Jákvæðar þjálfunaraðferðir virka fyrir alla hunda. Þær snúast í grunninn um það að verðlauna þá hegðun sem maður vill sjá meira af. Þeir sem fylgja jákvæðum þjálfunaraðferðum nota ekki hengingarólar eða skammir. Það er ekki rifið í hnakka hundanna og þeim er ekki snúið niður (alpha roll). Það er ekki kippt í ólarnar þeirra, spreyólar/geltólar eru ekki notaðar og hundar eru ekki beittir ofbeldi af neinu tagi. Unnið er í sjálfstrausti hundsins og markmiðið er alltaf að ráðast að rót vandans, frekar en að bæla niður hegðun hunds án þess að vita hvað olli henni.
Að þjálfa með jákvæðum þjálfunaraðferðum þýðir ekki að óæskileg hegðun sé alltaf hunsuð eða að hún sé aldrei leiðrétt. Það þýðir ekki heldur að maður geri nákvæmlega það sama með öllum hundum. Í staðinn fyrir að skamma hund fyrir óæskilega hegðun, reynum við að koma í veg fyrir að hundurinn sýni þessa óæskilegu hegðun til að byrja með. Þannig reynum við að koma hundi aldrei í aðstæður sem hann ræður ekki við. Við vinnum í litlum skrefum undir þröskuldi hundsins og byggjum þannig upp sjálfstraust hans. Með tímanum fer hundurinn að þola meira og meira þar til æfing eða aðstæður sem áður voru mjög erfiðar fyrir hundinn verða auðveldar.
Þetta er auðvitað ekki alltaf svona auðvelt. Stundum gelta hundar eða þeir hoppa upp á borð, stela dóti sem þeir eiga ekki og klóra í dýra teppið. Margir halda að það að nota jákvæðar þjálfunaraðferðir þýði að maður myndi hreinlega hunsa svona hegðun. Það er alls ekki rétt. Í svona tilfellum myndum við stýra hegðuninni annað. Við myndum ná athygli hundsins og gefa honum önnur verkefni og stundum hrósa honum þegar hann er farinn að gera það sem við viljum. Þannig stoppum við þessa hegðun sem við viljum ekki sjá án þess að skammast. Þannig erum við einnig að kenna hundinum hvað hann á að gera í staðinn fyrir hvað hann á ekki að gera. Svona getum við sjálf líka lært hversu mikið hundurinn þolir og reynt að vinna í því að þetta gerist ekki aftur. Það getum við gert með því að gera æfingar eða setja aðstæður þannig upp að hann til dæmis geti ekki eða hreinlega vilji ekki hoppa upp á borð (með því að afmarka svæði eða ganga strax frá öllum mat).

Þegar hundur hefur lært að hann græði eitthvað á því að gera það sem við biðjum hann um að gera, fer hann að sýna okkur meira traust og meiri athygli. Það hefur þau áhrif að hundurinn kýs að bjóða okkur hegðun sem er ákjósanleg og sem hann græðir eitthvað á (hrós, nammi, klapp).
Ef þú hefur notast við jákvæðar þjálfunaraðferðir án þess að ná árangri er líklegt að einhver að eftirtöldum þremur ástæðum sé að valda árangursleysinu:
Þú ert að nota þær vitlaust (ekki næg þekking á aðferðinni)
Það er mikilvægt að kynna sér aðferðir og leiðir til að þjálfa hunda. Margir misskilja jákvæðar þjálfunaraðfeðrir t.d. þannig að það eigi alltaf að hunsa hunda sem sýna óæskilega hegðun. Þá er ekki skrítið að lítill árangur náist.
Þú ert of óþolinmóð(ur)
Það tekur tíma að ná árangri. Það getur tekið allt upp í nokkra mánuði að ná árangri ef hundurinn er með alvarleg vandamál, rétt eins og það getur tekið okkur sjálf langan tíma að vinna í andlegum vandamálum. Það eru engar skyndilausnir! Ef þú heldur þér við efnið muntu hins vegar ná góðum árangri með tímanum og það er svo sannarlega tímans virði.
Þú ert að beita þeim vitlaust og ert of óþolinmóð(ur)
Margir eru að nota aðferðirnar vitlaust ásamt því að flýta sér of mikið. Slakið á og njótið tímans með hundinum. Farið á námskeið og lærið réttu tökin.