Í gær birti Félag Ábyrgra hundaeigenda á síðu sinni á síðu sinni ítarlega skýrslu um einangrun á Íslandi sem unnin var af Þorgerði Ösp Arnþórsdóttur, meðlimi, og Guðfinnu Kristinsdóttur, stjórnarmeðlimi í Félagi ábyrgra hundaeigenda. Skýrslan er samtals 39 blaðsíður og fjallar meðal annars um núverandi verkferla, tæknilega- og vísindalega framför og mannréttinda- og dýravelferðar þætti sem forsendur fyrir endurskoðun á núverandi einangrun. Markmið skýrslunnar er að rökstyðja nauðsyn á nýju áhættumati þar sem aðrir kostir eru skoðaðir en fjögurra vikna einangrun annars vegar og engin einangrun hins vegar. Bent er að eyjur eins og Nýja-Sjáland, Ástralíu, Bretland og Hawaii þar sem skilyrði eru ströng en fjöldi daga í einangrun er mun styttri.
Útdráttur skýrslunnar
Áhættumatið sem núverandi lög um innflutning gæludýra til Íslands eru byggð á, var unnið út frá röngum forsendum og verður að teljast óviðunandi. Í áhættumatinu var ekki tekið til skoðunar fyrirkomulag líkt og tíðkast í nágrannalöndum Íslands til að annast eftirfylgni innflutnings dýra, svo sem gæludýrapassakerfi (PETS). Kröfur um bólusetningar, blóðsýnagreiningar og sníkjudýrameðhöndlanir einar og sér, hafa reynst vel í öðrum löndum sem varnir gegn smitsjúkdómum við flutning gæludýra milli landa. Einangrun gæludýra við komu til landsins er óþörf tímaskekkja þegar litið er til framfara í tækni og dýralækningavísindum, sem og frá dýravelferðar- og mannréttindasjónarmiðum.
Ástu Guðrúnu þingmanni Pírata var afhent skýrslan 12. september og hefur hún lagt fram fyrirspurn til nefndarsviðs alþingis þar sem meðal annars er spurt hvort núverandi einangrunarvist standist kröfur um velferð dýra. Þar sem þing er ekki starfandi eins og er telur Ásta ekki líklegt að hún muni fá svar fyrir kosningar, en hún mun leggja fyrirspurnina aftur fram eftir kosningar ef hún hlýtur kjör.
Fyrirspurnin var svohljóðandi:
1. Telur ráðherra að einangrunarvist gæludýra sem koma hingað til lands standist kröfur og reglugerðir um dýravelferð? 2. Telur ráðherra það ásættanlegt með tilliti til mannréttindasjónarmiða, að fólk sem njóta þarf aðstoðar þjónustuhunda geti ekki ferðast með þá milli landa? 3. Telur ráðherra að það áhættumat sem liggur fyrir um einangrunarvist dýra við innflutning hingað til lands, hafi verið unnið út frá réttum forsendum til mats á þeim varnaraðgerðum sem nauðsynlegar eru við innflutning gæludýra? 4. Telur ráðherra að endurskoða lög um innflutning dýra og reglugerðir þar að lútandi og færa nær því sem er í öðrum eyríkjum sem hafa strangar reglur um innflutning á gæludýrum, til dæmis á Hawaii, Bretlandseyjum, Nýja Sjálandi, og í Ástralíu?