- Tíkur byrja yfirleitt að lóða á milli 6-24 mánaða. Smáhundategundir byrja yfirleitt fyrr en stórir hundar.
- Lóðarí endist í um 18-24 daga. Misjafnt er milli tíka hversu mikið blæðir. Þeim þarf ekki að blæða allan tímann þó þær séu að lóða.
- Rakkar geta sætt tíkur alveg frá því að kúlurnar falla og þeir byrja að framleiða sæði. Það byrjar yfirleitt um 6 – 9 mánaða. Sumir rakkar verða ófrjóir með aldrinum en aðrir ekki.
- Tíkur hætta ekki að lóða, þó tíminn á milli lóðaría lengist oft með aldrinum.
Það þarf því alltaf að passa upp á tíkur, sama hversu gamlar þær eru. Það er ekki mælt með því að gamlar tíkur eignist hvolpa þar sem fæðing tekur rosalega á líkamann. Ef um fyrsta got er að ræða er ekki mælt með því að tíkin sé eldri en 5-6 ára, þó er það örlítið breytilegt eftir tegundum. Hugrún lenti í þeirri óvæntu uppákomu að tíkin hennar gaut hvolpi eftir að hafa verið slöpp og furðuleg. Dýralæknar höfðu talið ólíklegt að tíkin væri hvolpafull en svo kom í ljós að það var hvolpur fastur og tíkin þurfti að fara í keisara. Sem betur fer heilsast tík og hvolpi báðum vel og meðlimir Hundasamfélagsins á facebook hafa stungið upp á nafninu Keisari fyrir hvolpinn.

Við fögnum því að báðum heilsist vel og minnum fólk á að það þarf fylgjast með ógeldum tíkum allt þeirra líf. Þeir sem treysta sér ekki til þess eru hvattir til að láta taka þær úr sambandi.