Stjórn Strætó bs. samþykkti einróma á fundi sínum í dag að leyfa farþegum að taka gæludýr með í strætó. Óljóst er hvenær leyfið tekur formlega gildi.

„Það er ekki alveg víst hvenær verður af þessu en málið er í undirbúningi. Strætó þarf fyrst að uppfylla ákveðin skilyrði frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti,“ segir Guðmundur Heiðar Helgason, markaðs- og upplýsingafulltrúi Strætó.

Matvælastofnun fagnar tilraunaverkefninu og telur það geta átt þátt í því að auka dýravelferð með því að auðvelda dýraeigendum að taka með sér dýr til útivistar innan eða utan borgarinnar. Astma- og ofnæmisfélag Íslands ásamt Öryrkjabandalagi Íslands hafa mótmælt því að leyfa gæludýr í strætó sem og vagnstjórar Strætó vegna hættu á ofnæmi og óhreinindum sem gætu fylgt dýrunum. Á meðal skilyrða sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið setti fyrir undanþágunni var að vagnar yrðu þrifnir sérstaklega vel í lok dags, upplýsingar um að gæludýr séu leyfð séu vel sýnileg farþegum áður en gengið er inn í vagninn og að dýrin skuli vera í lokuðum búrum eða töskum. Því er talið að verið sé að koma til móts við alla aðila, sem og þær takmarkanir sem settar eru á hvenar gæludýraeigendur mega koma með dýrin í vagninn. Guðmundur H. Helgason, markaðs- og upplýsingafulltrúi Strætó, segir að ef einhverjir notendur Strætó sem eru með langtímakort treysti sér ekki til að nýta þjónustuna lengur sjái hann því ekkert til fyrirstöðu að fyrirtækið endurgreiði fyrir þann tíma sem eftir er af kortinu. Fordæmi séu fyrir endurgreiðslum á kortum við forsendubrest á þjónustunni. Ef einhverjir treysti sér ekki til þess að ferðast með Strætó eftir að gæludýr verða leyfð þurfi þeir að hafa samband við Strætó og hvert mál verði afgreitt fyrir sig. Hundasamfélagið vill hrósa Strætó fyrir að vinna undirbúningsvinnuna vel, tala við alla hagsmuna aðila og finna lausn sem mun vonandi henta sem flestum.

Hægt er að lesa meira um tilraunaverkefnið hér


Guðfinna á Dandie Dinmont Terrier rakkann Watson. Hún er hönnuður, situr í stjórn Félags ábyrgra hundaeiganda og Dýraverndarsambands Íslands. Hún lærði um hegðun týndra dýra hjá Missing Animal Response Network. Nú hjálpar hún til við að finna týnda hunda, býr til auglýsingar og ráðleggur við leitir, einnig er hún að vinna að þróun smáforrits fyrir týnd dýr.