Mast hvetur gæludýraeigendur til að skoða dýrin sín vel.

Þóra J. Jónasdóttir, sérgreinalæknir hjá MAST

Þóra J. Jónasdóttir, sérgreinalæknir hjá MAST, segir flóna lifa á hundum og köttum, en vissulega geti manneskja borið flær í fatnaði í stuttan tíma, enda sé flóin kvik og eigi auðvelt með að stökkva á milli hýsla. Sjaldgæft er að flóin beri bakteríur sem valda alvarlegum sjúkdómum í mönnum. Það eru hins vegar til dæmi um það og því mikilvægt að uppræta flóna strax eins og tekist hefur áður, á hundum á árunum 1980 og 1984 og á innfluttum dýrum í einangrun í Einangrunarstöðinni í Reykjanesbæ árin 2012 og 2013.
Þó flóin sé ekki landlæg hér á landi, þá er hún það í Bretlandi, í Bandaríkjunum og víða í Evrópu. Eins hafa komið upp tilfelli á Norðurlöndunum. Þóra bendir á að þrátt fyrir að sníkjudýrameðhöndlunar gæludýra sé krafist áður en þau eru flutt inn til landsins hefur komið upp fjöldi tilfella þar sem bæði inn- og útvortis sníkjudýr hafa greinst hjá dýrum í Einangrunarstöðinni og þannig verið hægt að uppræta smitið strax. Sum þeirra sníkjudýra geta bæði smitað menn og dýr. Þóra hvetur til þess að kattaeigendur og aðrir séu vakandi og skoði dýrin sín.
Matvælastofnun sendi frá sér frétt í dag sem bendir fólki á að fylgjast vel með dýrum sínum:

,,Matvælastofnun telur mögulegt að útrýma kattaflónni en til þess þarf samstillt átak katta- og hundaeigenda, en þessi tegund flóa lifir jafnt á hundum sem köttum. Mikilvægt er að eigendur séu vel á verði fyrir einkennum. Þau eru m.a. að dýrin klóra sér, sleikja eða bíta meira í húðina en venjulega. Flærnar eru sýnilegar með berum augum en eru fljótar að skjótast í skjól og því stundum erfitt að finna þær. Oft er auðveldara að sjá flóaskítinn. Ráð er að setja hvítt klæði undir dýrið og kemba því með flóakambi og fylgjast með hvort svört korn falla úr felldinum eða jafnvel flærnar sjálfar.“

Hér má sjá Kattaflónna, yfirleitt er hægt er að sjá hana með berum augum á dýrunum.
Hér má sjá Kattaflónna. Yfirleitt er hægt er að sjá hana með berum augum á dýrunum.

„Þetta er sníkjudýr sem við viljum alls ekki fá inn í landið, og full ástæða er til að fólk taki þetta tilvik alvarlega. Sérstaklega þar sem smitleiðirnar eru ekki enn þekktar“ – Þóra J. Jónasdóttir

Það er hægt að lesa sér til um smitvarnir frá Matvælastofnun á dýrasýningum hér. En þess má geta að Stórhundadagar Garðheima verða núna um helgina. Það er því mælt með að allir lesi tilkynningu Matvælastofnunar um einkenni dýra með flónna, sem og að þeir sem ætla á Stórhundadaga eða hundasýningar að koma ekki með flónna heim. Mast mælir með eftirfarandi forvörnum:

  • Klæðist hreinum fatnaði sem auðvelt er að þvo.
  • Hafið búr, teppi og allan búnað hreinan við komu á sýninguna.
  • Varist að dýrin ykkar komist í beina snertingu við dýr á sýningunni, önnur en þau sem þau eru í reglulegu samneyti við.
  • Haldið snertingu fólks við dýrin ykkar í lágmarki, sér í lagi fólks sem nýlega hefur komið erlendis frá.
  • Hafið samband án tafar við dýralækni ef þið fáið grun um smitsjúkdóm á meðan á sýningunni stendur eða eftir að heim er komið.

Guðfinna á Dandie Dinmont Terrier rakkann Watson. Hún er hönnuður, situr í stjórn Félags ábyrgra hundaeiganda og Dýraverndarsambands Íslands. Hún lærði um hegðun týndra dýra hjá Missing Animal Response Network. Nú hjálpar hún til við að finna týnda hunda, býr til auglýsingar og ráðleggur við leitir, einnig er hún að vinna að þróun smáforrits fyrir týnd dýr.