Dýravakt Matvælastofnunar tilkynnti í dag á Facebook síðu sinni að þau óskuðu eftir hnerrandi hundum og köttum í sýnatöku. Síðustu vikur hefur hnerripest verið að smitast á milli hunda og katta. Rannsóknarstofa Háskóla Íslands að Keldum hefur verið að taka við sýnum, bæði strok- og blóðsýnum til að reyna að finna smitorsök og sent einnig sýni út til rannsóknar, ekki hefur ástæða smitsins fundist enn. Matvælastofnun óskar eftir fleiri sýnum, helst á fyrsta eða öðrum degi einkenna. Þar af leiðandi biðjum við hundaeigendur að fylgjast vel með hundinum sínum og láta Matvælastofnun vita ef hann fer að hnerra. Skoðun og sýnataka er eiganda að kostnaðarlausu á Akureyri og á höfuðborgarsvæðinu.

Hægt er að hlusta á Þóru Jónasdóttir í viðtali um málið hér

Við minnum á að pestin virðist ganga yfir á 7-10 dögum og eru einkenni almennt ekki alvarleg. Sé hundur farinn að hósta er mælt með því að reyna ekki á hundinn, fara frekar út í garð ef þol hundsins verður of lítið fyrir göngutúra. Einnig getur hundur smitað bæði ketti og aðra hunda og því skal varast umgengni við önnur dýr á meðan einkenni eru og í nokkra daga eftir á.


Guðfinna á Dandie Dinmont Terrier rakkann Watson. Hún er hönnuður, situr í stjórn Félags ábyrgra hundaeiganda og Dýraverndarsambands Íslands. Hún lærði um hegðun týndra dýra hjá Missing Animal Response Network. Nú hjálpar hún til við að finna týnda hunda, býr til auglýsingar og ráðleggur við leitir, einnig er hún að vinna að þróun smáforrits fyrir týnd dýr.