Sem fyrr lýkur Menningarnótt með flugeldasýningu laugardaginn 20.ágúst kl 23.00. Flugeldasýningunni verður skotið upp í miðbæ Reykjavíkur í kringum Arnarhól og búist við að flugeldasýningin taki um 15 mínútur samkvæmt áætlun. Við viljum minna hundaeigendur á að gera viðeigandi ráðstafanir.

Halldóra Lind og Heiðrún Klara, hundaatferlisfræðingar hjá HundaAkademíunni, skrifuðu grein til að gera hundaeigendur tilbúna fyrir flugendana í kringum áramótin og birtu hér á síðunni fyrir jól. Við afritum það mikilvægasta úr greininni sem á við í þessum aðstæðum.

Hræðsla við flugelda er nokkuð algeng meðal hunda og annarra dýra. Þetta getur skyggt á hátíðahöld gæludýraeigenda, enda geta hljóðin, ljósin og lyktin frá flugeldunum orsakað mikinn kvíða og hræðslu hjá dýrunum okkar. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að það má gera ýmislegt til að hjálpa hundunum okkar í gegnum þetta tímabil.

Hundar sem hafa fengið góða umhverfisþjálfun frá byrjun og eru vanir allskonar hljóðum í umhverfinu eru síður líklegir til að verða hræddir í kringum áramótin en þeir sem ekki eru vanir.

Búum til notalegar aðstæður fyrir hundinn

Það er gott að útbúa rólegt afdrep fyrir hundinn. Hafið alla glugga lokaða þar sem lyktin af flugeldunum hræðir suma hunda. Dragið fyrir gluggana og hafið ljósin kveikt svo ljós frá flugeldunum verði ekki eins áberandi. Hafið hátt stillta tónlist til að dempa lætin fyrir utan. Einnig er hægt að nota róandi tónlist fyrir hunda. Á Youtube er hægt að finna ,,calming music for dogs“. Gefið hundinum verkefni að dunda við svo athygli hans beinist annað en að látunum. Bein, leikir, æfingar, fyllt kong og fleira.

Gefið hundinum vel að borða

Saddur hundur er rólegri hundur. Það er flott að gefa auka nammi í leik og þjálfun svo hann fái andlega örvun og sé upptekinn í leiðinni.

Ekki ýta undir hræðsluna

hundurmedmanni

Við þurfum að gæta þess vel hvernig við högum okkur í aðstæðum þar sem hundarnir okkar gætu orðið hræddir. Hundar eru mjög næmir á líðan okkar og það er auðvelt að ýta undir hræðslu hjá þeim. Ef við erum spennt og hrædd getur það yfirfærst á hundinn. Ef þú sérð að hundinum þínum bregður við lætin skaltu ekki tala til hans í vorkunnartón heldur láta eins og ekkert sé.

Ef hundurinn flýr, felur sig eða leitar til þín

Ef hundurinn þinn er þegar orðinn hræddur og leitar stuðnings hjá þér máttu gjarnan strjúka honum rólega en berðu þig alltaf vel. Það er sniðugt að nudda hundinn ef hann vill það því það hjálpar til við að losa um spennu. Margir hundar reyna að flýja eða fela sig þegar hvellirnir byrja og ef hundurinn felur sig skaltu leyfa honum það en reyndu að koma þér fyrir nálægt honum. Sumir hundar fara undir rúm, upp í baðkar eða undir sófa. Það er í góðu lagi.

Ekki hafa hundinn lausan úti yfir þetta tímabil

Passið vel að allar útgönguleiðir séu lokaðar, því sumir hundar geta átt það til að stinga af í þessum aðstæðum. Viðrið hundinn í taumi og munið að það er gott að nýta tímann á meðan bjart er úti. Hafið svo í huga að skamma ekki hund fyrir hegðun sem hann gæti sýnt vegna hræðslu, það eykur bara á streitu. Ef hann harðneitar að fara út þá þarf hann ekki að fara út. Annað hvort heldur hann bara í sér eða pissar inni sem má þá ekki skamma fyrir. Þeir hundar sem eru hræddir við lyktina vilja oft ekki vera úti yfir daginn, þar sem lyktin er ennþá til staðar. Í verstu tilfellum getur hundurinn ekki pissað úti þessa daga og þá þarf að keyra með hann út fyrir bæinn og viðra hann þar.

Fleiri hundar saman

Ef þú ert með hvolp/unghund og ert með hræddan fullorðinn hund fyrir gæti sá eldri smitað þann yngri af hræðslunni svo forðast ætti að hafa þá saman ef hægt er. Hundur sem er öruggur á gamlárskvöld getur að sama skapi veitt smeykum hundi stuðning.

Lyf og önnur hjálpartæki

Í mjög slæmum tilfellum þar sem um ofsahræðslu er að ræða er hægt að ráðfæra sig við dýralækni um lyfjagjöf á gamlárskvöld. Mikilvægt er að gera það tímanlega til að finna réttu lausnina. Í dag eru góð lyf í boði, fyrir hrædda hunda, sem hafa ekki sljóvgandi áhrif. Lyfin eru því einungis kvíðastillandi og þau hjálpa hundunum að komast yfir það versta. Fyrir þá sem vilja ekki notast við lyfseðilskyld lyf eru aðrar lausnir í boði, til dæmis: Adaptil fæst hjá flestum dýralæknum. Við mælum sérstaklega með Adaptil fyrir alla hunda og sérstaklega þá sem eru að upplifa sína fyrstu flugelda. Adaptil inniheldur ferómón sem hafa róandi áhrif á hunda. Það hefur verið vísindalega rannsakað og þar kom fram að virknin er raunveruleg. Feliway er sama vara, hönnuð fyrir ketti og við mælum með því. Valerian er lyktarolía sem fæst í Mamma veit best og hjá þeim sem eru að selja Young living olíur. Einnig má prófa lavender og aðrar olíur sem hafa róandi áhrif á fólk en þær geta einnig virkað á hunda. Hægt er að nudda nokkrum dropum af olíunni á feld hundsins eða hreinlega láta hundinn þefa af olíunni. Þetta þarf að endurtaka öðru hvoru um kvöldið á meðan mestu lætin ganga yfir. Calming spot on dropar innihalda valerian og fást í Gæludýr.is. Thundershirt er mjúkt vesti sem þrýstir vel utan um líkamann og veitir öryggi. Það fæst hjá Dýralæknamiðstöðinni í Grafarholti. Það hefur notið vinsælda erlendis til að draga úr streitu hunda. Calm and relaxed nammi var að koma á markaðinn sem nýtt róandi nammi og fæst í Dýrabæ.


Guðfinna á Dandie Dinmont Terrier rakkann Watson. Hún er hönnuður, situr í stjórn Félags ábyrgra hundaeiganda og Dýraverndarsambands Íslands. Hún lærði um hegðun týndra dýra hjá Missing Animal Response Network. Nú hjálpar hún til við að finna týnda hunda, býr til auglýsingar og ráðleggur við leitir, einnig er hún að vinna að þróun smáforrits fyrir týnd dýr.