Legbólga (e. Pyometra) er skilgreind sem sýking í legi. Um er að ræða sýkingu sem kemur í kjölfarið á hormónafrávikum í æxlunarfærum. Legbólga er alvarlegt ástand og hún getur verið lífshættuleg.

Þegar tík fer á lóðarí, komast hvítu blóðkornin, sem eru vörn gegn sýkingum, ekki að leginu. Þetta gerist til að sæði komist að æxlunarfærum tíkanna án þess að skemmast. Eftir lóðarí hækka gildi prógesterón hormónsins í allt að 8-10 vikur, sem veldur þykknun á legslímhúðinni. Þessi þykknun er undirbúningur æxlunarfæranna fyrir mögulega meðgöngu, ef tíkin skyldi verða hvolpafull. Þetta gerist hvort sem tíkin verður hvolpafull eða ekki. Þegar tíminn líður og tíkin verður ekki hvolpaful, þrátt fyrir að hafa gengið í gegnum nokkur lóðarí, heldur þessi þykknun á legslímhúðinni áfram. Þá geta myndast blöðrur og bólgur á legslímhúðinni. Þetta er kjörið umhverfi fyrir bakteríur. Að auki valda þessi hækkuðu gildi prógesterón hormónsins því að vökvi og bakteríur eru ólíklegri til að skolast út. Samsetning allra þessara þátta leiða svo að lokum oft til legbólgu.

Hvenær á tíðahringnum fá tíkur legbólgu?

Tíkur fá yfirleitt legbólgu 2-8 vikum eftir lóðarí.

Hvaða tíkur fá legbólgu?

Allar tíkur geta fengið legbólgu en yfirleitt fá þær ekki legbólgu fyrr en um miðjan aldur og eftir það. Tíkur sem hafa fengið hormónasprautu (sem kemur í veg fyrir eða stöðvar lóðarí) eru í miklum áhættuhóp.

Tíkur sem eiga sögu um óreglulegt lóðarí og/eða gervióléttu eru sömuleiðis í auknum áhættuhóp.

Tíkur sem er búið að taka úr sambandi fá nánast aldrei legbólgu, en ef legið var ekki tekið getur í undantekningartilfellum myndast legbólga.

Hver eru einkenni legbólgu?

Það óhuggnalega við legbólgu er að tíkur geta verið nánast einkennalausar í lengri tíma. Þess vegna er mikilvægt fyrir eigendur að vera vakandi fyrir eftirfarandi einkennum.

Tíkur geta sýnt einhver eða öll eftirfarandi einkenna:

Drekka mikið/pissa mikið

Lystarleysi

Slappleiki og/eða vanlíðan

Slímug útferð frá ytri kynfærum

Þaninn kviður

Uppköst

Hár hiti

Legbólga getur verið opin eða lokuð. Það fer eftir því hvort leghálsinn sé opinn eða lokaður. Ef hann er opinn, þá lekur sýkt útferð úr leginu. Eigendur sjá oft gröft undir skotti, á hárum eða á bæli tíkarinnar. Ef tík er með lokaða legbólgu, fyllist legið hratt af sýktri útferð. Það er mjög hættulegt og tíkurnar verða fljótt alvarlega veikar. Í verstu tilfellum getur legið rofnað og útferðin lekið í kviðarholið, sem er lífshættulegt ástand. Það er mikilvægt að koma tík með lokaða legbólgu sem fyrst til dýralæknis.

Hvernig er legbólga greind?

Legbólga er yfirleitt greind með sónarskoðun og blóðprufu.

Hvernig er legbólga meðhöndluð?

Þegar tíkur fá legbólgu er eina örugga leiðin að fjarlægja legið úr tíkinni með aðgerð. Stundum er tíkinni gefin sýklalyf í nokkra daga áður en aðgerð er framkvæmd, en það er einungis gert ef tíkin sýnir ekki alvarleg einkenni og sónarskoðun sýnir að legið sé ekki hættulega fullt. Þetta er gert svo tíkin sé í betra ástandi í aðgerðinni.

Til að undirbúa tíkur fyrir aðgerð er þeim gefinn vökvi og sýklalyf í æð. Eftir aðgerð eru þær settar á sýklalyf (og verkja- og bólgueyðandi lyf).

Er legbólga lífshættuleg?

Já. Ef legbólga er ekki meðhöndluð þá getur tíkin verið í lífshættu. Legnámsaðgerðin er einnig hættulegri en venjuleg ófrjósemisaðgerð, þar sem tíkurnar eru veikar þegar aðgerðin er framkvæmd. Aðgerðin má ekki bíða þegar einkenni eru komin langt.

Er hægt að koma í veg fyrir legbólgu?

Já, með því að taka tíkina úr sambandi.

Heimildir:
http://veterinarymedicine.dvm360.com/canine-pyometra-early-recognition-and-diagnosis
https://www.vetwest.com.au/pet-library/pyometra-in-dogs
https://www.vets-now.com/pet-care-advice/pyometra-in-dogs/


administrator

Berglind á íslenska fjárhundinn Hektor og whippetana Blossa og Takt. Hún hefur mikla reynslu af hundum og er lærður hundaþjálfari og -atferlisfræðingur. Hún lærði í bandaríska skólanum The Academy for Dog Trainers. Berglind er að læra dýrahjúkrunarfræði og vinnur hjá Dýralæknamiðstöðinni í Grafarholti, ásamt því að reka hundaskólann Hundasetrið. Berglind lærði hundanudd í Chicago School of Canine Massage. Hún er með BSc í sálfræði og hefur unnið með Dýrahjálp Íslands.