Engin dýr búa yfir jafn miklum breytileika, innan sömu tegundar, og hundar. Það getur verið ótrúlegt að hugsa til þess að þriggja kílóa Chihuahua hundur sé í raun sama tegund og 70 kílóa St. Bernhardshundur. Feldur hunda getur verið snöggur, síður, hrokkinn, fíngerður, tvöfaldur, einfaldur og hann kemur í öllum litum. Trýnið getur verið langt og mjótt eða stutt og kramið. Sama á við um eyrun, skottið, búklengd, lappir og tær en allt er þetta breytilegt milli tegunda.

Við mannfólkið eigum jafnvel erfitt með að átta okkur á þessari staðreynd en hvað með hundana? Það hlýtur að vera krefjandi fyrir hund að þekkja allar þessar tegundir. Raunin virðist þó vera að hundar eru ansi góðir í því. Hvernig getur það verið að hundar geti farið á hundasvæði, þar sem þeir leika við hunda af öllum stærðum og gerðum, en um leið og köttur kemur á svæðið verður allt vitlaust? Þekkja hundar virkilega muninn á hvítri púðlu og lambi? Þekkja hundar muninn á Stóra Dana og folaldi? Hvítri kanínu og Maltese?

Eru það kannski hreyfingarnar og lyktin sem hundarnir þekkja? Getur það verið að þeir geti greint hunda frá öðrum tegundum, með augunum einum saman?

Þetta er spurning sem Dominique Autier-Dérian velti fram en hann ákvað að rannsaka þetta, ásamt teymi í Háskólanum í París. Teymið gerði litla rannsókn, þar sem það skoðaði hvort hundar gætu greint á milli hunda og annarra tegunda, með því að nota einungis sjónina. Niðurstöðurnar voru birtar í tímaritinu Animal Cognition.

Rannsóknin var gerð á níu hundum, af öllum stærðum og gerðum en flestir voru blendingar. Hundarnir voru í eigu nemenda í National Veterinary School of Lyon í Frakklandi.

Til að byrja með voru 6000 myndir af dýrum búnar til þannig að sjónarhorn væru eins á öllum myndum og blár bakgrunnur settur við myndirnar. Helmingur myndanna var af hundum og helmingur af öðrum dýrum. Hundamyndirnar sýndu hundategundir af öllum stærðum og gerðum. Myndirnar af öðrum tegundum sýndu húsdýr, fólk, fugla, ketti, kanínur og önnur smádýr.

Rannsóknin fór fram í litlu herbergi með tveimur tölvuskjáum. Áður en rannsóknin fór fram þurfti að þjálfa hundana lítillega. Til að byrja með sýndi annar skjárinn auðan blán bakgrunn en hinn skjárinn sýndi mynd af hundi. Hundarnir lærðu að velja myndina af hundinum, með því að nálgast skjáinn. Þegar hundurinn gerði rétt heyrði hann klikk-hljóð og fékk nammi.

Næsta erfiðleikastig var að í staðinn fyrir auðan bláan bakgrunn, var sett mynd af kú og í stað hundamyndarinnar birtust fjórar mismunandi hundamyndir af handahófi. Hundurinn fékk áfram verðlaun fyrir að velja mynd af hundi. Þegar þeir höfðu lært þetta byrjaði formleg rannsókn.

Áfram var notast við tvo skjái en nú birtist sama myndin aldrei tvisvar. Það kom alltaf mynd af hundi, sem rannsóknarhundurinn hafði ekki séð áður. Sömuleiðis kom mynd af annarri tegund, sem hundurinn hafði ekki séð áður.

Hundunum voru reglulega sýnd 12 pör af myndum, þar sem önnur myndin var af hundi og hin af annarri tegund. Markmiðið var að rannsóknarhundurinn gæti valið hundinn í 10 skipti af 12, tvo daga í röð. Hver einasti hundur í rannsókninni náði þessu.

Til að tryggja að hundarnir væru raunverulega að læra að greina tegundir í sundur breyttu rannsakendur reglunni svo nú áttu hundarnir að velja tegundina sem var ekki hundur. Alir hundarnir gátu þetta líka.

Þótt rannsóknin hafi ekki verið gerð á mörgum hundum, gefur þetta til kynna að hundar geti vissulega greint hunda frá öðrum tegundum, með sjóninni einni saman.


Guðfinna á Dandie Dinmont Terrier rakkann Watson. Hún er hönnuður, situr í stjórn Félags ábyrgra hundaeiganda og Dýraverndarsambands Íslands. Hún lærði um hegðun týndra dýra hjá Missing Animal Response Network. Nú hjálpar hún til við að finna týnda hunda, býr til auglýsingar og ráðleggur við leitir, einnig er hún að vinna að þróun smáforrits fyrir týnd dýr.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.