Hundasamfélagið hefur fengið nýjustu skýrslur frá Matvælastofnun (MAST). Í skýrslunum koma fram upplýsingar úr skoðanaferðum sem stofunin fór í, eftir að hætt var við að loka Dalsmynni í september 2016. Lýsingarnar eru vægast sagt ógnvænlegar og gefa jafnvel þeim hörðustu sting í hjartað.
Í skýrslunum koma enn og aftur fram alvarleg brot á velferð dýra. Þrátt fyrir að mun færri hunda var að finna á Dalsmynni en áður, eða sextán hunda, var um mikla vanrækslu að ræða. Á búinu voru ellefu franskir bolabítar, þrír enskir bolabítar, ein Pincher tík og ein Shetland Sheepdog tík. Í skýrslunni kom fram að Mast myndi svipta umráðamönnum vörslum á ofangreindum hundum sbr. 37. gr. laga um velferð dýra.
Ásta hefur haldið því fram að í viðtölum að hún væri að hætta sökum aldurs. „Við létum lögfræðinginn okkar senda MAST tilkynningu um það að Hundaræktun ehf væri hætt. Sko við erum komin á áttræðisaldur hjónin og höfum verið að trappa niður svona og erum núna bara með heimilishunda.“. Hið rétta virðist vera að Hundaræktin ehf sé gjaldþrota og að krafa um að búið verði tekið til gjaldþrotaskipta hafi farið fram hjá Héraðsdómi Reykjavíkur þann 18. apríl síðastliðinn (dómur fannst ekki við gerð þessarar fréttar) og að ársreikningum hafi ekki verið skilað frá fyrirtækinu í tæplega þrjú ár.

2017 voru ennþá alvarleg brot á velferð dýra

Árið 2017 komu ítrekað í ljós rangar skráningar á upplýsingum. Til dæmis var sama blaðið ljósritað fyrir sextán mismunandi hunda, blöð voru ódagsett og nöfn hunda ekki skráð inn á blöð þannig ekki var hægt að fylgjast með útiveru, fóðrun og þjálfun stakra hunda.

Gömul útfyllt skráningarblöð (frá fyrri árum) virðast hafa verið ljósrituð og endurnýtt í stað þess að fylla út réttar skráningar fyrir hvern hund. T.d. er sama blaðið, ljósritað og merkt júlí, notað fyrir 16 hunda.

Í maí skráir MAST tólf frávik frá reglugerð nr. 80/2016 um velferð dýra, þar af hafa tíu frávik komið upp áður. Í september voru 29 hundar á Dalsmynni, þar af tveir sex mánaða gamlir hvolpar og tveir u.þ.b. sex vikna gamlir hvolpar. Þá komu í ljós fjórtán frávik frá reglugerð nr. 80/2016 um velferð dýra, þar af voru tólf frávik til staðar við síðustu skoðun.

Á skoðunardegi (31. maí 2017) höfðu eigendur nýlokið við að þrífa stíurnar. Þrátt fyrir það var víða þornað hland, saur á gólfum og óhreiningi á veggjum stíanna. Matardallar voru mjög óhreinir að utan af saur. Auk þess var gólf á gangi óhreint þegar komið er inn í hundahúsin. Núverandi framkvæmd þrifa og sótthreinsunar er ekki fullnægjandi m.t.t. ormasmits sem greinst hefur á búinu.

Í september 2017 var staðan svona:

Hundahúsin höfðu ekki verið þrifin á skoðunardegi. Staða óbreytt. Í gotherbergi var frönsk bolabítstík [örmerki] með tvo hvolpa (f. 27.7.2017 að sögn eiganda). Gólfið í gotherberginu var mjög óhreint, og saur, hland og matarafgangar um allt gólf. Myglað fóður á dagblaði á gólfi.
Fyrir 7 af 25 hundum var til full skráning á útiveru, en skráningarnar voru ótrúverðugar, þ.e samkvæmt þeim voru hundarnir úti frá 6:30-16 alla daga í desember 2016-apríl 2017 að undanskildu tímabilinu 24. – 28. febrúar, en þá voru þeir úti frá 14-16. Umráðamenn búsins fullyrða þó að hundunum sé haldið inni í rigningu og roki. Á skoðunardegi 31. maí voru 10 af 16 dyrum lokaðar milli 9:15 og 12. Þarna er ósamræmi á milli skráninga og ummála umráðamanna. Fyrir 10 af 25 hundum voru til sams konar skráningar og fyrir fyrrgreinda hunda en vantaði þó skráningar fyrir síðustu 1-4 mánuði. Fyrir 5 af 25 hundum voru engar skráningar til.

2018 þrjú ný frávik

Í febrúar 2018 voru sextán fullorðnir hundar að Dalsmynni, þar af ein tík með hvolpa í gotherbergi í eigu Margrétar, dóttur Ástu. Margrét meinaði eftirlitsaðilum að skoða gotherbergið þar sem tíkin var með hvolpana. Auk þessara sextán hunda voru tveir heimilishundar í eigu Tómasar Tómassonar, sonar Ástu. Þessir hundar eru ekki taldir með í skýrslum þar sem þeir dvelja í uppgerði íbúð sem var áður hvolpahús að Dalsmynni. Tómas hafnaði ósk eftirlitsmanna um að fá að skoða aðstæður þar inni ef ske kynni að þar væru hvolpar eða hundar geymdir.
Samtals voru ellefu endurtekin frávik frá fyrri skýrslum og þrjú ný frávik. Ekki var unnt að skoða hvort úrbætur hefðu verið gerðar á tveimur frávikum og eitt hafði verið lagfært.
Of kalt var í húsinu, hitamælir sýndi 9,5°C sem er of kalt fyrir hunda. Hundarnir sýndu merki um stress og áverka sem benda til þess að hundarnir séu að naga sjálfa sig á framfótunum, hundar of grannir, einn var haltur á afturlöpp, aðstæður voru einnig óviðunandi þar sem mikið var um óhreinindi og hlandblaut teppi.

Frönsk bolabítstík, Glódís, [örmerki] var með áverka, líklega eftir langvarandi nag/bits, á báðum framfótum, húðin þykknuð og hárlaus með roða og hrúðri. Hún var einnig með of langar klær.

Þetta heldur áfram.

Frönsk bolabítstík, Eyja, [örmerki] var of grönn, holdaskor 2-3 (eðlilegt 4-5), með þunnan og þurran feld, hölt á vinstri afturfæti og með nagsár á framfótum.
Franskur Bulldog rakki, Igor, [örmerki] var með þykknun í húð á fæti eftir nag og með of langar klær.

Þrátt fyrir að alvarleg ormasmit hafi uppgötvast áður á búinu var reglum um slíkt ekki framfylgt:

Ekki var hægt að sýna fram á með skráningum að hundar á búinu hafi verið meðhöndlaður gegn bandormum og spóluormum á fullnægjandi hátt. Engar skráðar ormalyfsgjafir fyrir árið 2017 voru til staðar fyrir 9 hunda. 6 hundar fengu ormalyfsgjöf þann 1.12.2017 sem telst þó ekki vera fullnægjandi meðferð við orminum Strongyloides stercoralis sem hefur greinst fyrr á búinu.

Getur starfað án þess að vera með kennitölu

Þessar aðgerðir MAST ná engöngu til starfsemi í hundahúsum að Dalsmynni og þeirri starfsemi sem væri rekin undir kennitölu. Það er ekkert í aðgerðum stofnunarinnar sem bannar Ástu að halda áfram að selja hunda og halda þá í heimahúsi.

Ákvörðun stofnunarinnar gegn eigendum og umráðamönnum hundanna á Dalsmynni er tekin í þeim tilgangi að stöðva þá starfsemi sem þar er rekin í dag, enda liggur fyrir að þeir hundar sem haldnir eru í hundahúsum að Dalsmynni njóta ekki aðbúnaðar, umhirðu og meðferðar sem lög og reglugerðir kveða á um.

Þetta sýnir og sannar mikilvægi þess að tilvonandi hvolpakaupendur kynni sér aðstæður foreldra hvolpanna. Verið gagnrýnin og fáið að skoða aðstæðurnar sem hvolpar eru aldnir upp í þar sem foreldrarnir lifa sína ævidaga. Ræktunarhundar eiga að vera vel umhverfisþjálfaðir og vera með stöðuga skapgerð. Verð hvolpa ætti að endurspegla þá vinnu, heilsufarsskoðanir og þjálfun sem lögð hefur verið í foreldra hundanna og þá þjálfun og aðstöðu sem hvolpunum hefur verið boðið upp á fyrstu vikur lífs síns. Matvælastofnun getur einungis fylgt þeim reglugerðum sem henni eru settar. Valdið er hjá okkur hundaeigendum. Styðjum ekki hvolpaframleiðslu!
]]>


Guðfinna á Dandie Dinmont Terrier rakkann Watson. Hún er hönnuður, situr í stjórn Félags ábyrgra hundaeiganda og Dýraverndarsambands Íslands. Hún lærði um hegðun týndra dýra hjá Missing Animal Response Network. Nú hjálpar hún til við að finna týnda hunda, býr til auglýsingar og ráðleggur við leitir, einnig er hún að vinna að þróun smáforrits fyrir týnd dýr.