Það kom fram á mbl.is í dag að Matvælastofnun (MAST) vinnur nú að gerð leiðbeininga um matvælaöryggi á þeim veitinga- og kaffihúsum sem vilja leyfa gestum að koma með hunda og ketti sína þangað inn. Gert er ráð fyrir að leiðbeiningarnar verði tilbúnar í byrjun sumars að sögn Dóru Gunnarsdóttur, forstöðumanns Neytendaverndar hjá MAST. Heilbrigðiseftirlitið sendi beiðni á MAST í byrjun árs um að túlka reglugerðina sem heimilar veitingareigendum að leyfa gestum að koma með hunda og ketti ef ákveðnar heilbrigðiskröfur eru uppfylltar. Þessari reglugerð hefur fylgt mikil óvissa hjá heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna og þar með valdið veitingarhúsaeigendum sem vilja leyfa gæludýr miklum erfiðleikum.
Sjá „Hundar leyfðir á kaffihúsum þar sem engin eru matvælin“
Matvælahópur MAST fundaði í byrjun ársins og hafa verið síðan að ræða við erlenda aðila og liggja nú fyrir drög að leiðbeiningum sem eru í umsagnarferli samkvæmt Dóru.
Við tókum þetta fyrir þar strax í byrjun ársins, höfum verið að ræða þessi mál og nú liggja fyrir drög að leiðbeiningum sem eru í umsagnarferli. -Dóra Gunnarsdóttir,forstöðumaður Neytendaverndar hjá MAST
Vilji hópsins er að leiðbeiningarnar verði að samræmdum reglum svo allt landið geti verið undir sömu skilyrðum. Það hefur sýnt sig að heilbrigðiseftirlit hafa verið óviss um hvernig skuli túlka setninguna „Tryggja skal að hundar og kettir séu einungis í veitingasölum veitingastaðar og ekki þar sem matvæli eru tilreidd, meðhöndluð eða geymd.“. Leiðbeiningarnar eru ætlaðar til að eyða þessari óvissu um hvort megi til dæmis laga kaffi og aðra drykki í sama rými og dýrið er í. Einnig segir Dóra að búið sé að skoða hvernig þessu sé háttað erlendis þar sem reglugerðin hér er hér um bil orðrétt upp úr evrópureglugerðinni.
Ég held að það sem skiptir máli er að verja matvæli fyrir mengun. Það er aðalatriðið og hvernig það er gert. Þannig gengur kannski ekki að vera með hlaðborð frammi í veitingasal á stað þar sem leyfilegt er að koma með hunda eða ketti, en það gæti væri að lagi að tilreiða mat bak við afgreiðsluborð, -Dóra Gunnarsdóttir,forstöðumaður Neytendaverndar hjá MAST