Heimur smádýranna setti inn tilkynningu 10. júní: Sérfræðingar á Náttúrufræðistofnun Íslands og Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum standa um þessar mundir að rannsóknum á útbreiðslu og algengi skógarmítils (Ixodes ricinus) hér á landi. Óskað er liðsinnis dýralækna, heilbrigðisstarfsfólks og almennings við að halda til haga mítlum sem finnast á fólki eða dýrum (hundum og köttum) og senda til rannsókna.

Upplýsingar um skógarmítla á vef náttúrufræðistofnunnar:

Skógarmítill (Ixodes ricinus) er áttfætla sem tilheyrir ættbálki blóðmítla (Ixodida) og ætt stórmítla (Ixodidae). Hann er blóðsuga á spendýrum og fuglum og heldur sig í gróðri, einkum skógarbotnum.

Lífshættir skógarmítils á Íslandi hafa lítt verið kannaðir en flestir hafa fundist á hundum, köttum og mönnum. Það var því ánægjulegt að sumarið 2015 barst Náttúrufræðistofnun Íslands beiðni um að taka þátt í verkefni sem nefnist VectorNet sem hefur það að markmiði að rannsaka útbreiðslu sýklabera í Evrópu. Um er að ræða samstarfsverkefni fjármagnað af European Food Safety Authority (EFSA) og European Centre for Disease Preventation and Control (ECDC). Hingað til lands komu tveir sérfræðingar frá Bretlandi til að hefja rannsókn á skógarmítlum í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Ísland og Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.

22. mars 2017. Matthías Alfreðsson: Hefur skógarmítill numið land á Íslandi: svara leitað
Mítill á mismunandi lífsstigum
Mítill á mismunandi lífsstigum

Upplýsingar um hvernig á að fjarlægja mítilinn:

Skógarmítlar eru það stórir að þeir finnast að öllu jöfnu fljótlega á mannslíkamanum og er þá strax gripið til varna. Þeir fá því sjaldnast nægan tíma til að sýkja hinn óheppna blóðgjafa sinn. Mítla skal fjarlægja við fyrstu hentugleika og það haft í huga að máli skiptir hvernig þeir eru losaðir. Það má alls ekki taka utan um bol þeirra og toga í þá. Ef mítillinn er kreistur getur það orðið til þess að að sýklar sprautist úr mítlinum inn í stungusárið. Það þarf að ná taki á munnlimunum fremst á hausnum sem eru grafnir ofan í húðina með oddmjórri flísatöng eða þar til gerðum mítlatöngum, skrúfa  aðeins til hliðanna til að losa betur um fjölmörg hökin á munnlimunum sem tryggja festuna og draga síðan beint út. Þannig má forðast að slíta munnlimina af og skilja þá eftir í sárinu. Sjálfsagt er að sótthreinsa sár, hendur og áhöld á eftir. Síðan skal fylgst vel með stungusárinu og leita strax til læknis ef óeðlilegs roða fer að gæta í húðinni. Meðhöndlun sýkingar á frumstigi er einföld en ef ekkert er að gert getur orðið erfiðara við hana að eiga á seinni stigum.

Það skal ítrekað að hættan á hremmingum af biti skógarmítla hér á landi er hverfandi og líkurnar á því að fá mítilinn á sig úti í náttúrunni eru einnig litlar. Það er þó sjálfsagt að fólk sé á varðbergi og upplýst um þetta málefni  og kunni að bregðast rétt við ef til kemur. Hafa skal í huga að óvíða er náttúra jafn örugg til útivistar og hér á Íslandi svo fólk ætti ekki láta fágæta skógarmítla hefta för.

29.08.2014 Skógarmítlar láta á sér kræla
Stærð á mítli eftir því hvað hann nærist mikið

Vinsamlegast látið fylgja með allar helstu upplýsingar s.s. nafn (finnanda), dagsetningu, fundarstað, hýsil og hvar hýsill hefur haldið sig vikuna áður.

Skógarmítla má afhenda annaðhvort:

  • Náttúrufræðistofnun Íslands Urriðaholtsstræti 6-8, 212 Garðabæ
  • Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum Keldnavegi 3, 112 Reykjavík

Einnig er hægt að hafa samband við Matthías Alfreðsson (matti@ni.is) starfsmann Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Mælt er með því að strjúka reglulega í gegnum feld dýra, sérstaklega eftir lausagöngu í milliháu grasi. Ef mítill finnst er mælt með að nota sérstakar tangir til að fjarlægja mítilinn, eða fara á næsta dýraspítala.


Guðfinna á Dandie Dinmont Terrier rakkann Watson. Hún er hönnuður, situr í stjórn Félags ábyrgra hundaeiganda og Dýraverndarsambands Íslands. Hún lærði um hegðun týndra dýra hjá Missing Animal Response Network. Nú hjálpar hún til við að finna týnda hunda, býr til auglýsingar og ráðleggur við leitir, einnig er hún að vinna að þróun smáforrits fyrir týnd dýr.