Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur skilað Strætó bs áliti sínu varðandi undanþágu á reglugerð um hollustuhætti sem myndi leyfa gæludýr í Strætó í eitt ár. Um er að ræða tilraunaverkefni og verður bréf ráðuneytisins tekið fyrir á fundi stjórnar Strætó í dag um hvort af verkefninu verði.

„Þetta er svo sem búið að vera til skoðunar lengi, alveg frá 2016, hjá strætó,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir, stjórnarformaður strætó.

Strætó sendi erindi vegna verkefnisins í febrúar á síðasta ári og var þar óskað eftir undanþágu frá 55. grein reglugerðar um hollustuhætti eða að breyting verði á reglugerðinni vegna tilraunaverkefnis um gæludýrahald í strætó. Í reglugerðinni segir að dýr megi ekki flytja í almennum farþegarýmum samgöngutækja. 7. apríl 2016 stofnaði Strætó til starfshóps um gæludýr í Strætó. Í starfshópnum voru aðilar á vegum Hollvinasamtaka Strætó, farþegaþjónustu Strætó, trúnaðarmönnum starfsmanna Strætó, þvottastöðvar Strætó, Kattavinafélags Íslands, Hundaræktunarfélags Íslands, Astma- og ofnæmisfélags Íslands, Dýraverndarsambands Íslands og Félags ábyrgra hundaeigenda. Strætó fól þessum vinnuhópi að „meta möguleikann á því hvort leyfa eigi gæludýr í Strætisvögnum sem aka á höfuðborgarsvæðinu“.

Hægt er að lesa skýrslu vinnuhópsins hér

Undanþágan er veitt með þónokkrum skilyrðum.

Heimilt verður að taka hunda, ketti, nagdýr, fugla, kanínur, froska, skrautfiska, skriðdýr og skordýr í vagnana, að því gefnu að þau heimilt sé að halda þau dýr á Íslandi.

Skilyrði fyrir tilraunaverkefninu

  • Óheimilt verður að ferðast með gæludýr á háannatímum, frá 7:00-9:00 og 15:00-18:00.
  • Allir vagnar sem notaðir verða í verkefnið skulu þrifnir vandlega í lok dags.
  • Skilyrt er að dýrin verði í búrum eða töskum aftast í vagninum. Búr eiga að vera skorðuð eða bundin og geymd í kjöltu ábyrgðaraðila eða á gólfinu við fætur hans.
  • Hundar mega þó vera í ól eða beisli, svo framarlega að þeir fari ekki upp á sætin.
  • Útdraganlegir taumar eru bannaðir.
  • Farþegar sem ferðast með gæludýr þurfa að hafa náð 18 ára aldri og bera þeir ábyrgð á dýrunum.
  • Strætó þarf að framkvæmda könnun áður en verkefnið hefst á meðal farþega og vagnstjóra um hvort þau séu hlynnt því að leyfa gæludýr.

Þetta fyrirkomulag þekkist erlendis og hafði vinnuhópurinn á sínum tíma samband við nágrannalöndin til að spyrjast fyrir um fjölda kvartana og hvort eitthvað hægt væri að læra af reynslu annara landa. Almennt var reynslan góð. Smávæginlegur ágreiningur hefur komið upp ef reglur hafa ekki verið skýrar. Eitt slys þar sem hundur meiddist og einstaka tilvik varðandi ofnæmi voru tilkynnt. Þar með var áætlað að mikilvægt er að hafa reglur mjög skýrar og kynna þær vel.

Reglur erlendis um gæludýr í almenningssamgöngum
Reglur erlendis um gæludýr í almenningssamgöngum

Guðfinna á Dandie Dinmont Terrier rakkann Watson. Hún er hönnuður, situr í stjórn Félags ábyrgra hundaeiganda og Dýraverndarsambands Íslands. Hún lærði um hegðun týndra dýra hjá Missing Animal Response Network. Nú hjálpar hún til við að finna týnda hunda, býr til auglýsingar og ráðleggur við leitir, einnig er hún að vinna að þróun smáforrits fyrir týnd dýr.