Þetta kemur fram á Facebook-síðu Landsbankans. „Mér hefði aldrei dottið í hug að einhver myndi stela hundinum mínum. Þú getur rétt ímyndað þér hvað við vorum þakklátir þegar okkur var tjáð að öryggisverðinum hefði tekist að bjarga Drakúla. Landsbankinn fær mikið hrós fyrir þetta,“ segir Viðar. „Ég fór fram á að öryggisvörðurinn yrði sæmdur titlinum starfsmaður mánaðarins fyrir að bregðast svona hratt og vel við.“ Viðar og eiginmaður hans, Sveinn Kjartansson, áttu erindi í útibúið við Austurstræti. Líkt og vanalega bundu þeir Drakúla litla fyrir utan því ekki er leyfilegt að taka hunda með inn í útibúið, í samræmi við reglur um hundahald í Reykjavík. 12342366_1068775939801964_8041883694819367571_nSecuritas annast öryggisvörslu í útibúinu í Austurstræti. Stefán Elinbergsson, öryggisvörður Securitas, fylgdist með manni í gegnum öryggismyndavél fyrir utan bankann þar sem hann klappaði hundinum. „Þegar hann byrjaði svo að losa hundinn áttaði ég mig strax á því hvað væri að gerast og hljóp af stað,“ segir Stefán. Hann náði manninum á Lækjartorgi og endurheimti hundinn. Hrafnhildur Ýr Kristjánsdóttir, staðgengill útibússtjóra í Austurstræti, segir frábært hvað Stefán brást snöggt við. Hún vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar hún sá hann skyndilega fara í loftköstum yfir gólfið. Þegar Stefán hafi svo komið til baka með lítinn hund og útskýrt málavexti hafi hún ekki tekið annað í mál en að fara með hundinn rakleiðis til eigenda sinna sem sátu hjá þjónustufulltrúa, þótt strangt til tekið sé bannað að koma með hunda inn í útibúið. Drakúla hefur hingað til farið í bankann með Viðari og viðrað sig um leið. „Drakúla er eins og barnið okkar og treystir okkur í einu og öllu. Hann er hvers manns hugljúfi og treystir öllum.“ Viðar heyrði nýlega af öðrum hundaeiganda sem hafði orðið fyrir því að hundinum hans var stolið fyrir utan Bónus á Hallveigarstíg. „Þá hugsaði ég að þetta gæti virkilega gerst.“ Þótt Viðar hrósi starfsmönnum bankans í hástert fyrir skjót viðbrögð er hann óánægður með að þegar þeir voru á leið út úr bankanum með Drakúla hefði annar öryggisvörður stöðvað þá og bannað þeim að vera með hundinn inni. 12313635_1068775929801965_8801982717874884983_n Viðar veltir fyrir sér hvers vegna hundar séu bannaðir í bönkum. Hundaeigendur ali hundana sína almennt mjög vel upp hér á landi. Hann skilji að þeir séu bannaðir þar sem matvælaframleiðsla fer fram en það eigi ekki við um banka. Hann telur að þetta gæti ef til vill stafað af því að svo stutt sé frá því að hundahald var leyft í Reykjavík. „Víða í Evrópu fer fólk með hundana sína í banka án þess að það þyki neitt tiltökumál. Ég skil ekki hvers vegna reglurnar þurfa að vera svona strangar hér. Er svarið ef til vill „af því bara“?“ spyr Viðar. Viðar segist ekki ætla að taka Drakúla með sér aftur í bankann svo hann þurfi ekki að binda hann aftur fyrir utan. Hingað til hafi hann notað tækifærið og viðrað hundinn þegar hann á leið í bankann en framvegis verði Drakúla skilinn eftir heima. „Tja, ekki nema Stefán öryggisvörður verði á vakt,“ segir Viðar og hlær. Samkvæmt samþykkt um hundahald í Reykjavík frá 2012 er almennt óheimilt að hleypa hundum inn í hús þar sem almenningur sækir vegna afgreiðslu og þjónustu. Þetta gildir þó að sjálfsögðu ekki um blindrahunda eða aðra hjálparhunda.


Guðfinna á Dandie Dinmont Terrier rakkann Watson. Hún er hönnuður, situr í stjórn Félags ábyrgra hundaeiganda og Dýraverndarsambands Íslands. Hún lærði um hegðun týndra dýra hjá Missing Animal Response Network. Nú hjálpar hún til við að finna týnda hunda, býr til auglýsingar og ráðleggur við leitir, einnig er hún að vinna að þróun smáforrits fyrir týnd dýr.