Bjartur
Bjartur

Það lenda margir í því að missa hundinn sinn út. Sem betur fer komast flestir hundar heim til sín heilu og höldnu en því miður var labradorhundurinn Bjartur ekki jafn heppinn. Hundasamfélagið greindi frá því fyrir stuttu að þrír hundar týnast að meðaltali á dag.

Bjartur slapp út í gærkvöldi. Í framhaldi af því hófst mikil leit sem endaði með því að haft var samband við Ágúst og Hrafnhildi, eigendur Bjarts, og þeim sagt að Bjartur hafi fundist við vegkant Vesturlandsvegar klukkan eitt um nóttina. Tvær stúlkur sáu dökkan bíl keyra af vettvangi en þær náðu ekki númeri bílsins. Stúlkurnar komu Bjarti á spítala þar sem allt var gert til að halda lífi í Bjarti, sem var illa á sig kominn.

Því miður lifði Bjartur ekki af vegna innvortis blæðinga í brjóstholi. Ágúst og Hrafnhildur sitja því uppi með reikning upp á 100 þúsund krónur, í ofanálag við sorgina við það að missa sinn besta vin. Bjartur var aðeins tveggja og hálfs árs gamall. Ágúst og Hrafnhildur eru með söfnun á Hundasamfélaginu.

Hundasamfélagið lýsir eftir fleiri vitnum að þessum hræðilega atburði. Ef einhver hefur upplýsingar um málið er þeim bent að hafa samband við lögreglu eða eigendur Bjarts. Við viljum einnig minna á mikilvægi þess að hafa dýrin sín slysa- og sjúkdómatryggð.

Að lokum hvetjum ökumanninn til að gefa sig fram og taka ábyrgð á gjörðum sínum.

Þráðinn á hundasamfélaginu er hægt að finna hér


Guðfinna á Dandie Dinmont Terrier rakkann Watson. Hún er hönnuður, situr í stjórn Félags ábyrgra hundaeiganda og Dýraverndarsambands Íslands. Hún lærði um hegðun týndra dýra hjá Missing Animal Response Network. Nú hjálpar hún til við að finna týnda hunda, býr til auglýsingar og ráðleggur við leitir, einnig er hún að vinna að þróun smáforrits fyrir týnd dýr.