þegar hann stendur sig vel. Umhverifsþjálfun hentar öllum hundum, ekki bara þeim sem eru stressaðir. Góð umhverifsþjálfun getur komið í veg fyrir mörg vandamál í framtíðinni.

Innblásið af: http://moderndogmagazine.com/articles/5-ways-help-shy-fearful-or-anxious-dogs/78057


administrator

Berglind á íslenska fjárhundinn Hektor og whippetana Blossa og Takt. Hún hefur mikla reynslu af hundum og er lærður hundaþjálfari og -atferlisfræðingur. Hún lærði í bandaríska skólanum The Academy for Dog Trainers. Berglind er að læra dýrahjúkrunarfræði og vinnur hjá Dýralæknamiðstöðinni í Grafarholti, ásamt því að reka hundaskólann Hundasetrið. Berglind lærði hundanudd í Chicago School of Canine Massage. Hún er með BSc í sálfræði og hefur unnið með Dýrahjálp Íslands.