Fox 29 fréttaveitan sagði frá því í gær að lögreglan í Newark hafi keyrt yfir tvo lausa hunda eftir 90 mínútna eltingarleik. Annar hundurinn er enn laus þar sem hann náði að flýja eftir að keyrt var á hann en hinn var skotinn til bana af tveimur lögreglumönnum.
Slasaði hundurinn er Þýskur fjárhundur og hundurinn sem var skotinn var af bully hunda kyni, oft kallað Pit Bull.
Leigh Spencer hringdi í dýraeftirlitið seinasta föstudag þegar hún sá hundana lausa á stórri umferðargötu og hafði áhyggjur af því að keyrt yrði á þá. Hún segir að tólf lögreglumenn hafi mætt á staðinn og hlaupið á eftir hundunum og klappað til að reyna að fá þá til að koma. Þetta er alls ekki rétta leiðin til að ná hundum til sín og sagði Leigh frá því að hundarnir hafi verið rosalega hræddir við öll lætin, en samt hafi annar hundurinn komið til hennar til og lagt nefið í hendina á henni áður en lögreglumaður hræddi hann í burtu.

Lögreglan sagði að þrír starfsmenn frá dýraeftirlitinu hafi verið í hópnum og reynt hafi verið að ná hundunum með svokölluðum “catchpoles” og hunda nammi áður en ákveðið var að keyra hundana niður. Lögreglan segir einnig að hundarnir hafi verið með ógnandi tilburði, stokkið í átt að lögreglumönnunum, urrað, sýnt á sér tennurnar og froðufellt. Þar af leiðandi hafi þeir verið að vernda óbreytta borgara.
Ashton Cleveland, starfsmaður hjá SPCA, fór á staðinn með vinkonu sinni að reyna að ná hundunum. Hún segir að hundarnir hafi ekki verið með ógnandi tilburði, vinkona hennar hafi náð að klappa öðrum þeirra og næstum náð að setja á hann taum þegar lögreglan rak þær í burtu. Þeim var sagt að þær yrðu handteknar ef þær myndu reyna að aðhafast meira í málinu. Hún segir að þær hafi þá sest inn í bíl og fylgst með úr fjarska, lögreglumennirnir hafi kallað á hundana og elt þá þar til þeim barst meiri liðsauki, þá hafi þeir byrjað að umkringja hundana, hundarnir hafi þá byrjað að gelta af hræðslu.