Greinin var birt í tímariti fyrir sleðahundaeigendur sem kallast The Sled Dogger. Ef hundurinn þinn lendir ítrekað í slagsmálum við aðra hunda er mikilvægt að leita aðstoðar hundaatferlisfræðings. Það er þó gott að kunna réttu tökin ef þessi vandamál koma upp.

#Ef slagsmálin eru ekki alvarleg

Þegar hundar lenda í slag skaltu byrja á að koma með stutt öskur. Það er oft nóg til að stöðva minni háttar og saklaus slagsmál. Ef slagurinn stendur enn yfir þegar þú kemur hlaupandi að hundunum og öskrið virkaði ekki er tímabært að beita eftirfarandi skrefum:

#Skref 1: Fangið aðra hunda sem eru nálægt

Það hljómar kannski asnalega að byrja á að ná þeim hundum sem eru ekki í slag en þetta er mjög mikilvægt. Þetta er alveg jafn mikilvægt og að koma í veg fyrir frekari slys á fólki ef þú kemur að bílslysi (sem ætti einnig að vera þitt fyrsta skref). Ef það eru lausir hundar í kring skaltu ná þeim og koma þeim á öruggan stað. Ef fleiri hundar taka þátt í slagsmálunum eru mun meiri líkur á meiðslum og það er erfiðara að stöðva slagsmálin.

#Skref 2: Fjarlægið þann hund sem sýnir meiri árásarhneigð

Ef annar hundurinn lítur út fyrir að sýna meiri árásarhneigð en hinn skaltu ná taki á þeim hundi. Ef þú tekur í hundinn sem gefur undan mun árásargjarni hundurinn vaða beint aftur í hann. Taktu þétt um afturlappir hundsins, nálægt mjöðmunum (sjá mynd). Dragðu afturhluta hundsins beint upp í loftið þar til framfætur hans rétt standa á jörðinni. Bakkaðu svo ákveðið í burtu með hundinn. Í þessari stöðu getur hundurinn ekki bitið þig. Ef tvær manneskjur eru á svæðinu sem treysta sér til, er best að gera þetta við báða hundana. [caption id="attachment_2362" align="alignnone" width="428"]Screen Shot 2016-03-08 at 02.21.20 Mynd frá Kristi Benson.[/caption]

#Ef skref 2 virkar ekki

Ef þú ert ein(n) á svæðinu og það virkaði ekki að draga upp lappir hundsins sem er árásargjarn skaltu prófa að lyfta afturfótum hins hundsins. Ef þú ert með sítrónusprey á þér skaltu prófa það næst. Ef ekkert virkar skaltu reyna að koma einhverjum stórum hlut á milli hundanna. Ef þú ert nálægt hurð geturðu tekið í afturlappir annars hundsins og fært þá þannig til. Þegar þú ert komin(n) að opinni hurð skaltu loka hurðinni á milli hundanna, með höfuð hundanna á milli (án þess að skella hurðinni á þá). Þeir munu hætta að slást þegar hurðin er á milli þeirra.

#Skref 3: Metið líkamlegt ástand hundanna

Eru hundarnir slasaðir? Ef ekki, gangið með hundana í burtu, hvor í sína átt. Hjálpið hundunum að hugsa um eitthvað annað í nokkrar mínútur og sleppið þeim aftur (ef þið viljið). Ef hundarnir byrja strax aftur að slást skuluð þið ekki láta þá hittast meira þann dag. Ef hundarnir slást alltaf þegar þeir hittast skaltu annað hvort gæta þess að hundarnir mætist ekki aftur eða fá hjálp frá hundaatferlisfræðingi. Ef hundarnir eru slasaðir skuluð þið fara beint til dýralæknis.

#Hundurinn sleppir ekki takinu

Langflestir hundar hætta að slást um leið og tekið er í afturlappirnar á þeim. Það eru þó til hundar sem ná taki á hinum hundinum og neita að sleppa. Ef það gerist skaltu byrja á að athuga hvar hundurinn hefur tak á hinum hundinum. Ef takið lokar ekki öndunarvegi hundsins er ekki mikil hætta á ferðum. Þá skaltu byrja á að anda inn og út og reyna að halda yfirvegun áður en þú losar takið. Notaðu prik eða stöng, eitthvað sem í laginu eins og kústskaft, helst með flötum enda, sem er sterkt en þó ekki svo hart að það brjóti tennur hundsins. Náðu taki á hálsól hundsins og settu prikið upp í hann, á milli tannanna, eins nálægt jöxlunum og þú getur. Snúðu prikinu í höndunum. Þessi hreyfing þvingar munninn til að opnast. Þegar hundurinn losar takið skaltu fjarlægja hann hratt úr aðstæðunum. Skoðaðu báða hunda vel og leitaðu að sárum. Þessi aðferð er hættulegri en aðferðin þar sem afturlappir eru dregnar upp. Hundurinn getur bitið þig þegar hann losar takið. Þetta er þó eina aðferðin sem er vænleg til árangurs. Þú skalt alls ekki reyna að toga hundinn frá því sem hann hefur tak á. Það gæti valdið mun meiri skaða og húð hins hundsins gæti rifnað.

#Það sem þú átt ekki að gera

Ekki öskra mikið eða í langan tíma. Prófaðu stutt öskur í byrjun en ef það virkar ekki skaltu halda ró þinni. Ekki sparka í hundana eða lemja þá. Þetta getur æst hundana enn meira upp og gert slagsmálin alvarlegri. Það eykur líka líkurnar á að hundurinn ráðist á þig! Þú skalt aldrei setja hendurnar nálægt andliti hundanna.


administrator

Berglind á íslenska fjárhundinn Hektor og whippetana Blossa og Takt. Hún hefur mikla reynslu af hundum og er lærður hundaþjálfari og -atferlisfræðingur. Hún lærði í bandaríska skólanum The Academy for Dog Trainers. Berglind er að læra dýrahjúkrunarfræði og vinnur hjá Dýralæknamiðstöðinni í Grafarholti, ásamt því að reka hundaskólann Hundasetrið. Berglind lærði hundanudd í Chicago School of Canine Massage. Hún er með BSc í sálfræði og hefur unnið með Dýrahjálp Íslands.