Streita í lífi hunda Stress og streita hafa mikil áhrif á andlega og líkamlega líðan okkar en hundar sýna sömu líffræðilegu viðbrögð við áreiti og mannfólk.  Hundarnir okkar upplifa því einnig stress og streitu í samskiptum sínum við okkur, aðra hunda og umheiminn.  Heimilishundar þurfa að eiga við margar „ónáttúrulegar“ aðstæður í mannheimum sem geta valdið hjá þeim stressi og álagi en aðlögunarhæfni hunda að okkar lífi er með ólíkindum.  Að vera undir langtíma álagi getur valdið heilsubresti og öðrum vandamálum og því er nauðsynlegt fyrir eigendur að átta sig á því þegar hundarnir þeirra eru farnir að sýna einkenni um streitu til að hægt sé að draga úr henni. Streita getur verið undirliggjandi orsök hegðunaráskorana hjá hundum og með því að draga úr henni getum við haft jákvæð áhrif á hegðun og líðan hundsins okkar og samband okkar við hundinn verður einnig betra Í þessari grein verður fjallað um mikilvægi þess að þekkja streitu hjá hundunum okkar, áhrif streitu á líf hunda og hvað við getum gert til að draga úr henniog þannig langtímaáhrifum á líkamlega og andlega heilsu hundsins okkar.

Hvað er stress/streita?

Flest ykkar kannast við það að upplifa einhverntímann stressandi aðstæður eða augnablik í lífinu. Það merkilega við stress er að efnafræðilega gerist það sama í líkama okkar hvort sem um er að ræða jákvæðan eða neikvæðan stressvald. Efnafræðin pælir nefnilega ekkert í hugsunum okkar, heldur setur  af stað ákveðið kerfi þegar aðstæður koma upp og heilinn sendir út boð um aðstoð. Til dæmis er stressandi að fara í ferðalag til útlanda þó það sé í skemmtiferð (jákvætt stress) en það er líka stressandi að fara í til dæmis í próf (neikvætt stress). Viðbrögð líkamans við stress eru til að mynda aukinn hjartsláttur, kaldur sviti, kvíði, rökhugsun flýgur oft út um gluggann og skjálfti svo fátt eitt sé nefnt. Ástæðan fyrir þessari líðan eru hormónin kortisol og adrenalín. Talað er um kortisol sem aðal streituhormón líkamans, og skýst það upp burt séð frá því hvort að stressvaldurinn er jákvæður eða neikvæður. Það er einnig mikilvægt að hafa í huga að helmingunartími kortisols er 20 mínútur. Það þýðir að ef kortisol magnið þýtur upp í, segjum, 100 þá er það komið í 50 eftir 20mínútur! Adrenalín nær hins vegar toppi 10-15 mínútum eftir atburðinn. Það tekur hundinn að jafnaði 3-5 daga að ná adrenalíni og kortisol aftur á sama stað og það var áður en stressvaldandi atburður átti sér stað.[1]
Langtímaáhrif stressins hefur samt sem áður mest áhrif  því þá fer stressið að festa sig í sessi og við finnum fyrir streitu. Afleiðingar streitu geta verið misjafnar en streita dregur úr varnarviðbrögðum líkamans og líkaminn verður því opnari fyrir hvers kyns sýkingum og sjúkdómum. Helst má nefna: Hjartadrep, æðakölkun, heilablóðfall, sykursýki. verri blóðfitustjórnun, versnun gigtsjúkdóma, öldrun heila, þunglyndi, kvíði, áfallastreituröskun, verri verkjastjórnun og svo mætti lengi telja. Streitan hefur ekki aðeins áhrif á líkamlega færni okkar heldur einnig félagslega. Þannig getur streita haft áhrif á minni okkar og einbeitingu, valdið pirringi og jafnvel reiði. Einnig styttist þráðurinn og við verðum uppstökk án þess að sjáanleg ástæða sé fyrir hendi [2]
Hundar eru spendýr líkt og mannfólkið og hormónin kortisol og adrenalín finnast hjá flestum, ef ekki öllum, spendýrum. Því má leiða líkur að því að sömu efnafræðilegu ferlar eigi sér stað í hundum og mönnum í stressandi aðstæðum. Hinsvegar er raunin því miður sú að fólk sér oft ekki stress einkenni hjá hundum fyrr en þau breytast í streitueinkenni og fara að hafa áhrif á daglegt líf bæði hunds og eiganda. Stress er nefnilega skammtímaviðbragð líkamans við áreiti og streita er langtímaviðbragð líkamans.
Það er því mjög mikilvægt fyrir eigendur að átta sig á því hvað það er sem stressar hundinn og hvernig hægt er að bregðast við því þannig að stressið breytist ekki í streitu.
Við hjá Hundastefnunni teljum að streita sé orsök flest allra hegðunaráskorana hjá hundum og með því að draga úr streitu í lífi hundsins megi hjálpa honum að takast betur á við ýmsar aðstæður. Að draga úr streitu og kenna viðeigandi hegðun getur því verið lykill að því að hjálpa hundum að líða betur og þá geta horfið hinar ýmsu hegðanir sem hafa í gegnum tíðina valdið vanlíðan hjá hundinum eða jafnvel eiganda hans.
Nóg um þetta fræðilega. Tölum  um það sem gagnast ykkur, hundaeigendum.

Hvernig vitið þið hvort að hundurinn ykkar sé stressaður?

Þegar hundar eru settir í stressandi aðstæður byrja þeir á því að sýna mild róandi merki, svo sem að geispa eða sleikja út um. Þegar það dugar ekki til við að róa sjálfa sig niður, áreitið eða til að komast út úr aðstæðunum fara þeir að sýna sterkari merki eins og að hrista sig, væla eða gelta. Hægt og rólega færist hegðunin svo yfir í einkenni streitu (getur gerst á löngum tíma en einnig mjög hratt, fer allt eftir hundi sem og áreiti). Þessi einkenni geta til dæmis verið:[3]
Skyndisleg flasa
Mása mikið
Reynir að losna úr aðstæðum með því að hlaupa burt
Reynir að losna úr aðstæðum með því að hætta að sýna viðbrögð
Hátt og hvellt samfellt gelt
Hvítan í augunum sést allan hringinn
Getur ekki slakað á eða sofið almennilega
Bítur í tauminn
Bítur í buxnaskálmar
Hrukkur í andliti
Niðurgangur
Flaðrar
Riðlast
Skemmir hluti
Brosir „allan hringinn“
Glefsar að öðrum hundum/fólki
….. og svo mætti lengi telja – eða eiginlega upp í ríflega 200 atriði!
sara1 sara2
Hér má sjá myndir af sama hundinum. Önnur sýnir hundinn í afslappandi aðstæðum og hin af hundinum í aðstæðum sem vekja upp mikið stress hjá honum. Eins og sjá má afmyndast hundurinn hreinlega í framan þegar stressið tekur völdin; munnvikin dragast upp, höfuðið er lagt niður, hrukkur í kringum munnvik og á enni. (ljósmynd: Jóhanna Reykjalín).

Hvaða aðstæður geta mögulega valdið stressi hjá hundum?

Auðvitað er misjafnt eftir hundum, alveg eins og hjá mannfólki, hvað það er sem vekur upp stressviðbrögð. En það kemur hins vegar mörgum hundaeigendum á óvart hversu mikið af stressvöldum hundana eru hreinlega búin til af okkur. Sumt af því er nauðsynlegt, eins og að fara til dýralæknis, en annað er hæglega hægt að breyta til að draga úr streitu. Það er okkur lífsins ómögulegt að koma algjörlega í veg fyrir að hundurinn okkar upplifi stressvaldandi atburði en við getum hinsvegar verið til staðar fyrir þá og aðstoðað hundinn þannig að langtímaáhrifin verði ekki eins mikil.
Sem dæmi um stressandi atburði fyrir hunda (munið, misjafnt eftir hundum!). Langt frá því að vera tæmandi listi:
Dýralæknaheimsókn
Hundasýningar
Að elta/sækja bolta
Afmælisboð eigandans
Ferðalög
Of mikil/lítil samskipti við mismunandi hunda
Hundanámskeið með of mörgum hundum
Harka við þjálfun („tekið í“ hundinn t.d.)
Óraunhæfar kröfur eigandans
Breytingar á heimili
Engar reglur
Engin rútína
Ekki nægur svefn
Lítill friður á matartímum
Fær ekki að hafa nagbein í friði
Of lítil/mikil snerting
Mæta hundum/fólki í göngutúrum
Harkalegur leikur við annan hund/fólk

borderstress
Border Collie í heimsókn hjá dýralækninum.
Ljósmynd: Dóra Ásgeirsdóttir
Eins og þið sjáið af listanum er margt sem við hreinlega fáum ekki stjórnað og getum lítið gert í. Hundurinn þarf að fara til dýralæknis, stundum er ómögulegt annað en að fara í ferðalög og sýningar eru stór hluti af lífi sumra hunda og eigenda þeirra. Það er hins vegar fjölmargt á þessum lista sem við getum haft áhrif á og verður það betur rætt á eftir.
Rétt eins og sumt fólk getur orðið háð stressi og orðið vinnualkar, þá getur hið sama hent hunda. Þeir festast í vítahring sem samanstendur af því að fá vænan skammt af adrenalíni en upplifa fráhvarfseinkenni þegar adrenalínið minnkar. Þau vilja endurtaka streituvaldinn sem kom vímunni af stað til að líða betur (rétt eins og líkami skokkara krefst hreyfingar ef hann hættir að hreyfa sig reglulega). Þessir hundar elska til dæmis að sækja/skila bolta því það veitir þeim gríðarlegt adrenalínskot og verða jafnvel svo háðir boltanum að þeir bera hann um í kjaftinum daglangt, ota honum að gestkomandi og krefjast þess að fá boltakast amk 1x á dag. Slíkir adrenalín fíklar taka stundum upp á því að elta bíla til að fá þörfum sínum fullnægt. Skoðum hund sem eltir prik sem er kastað fyrir hann. Prikinu er ekki kastað langt heldur aðeins rétt svo fram fyrir fætur eigandans. Púlsinn hjá hundinum er mældur meðan á þessu stendur og fer hann úr 152 slögum upp í 221. Ef sami hundur er hins vegar látið þefa eftir nammi sem kastað er í gras fer púlsinn frá 138 NIÐUR í 86.[4]  Þetta gefur mikilvægar upplýsingar um hvaða afþreying er heppilegust fyrir hunda.  Mikilvægt er að átta sig á því hvenær hegðun er hætt að veita hundinum gleði og farin að breytast í þráhyggju eftir adrenalínskoti. Þegar það er komið á hreint er hægt að draga hægt og rólega úr stressvaldinum (boltakastinu í þessu dæmi) og hjálpa hundinum þannig að komast yfir fíknina. Þetta hljómar allt frekar absúrt en gefið ykkur smá tíma í að melta þessar upplýsingar og þær munu skýra sig sjálfar fyrir ykkur einn daginn.

Stressglasið

Annað sem vert er að hafa í huga þegar maður skoðar streitu hjá hundum er hversu mikið áreiti þeir þola áður en stressið breytist í streitu. Það mætti líkja þessu við glas. Hver hundur fær við fæðingu úthlutað ákveðið stóru glasi. Með aðstoðs góðs ræktanda sem sinnir umhverfisþjálfun vel, getur glas hvolpsins stækkað. Þannig er hvolpurinn betur í stakk búinn að lenda í stressandi aðstæðum án þess að stressið breytist í streitu. Sumir fá úthlutað glasi á stærð við staup á meðan aðrir hundar fá úthlutað 0,5L glasi.  Í hvert skipti sem hundurinn okkar lendir í atburðum sem valda streitu hellist smávegis í glasið. Munið það sem sagt var frá hér fyrst – að það tekur 3-5 daga fyrir líkamann að komast aftur í eðlilegt horf. Segjum sem svo að hundurinn fái t.d. ekki næga hvíld á milli atburða (hvíldin lækkar kortisol/adrenalín magnið í líkamanum). Hægt og rólega fyllist glasið og streitueinkenni fara að koma í ljós, sbr. meðfylgjandi mynd.
Hugsum okkur hund sem upplifir svona dag. Þegar flæðir upp úr glasinu getur það haft þær afleiðingar að hundurinn fer að glefsa í hendurnar á börnunum á heimilinu, nagar stólfótinn á antikstólnum sem eigandinn fékk í arf frá ömmu sinni, kúkar inni eða geltir að ástæðulausu – svona sem dæmi. Þessi dagur er auðvitað öfgakenndur og vonandi ekki raunin í lífi neins hunds. En hvað getum við gert til að fylla ekki glasið og koma þannig í veg fyrir að það flæði upp úr?

Að takast á við streituna

Eitt af því fyrsta sem eigandi hundsins getur gert er að slappa sjálfur af. Líðan eigandans endurspeglast oft í hundinum. Ef þú ert ör og eirðarlaus eigandi er líklegt að hundurinn þinn finni það og endurspegli þína líðan. Dragðu andann djúpt, settu rólega tónlist á og sýndu hundinum hversu róleg/ur og yfirveguð/yfirvegaður þú ert. Sittu á gólfinu hjá honum og strjúktu hann með taktföstum hreyfingum niður eftir líkamanum og finndu hvernig hann hjálpar þér að róast um leið og þú hjálpar honum.
Flestir hundar eiga bæli eða búr á heimilinu. Því miður eru ekki allir sem virða að sá staður á að vera friðhelgi hundsins (oftar en ekki eru það blessuðu börnin sem trufla svefnfrið hundsins) Kenndu börnunum þínum (og ágengum fullorðnum) að þegar hundurinn er í bælinu/búrinu sínu eigi að láta hann í friði. Allir hundar eiga að hafa aðgang að bæli, undantekningarlaust.
Annað sem er ekki síður mikilvægt er að hundurinn þinn fái hreyfingu (útrás) sem hæfir honum. Það er fátt sem jafnast á við göngutúr, þar sem hundurinn fær að njóta sín og þefa eins og hann langar til. Að þefa hefur róandi áhrif á hundinn og slíkir göngutúrar eru nauðsynlegir fyrir alla hunda. Þarna er ekki verið að tala um að hundurinn eigi að eyða 10 mínútum við hvern ljósastaur. Hæglega er hægt að kenna hundinum að stoppa temmilega lengi við hvern þefblett og fylgja eiganda sínum eftir. Þarna hjálpar einnig lengri taumur (3-5metrar), beisli og góð taummeðhöndlun.
Flestir hreyfa hundana sína vel, en gleyma því að hreyfing er ekki nóg. Hundar þurfa líka að fá að nota heilann og leysa þrautir. Það styrkir sjálfstraust þeirra og bætir samskipti hunds og eiganda ásamt því að hafa róandi áhrif. Klósettrúlluleikurinn er klassískur (loka fyrir endann á tómri klósettrúllu, setja nammi í og loka svo hinum endanum) sem og að þefa uppi nammi sem kastað er í grasið/gólfið. Kong hefur sömu áhrif en það að sleikja og naga leysir út seratónin sem hefur jákvæð áhrif á líðan hundsins.
Þegar kemur að sýningum er mikilvægt að muna að vera rólegur sjálfur, takmarka tíma hundsins á sýningarsvæðinu og verja hann fyrir öðrum hundum/fólki sem reynist oft vera ágengt.
Mestu máli skiptir þó að vera til staðar fyrir hundinn, læra að þekkja-skilja-bregðast við merkjamáli hans og hjálpa honum í aðstæðum sem reynast honum erfiðar. Það mun skila sér í betra sambandi ykkar á milli og þar af leiðandi betri hundi.

Góðar stundir.
[1] Scholz og Reinhardt (2007). Stress in dogs. Dogwise publishing.
[2] https://www.velferdarraduneyti.is/media/velferdarvakt09/HeilsufarOgKreppaLoka.pdf
[3] Sheila Harper. (2011). International Dog behavioral and training school. Bretland.
[4] Pulse project. www.dogpulse.org  – hvet alla til að kynna sér þessa rannsókn!

Höfundar greinar:  Jóhanna Reykjalín og Guðný Rut Isakssen, hundaþjálfarar hjá Hundastefnunni


administrator