alltaf að finna eitthvað ógeðslegt og velta sér upp úr því? Af hverju? Í bókinni „Tales of two species“ veltir Patricia McConnell því einmitt fyrir sér, mjög áhugaverð lesning sem mig langar aðeins að fara í gegnum hér ásamt minni eigin þekkingu á viðfangsefninu. Í raun er ekki til nein staðföst ástæða fyrir því að hundar velta sér upp úr óþefjan og ætla ég ekki einu sinni að reyna að halda því fram að ég viti akkurat nákvæmlega ástæðuna fyrir því. En það er eitt sem ég veit með vissu, hundurinn þinn er ekki að þessu bara til að pirra þig! Það þýðir því ekki að refsa hundinum fyrir að koma sæll og kátur angandi eins og sjóari eftir 30daga túr í Barents, með bilaðri sturtu. Ekki refsa hundinum fyrir að þykja lykt góð sem þér finnst vond. En af hverju er hundurinn svona áfjáður í að velta sér upp úr svona viðbjóðslegri lykt? Ein af þeim hugmyndum sem fram hafa komið fjalla um „ilmvatn“. Já, fyrir hundinum er óþefjan, eins og til dæmis dauður fugl, eins og nýjasta Ilmvatnið frá Beyonce Knowles. Sumir segja að jafnvel séu hundarnir að bera á sig „góða lykt“ fyrir hitt kynið, að gera sig meira aðlaðandi og tilkynna að þeir geti fært björg í bú – þeir hafi nefninlega aðgang að þessari óþefjan. Sumir halda því fram að hundar nuddi sér upp úr hlutnum til að merkja hann sem sína eign. En af hverju ekki bara merkja hlutinn með þvagi? Hundar tilkynna komu sína á svæði eða láta vita af sér með því að gera #1 eða jafnvel #2 á eða í kringum hlutinn sem þeir vilja eigna sér. Að sama skapi er því stundum haldið fram að, verandi rándýr, þá séu hundar að dulbúa sig til að eiga auðveldara með að ná bráð sinni. En eins og Patricia McConnell orðaði svo snilldarlega: „Ef ég væri varnarlaus bráð sem fyndi lykt af 40kg dauðum íkorna færast nær mér, yrði ég frekar vör um mig“. Önnur kenning sem Patricia McConnell leggur fram mætti kalla Mont-rassa-kenninguna. Hundar velta sér upp úr óþefjan til að monta sig við aðra hunda um aðgang sinn að dýrindis „steik“. Hundar eru nefninlega ekki bara rándýr heldur fyrst og fremst hræætur sem róta í rusli og öðru í leit að einhverju ætilegu. Að lykta eins og rotin skata gefur því öðrum hundum til kynna að þessi hundur viti af einhverju ljúffengu sem hinir hafa ekki aðgang að. Hressandi. Ef þú átt hund sem er með það eina markmið í öllum lausagöngum að finna ógeðslegasta, verst lyktandi hræ sem hann mögulega getur fundið til að velta sér upp úr – ekki þá hafa hann alveg lausan! Hafðu hann í 10-15m taum svo þú getir fylgst betur með honum og gripið inn í ef hann byrjar. Stundum nægir hreinlega að láta hann draga tauminn á eftir sér, þú þarft ekki endilega að halda í hinn endann. Það þýðir nefninlega ekkert að refsa EFTIR að hundurinn er búinn að velta sér upp úr óþefjan. Kenndu hundinum þínum eitthvað orð sem þýðir „ef þú tekur þá ákvörðun að velta þér ekki upp úr þessu heldur koma til mín færðu verðlaun!“ og verðlaunaðu hundinn eins og hann hafi unnið til gullverðlauna á hundaolympíuleikunum. Það eykur líkurnar á því að hann kjósiað hlýða þér, aftur og aftur og aftur… Hundar velta sér líka upp úr ýmsu nýju og girnilegu sem þeir fá heima fyrir, eins og til dæmis lifranammi, hrátt bein eða þess vegna skítugir sokkar eða óhreinar nærbuxur! Þarna er ráðgátan alveg jafn mikil, en mér finnst líklegast að þeir vilji samlagast þessari yndislegu lykt sem þeir finna svona áður en þeir borða/leika sér með hlutinn. Lyktin er bara svooo góð! Hvers vegna velta hundar sér því upp úr óþefjan? Veistu… ég veit það bara ekki….. Höfundur: Jóhanna Reykjalín, hundaþjálfari Hundastefnunnar