Hvað er í boði?

Það eru þrír möguleikar fyrir þá sem vilja festa hunda í bílnum.

Búr

Búr eru góð lausn fyrir marga. Plastbúrin eru öruggari en grindarbúr þar sem grindarbúr eiga það til að brotna í árekstrum og þá geta pinnarnir stungist í hundana. Athugið þó að gömul plastbúr eru ekki örugg þar sem plastið harðnar með árunum. Veljið hundabúr sem eru viðurkennd fyrir flug, þau eru sterkust. Því miður eru ekki seld áreksturprófuð hundabúr á Íslandi en hægt er að panta þau á netinu (þau kosta sitt).
Það er mikilvægt að búrið sé fast í bílnum. Það er hægt að festa sum lítil búr með bílbeltinu en önnur búr þarf að strappa niður.
hunduriferdaburi

Bílbelti

Bílbelti eru góður kostur fyrir þá sem hafa ekki pláss fyrir búr. Því miður eru engin öryggisprófuð bílbelti til sölu á Íslandi en hægt er að panta þau á netinu.
Margir velja að nota venjuleg beisli og millistykki til að geta valið beisli með sterkri smellu. Það er mikilvægt að beislið passi vel á hundinn og að hann geti ekki smokrað sér úr því. Við harðan árekstur geta hundar runnið úr beislunum. Hundar verða að vera í beisli ef millistykkið er notað. Ef millistykkið er fest í hálsól getur hundurinn hálsbrotnað við árekstur.
bill5
Það er bæði hægt að hafa hundinn í aftursætinu og í skottinu. Gætið þess að hafa hunda ekki frammí ef það eru loftpúðar í bílnum. Það er hægt að fá vatnsheldar hlífar svo aftursætin og skottið verði ekki skítugt. Í mörgum bílum eru festingar á gólfinu í skottinu. Þar er hægt að festa lokaða króka sem maður festir við millistykkið (sem svo er fest í beislið).
bill3 bill2

Grind

Það er hægt að fá grind til að loka hundinn í skottinu. Gætið þess að velja grind sem er nógu sterk til að þola árekstur. Margar grindur eru eingöngu hannaðar til þess að hundarnir nái ekki að hoppa í aftursætin og trufla þá sem eru í bílnum. Net gera ekkert gagn.
bill4
 
Hér er stutt myndband af öryggisprófunum á alls konar beilsum og búrum. Þetta sýnir hversu mikið vandaverk það er að velja búr, beisli eða grind sem heldur hundinum (og öllum hinum) öruggum.
https://www.youtube.com/watch?v=pIHrDdu_bVE]]>


administrator

Berglind á íslenska fjárhundinn Hektor og whippetana Blossa og Takt. Hún hefur mikla reynslu af hundum og er lærður hundaþjálfari og -atferlisfræðingur. Hún lærði í bandaríska skólanum The Academy for Dog Trainers. Berglind er að læra dýrahjúkrunarfræði og vinnur hjá Dýralæknamiðstöðinni í Grafarholti, ásamt því að reka hundaskólann Hundasetrið. Berglind lærði hundanudd í Chicago School of Canine Massage. Hún er með BSc í sálfræði og hefur unnið með Dýrahjálp Íslands.