Almenn óánægja virðist vera með hundagjöldin, en þá sérstaklega í Reykjavík. Fólk veit ekki fyrir hvað það er að borga eða í hvað gjöldin fara. Hundasamfélagið ákvað að fara yfir hundagjöldin á mannamáli. Fyrir hvað eru hundaeigendur að borga?!

Gjöldin eru ákvörðuð af Borgarstjórn samkvæmt ákvæðum 25. gr laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

12.gr Gjöld fyrir leyfi Fyrir leyfi til að halda hund skal leyfishafi greiða gjöld sem renna í borgarsjóð, annarsvegar leyfisgjald og hins vegar eftirlitsgjald. Gjöldum þessum er ætlað að standa undir kostnaði borgarinnar af hundahaldinu og framkvæmd samþykktar þessarar. Borgarstjórn setur gjaldskrá samkvæmt ákvæðum 25.gr lagan r. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Leyfisgjaldið greiðist við skráningu hunds og eftirlitsgjald síðan árlega 1. mars með eindaga 1. apríl ár hvert. Dragist greiðsla lengur en mánuð fram yfir eindaga fellur leyfið niður. Heimilt era ð veita þeim hundaeigendum, sem sótt hafa námskeið viðurkennt af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur um meðferð hunda allt að helmings (50%) afslátt af árlegu eftirlitsgjaldi, enda hafi leyfishafi ekki gerst brotlegur við samþykkt þessa. Af undaneldishundum skal ekki greiða árlegt eftirlitsgjald. Hægt er að lesa samþykktina hér

Hundagjöldin eru semsagt þjónustugjald sem eingöngu má fara í að halda uppi eftirlitinu, starfsmönnum, húsnæði og skiltagerð (bannskilti eru hluti af þessu gjaldi). Það má ekki vera afgangur milli ára og eftirlitið hefur verið rekið með tapi síðastliðin 7 ár samkvæmt ársreikningum, allt frá 146.426 kr. árið 2009, upp í 4.629.602 kr. árið 2014. Hægt er að sjá rekstrarniðurstöður Reykjavíkurborgar frá 2008-2014 hér. Hundagerði, ruslatunnur og fleira sem hundaeigendur vilja þarf að sækja úr almennum sköttum og má ekki sækja úr hundagjaldinu.

Í hundagjaldinu er einnig ábyrgðartrygging gegn tjóni þriðja aðila. Hundaeftirlitið fær þessa tryggingu í gegnum Sjóvá og kostar tryggingin 5000 kr. á ári en 5.420.000 kr. fóru í tryggingar samkvæmt yfirliti eftirlitsins árið 2014. Ef  við miðum við að um 5000 hundar séu skráðir á höfuðborgarsvæðinu var hver og einn að greiða 1084 kr. árið 2014 í ábyrgðartrygginguna, fyrir utan sjálfsábyrgð. Sjálfsábyrgðin er að lágmarki 27.800 kr.

Það er ekki hægt að ná á hundafangara eftir kl 19:00 virka daga og ekkert um helgar. Hundaeigendur hafa lent í því að missa hundinn sinn út rétt fyrir kl. 17 á föstudegi og ekki fengið að vita af honum fyrr en á mánudagsmorgni.

Hundasamfélagið bendir á að aðeins einn aðili nýtir sér undanþágu frá gjaldinu.

6. gr. Hundaræktun. Til hundaræktunar telst starfsemi þar sem haldin eru sex eða fleiri dýr og ræktun fer fram, sbr. reglugerð nr. 1077/2004 um aðbúnað og umhirðu gæludýra og dýrahald í atvinnuskyni. Heimilt er að skrá hunda sem undaneldishunda við hundarækt og eru þeir undanþegnir eftirlitsgjöldum sbr. 12. gr. Hunda sem skráðir eru sem undaneldishundar við skráða hundarækt er óheimilt að flytja frá athafnasvæði hundaræktunarstöðvar og skal haldið þar og mega aldrei ganga lausir né á meðal almennings. Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur  er heimilt að veita undanþágu frá þessu ákvæði ef ætlunin er að sýna hundana á viðurkenndum hundasýningum, enda framvísi ræktandi tryggingu vátryggingafélags fyrir því tjóni sem hundur kann að valda þriðja manni.

Samkvæmt upplýsingum Hundasamfélagsins er Dalsmynni eina ræktunin sem nýtir sér þessa undanþágu, enda bjóða fæstir hundaræktendur dýrum sínum fram á líf sem felst í því að komast aldrei út úr húsi.


Guðfinna á Dandie Dinmont Terrier rakkann Watson. Hún er hönnuður, situr í stjórn Félags ábyrgra hundaeiganda og Dýraverndarsambands Íslands. Hún lærði um hegðun týndra dýra hjá Missing Animal Response Network. Nú hjálpar hún til við að finna týnda hunda, býr til auglýsingar og ráðleggur við leitir, einnig er hún að vinna að þróun smáforrits fyrir týnd dýr.