Aðsend grein

Það vita allir sem eiga hund, að þeir eru bestu vinir mannsins. Fátt veit ég jafn gefandi og að hugsa um og eiga hund, sem alltaf tekur á móti manni með dinglandi rófu og blautu nefi. En þegar kemur að hundum, eru margir þættir sem ber að hafa í huga. Ef þú ert að hugsa um að bæta hundi við fjölskylduna þína, þá hvet ég þig eindregið til að lesa áfram.

Þegar við fáum hvolpinn okkar á heimilið, þurfum við að undirbúa hann fyrir alla þá þætti sem kunna að móta hans hegðun og líðan. Við þurfum að vera vakandi fyrir öllum þeim vandamálum sem kunna að mótast og vera búin að kynna okkur tegund hvolpsins okkar svo við séum aldrei í vafa um eðli hans.

Krafa hundsins til starfs og vinnu veltur á tegundareðli hans og persónuleika, en stór partur hegðunarvandamála má rekja beint til ónægrar örvunar og hreyfingar. Það eru nokkrar spurningar sem gott er að spyrja sig að þegar kemur að því að velja hvolp og tegund:

Hversu mikla útivist er ég tilbúin til að stunda næstu 10-15 ár? – Hversu mikinn frítíma hef ég? – Get ég tekið hundinn með mér í vinnuna? – Hvaða hlutverki kemur hundurinn til með að gegna í minni fjölskyldu? – Hversu mikinn pening hef ég aflögu í mat og dýralæknakostnað ? – Hversu gaman þykir mér að ryksuga og þrífa? – Hversu stóran bíl á ég? Hversu mikið pláss hef ég? – Eru börn á heimilinu mínu ? Hvað eru börnin gömul? – Hentar mér sjálfstæður hundur eða samvinnuhundur ?Hef ég svæði þar sem hundurinn minn getur hlaupið laus? – Hvernig er umhverfið? Borg? Sveit? Varplendi?

Sumar tegundir flokkast sem sjálfstæðar tegundir á meðan aðrar flokkast til samvinnutegunda.

Til að mynda fer að öllum líkindum meiri tími og vinna í að þjálfa samvinnutegund að vera ein heima, heldur en sjálfstæða tegund. Þar á móti er önnur samvinna millli hunds og eiganda auðveldari með samvinnutegund heldur en sjálfstæða tegund.

Hundur sem á erfitt með að vera einn heima að eðlisfari og fær ekki þá þjálfun sem krefst í það, er líklegur til að þróa með sér aðskilnarðarkvíða og síðar önnur hegðunarvandamál út frá því.

Rauði þráðurinn ætti að vera sá að bæði hundi og mönnum líði vel og að ákvarðanataka um hundahald sé ekki hamlandi fyrir lífsgæði á báða bóga. Hundahald, eins æðislegt og það er, er hamlandi á vissa vegu og það er eitthvað sem er gott að hafa í huga áður en hvolpurinn kemur. Það er ekki hlaupið að því að fara í frí eða að stunda önnur áhugamál sem krefjast tíma. Það þarf að hafa áreiðanlega pössun þar sem hundurinn fær það sem hann þarf.

Ungir hvolpar hafa ekki líkamlegan þroska til að halda í sér lengur en í klukkustund að meðaltali. Þetta er persónubundið eins og margt annað en þurfa sumir eigendur því að vakna um nætur og snemma á morgnanna til að fara með hvolpinn út að pissa og fara svo með hann út gegnum allan daginn á 1-2 klukkustunda fresti. Einnig þarf hvolpurinn alltaf á klóið eftir mat, drykk, leik og svefn. Það má miða við að hundurinn geti gert slys inni í allt að ár, ef honum er ekki hleypt út reglulega en það fer eftir tegund og stærð hundsins – hve hratt hann þroskast.

Þegar hundurinn verður eldri þurfum við ennþá að gera hinar ýmsu ráðstafanir sem hundaeigendur. Við þurfum að vakna klukkutíma til tveimur fyrr til þess að sinna þörfum hundsins áður en haldið er áfram í daginn (vinnu, skóla o.s.frv.). Eins þurfum við að fara með hundinn út á klóið seint á kvöldin.

Vinna hunda er breytileg eins og áður kom fram, en æskilegt er að daglega fari um það bil þrjár klukkustundir í þjálfun hundsins, að hreyfingu undanskilinni. Hundar hafa ýmsar andlegar og líkamlegar þarfir sem uppfylla þarf daglega og eru fjórar aðal örvunarþarfir þeirra leit, nám, vandamálalausn og jafnvægi. Gott er að styðjast við þær í þjálfun.

Alveg eins og við, hætta hundar aldrei að læra og heilinn aldrei að mótast og þróast. Við þurfum að vera viss um að þróunin eigi sér eðlilegan stað og að allt sé heilbrigt svo einstaklingurinn verði sem stöðugastur og líði sem best í eigin skinni. Hund sem vantar örvun er líklegur til að finna sér eitthvað til örvunar – oftar en ekki falla þær athafnir ekki í kramið hjá okkur tvífætlingum. Hér, eins og annarsstaðar, kemur tegund sterk inn. Hvaða athafnir hundurinn er líklegur til að finna sér. Til að mynda eiga sumar tegundir auðveldara með að byrja að gelta á meðan aðrar væru líklegri til að grafa holur eða naga hluti.

Tegundir og ræktun

Allir þessir þættir spila stóran part í því hvaða hundategund við ættum að velja frekar en aðra. Sumar tegundir krefjast meiri vinnu en aðrar og sumar tegundir krefjast meiri leiðbeininga frá okkur en aðrar og þar af leiðandi meiri tíma. Sumar tegundir krefjast meiri hreyfingar á meðan aðrar þurfa meiri hugarleikfimi. Margar tegundir verða að fá að hlaupa lausar og hlaupa mikið á meðan aðrar geta tileinkað sér 15m radíus í kring um eiganda sinn.

Gott er að horfa í sitt nánasta umhverfi og spyrja sig hvaða eðli er æskilegt að hafa í hundi í þessum aðstæðum? Hvað þarf ég að þjálfa á sérstkalega? Er friðað varplendi í næsta nágrenni? Þá til dæmis er mikilvægt að hafa umhverfisþjálfun í forgangi og æfa hundinn vel í kringum fugla, sérstaklega ef hundurinn er með veiðieðli.

Feldhirða er umræðuefni alveg út af fyrir sig. Feldhundar sem dæmi krefjast mikillar feldhirðu og tíma í kringum það, aðrar tegundir fara óheyrilega úr hárum á meðan sumar fara ekkert úr hárum. Öllum hundum fylgir þó lágmarks feldhirða. Ég til dæmis á tvo Siberian Husky hunda sem koma mér á óvart í hverju hárlosi. Hvaðan koma öll þessi hár !?  Ég þurfti að kaupa mér nýja ryksugu vegna þess að hárin lögðust inn í mótor ryksugunnar og hún hreinlega bráðnaði. Þarna þýðir svo sannarlega ekki að spara.

Ég sem eigandi af þessum tveimur hundum með tvöfalt feldlag, hef þurft að sætta mig við og meðtaka það að það eru hár allstaðar heima hjá mér – og ég meina allstaðar. Hér kemur góður þurrkari sér vel sem síar hár úr fötunum en hann jafnvel tekur þau ekki öll.  Ég hef þurft að sætta mig við að hér eru og munu alltaf vera hár… allstaðar. Hreinir sokkar? – Já, ef hárugir sokkar flokkast sem hreinir.

Ég hef líka lært það, að límrúlla sem tekur hár, er algjör sóun á mínum dýrmæta tíma. Einnig er ég langt yfir það komin að missa matarlystina ef það er hundahár í matnum mínum. Öðruvísi myndi ég sjaldan borða nokkurn skapaðan hlut. Þetta er vissulega verra á hárlosunartímabilunum.

Þegar kemur að því að velja ræktanda og foreldra hvolpsins er mikilvægt að horfa í erfðaþætti og sjúkdóma. Eru foreldrarnir mjaðmamyndaðir? Eru þeir augnskoðaðir? Er saga um veikindi eða aðra kvilla í fjölskyldu hvolpins? Hafa foreldrar staðist skapgerðarmat? Gerir ræktandi hvolpamat á gotinu? Gerir ræktandi fyrirbyggjandi hluti með hvolpunum á borð við hljóðhræðslu og kynningu á undirlagi? Hve margir hvolpar eru í gotinu? Hvernig er matartíma þeirra háttað?

Best er að kynna sér málin sem allra best og fá sem skýrustu heildarmynd af þeim heimi sem hvolpurinn þinn er að koma frá. Hafi ræktandi fengið hundaatferlisfræðing til að meta hvolpana er gott að nýta sér þær upplýsingar til að rækta styrkleika og styrkja veikleika hvolpsins, svo ólíklegra sé að veikleikar hans ræktist og stækki í framtíðinni. Einnig er líka gott að hafa bak við eyrað að rakkar eru oftar en ekki meira krefjandi heldur en tíkur.

Hreinræktaður eða blandaður hundur?

Þessi spurning er umdeild meðal hundaeigenda. Í rauninni er svoldið erfitt er að segja hvort er betra, ef nánar er litið á. Þegar þú færð þér hreinræktaðan hund, veistu hverju þú mátt búast við. Tegundirnar hafa viss ræktunarmarkmið, hreyfiþörf og vinnukröfur samkvæmt því.

Ef við tökum Border Collie sem dæmi, þá getum við sagt að við vitum með vissu að við séum með orkumikinn og hugsandi hund í höndunum, sem hefur þörf til að safna saman og flytja hóp dýra. Þeir eru ræktaðir til þess að fylgjast grannt með minnstu hreyfingum og er augnarráðið sem þeir gefa oft kallað ”the eye”. Hér getur komið upp tegundartengt vandamál þar sem hundurinn fer að narta í hæla barnanna á heimilinu eða jafnvel að smala bílum (sem er stórhættulegt). Hann getur orðið smeikur við fólk vegna þess hve vel hann fylgist með líkamsmerkjum þess og hættir honum til að oftúlka þau. Þessum vandamálum má búast við af Border Collie, sérstaklega ef hann fær ekki sína vinnu. Á meðan þetta væri strembið, snúið og ótegundartengt vandamál með Labrador, vegna þess að þetta er ekki eitthvað sem vænta má af honum samkvæmt hans eðli.

Labrador hinsvegar ætti að hafa áhuga á að bera hluti og sumir hverjir hafa óseðjandi vatnsáhuga. Það þekkist að þeir steli inniskóm, sokkum og öðru frá eiganda sínum, bara til þess að halda á því.

Þegar kemur að blendingum þurfum við að horfa vel í þær tegundir sem eru á bakvið hundinn okkar. Við getum aldrei verið viss um hvaða eðli er ríkjandi í honum, eða hvaða eiginleika hann fékk frá hvaða tegund – og ég tala ekki um ef hann er blandaður af fleirri en tveimur tegundum.

Eðlið gefur auga leið á þá vinnu og örvun sem hundurinn krefst.

Ég myndi mæla sterklega með því að fyrsti hundur fólks sé hreinræktaður vegna þess, þó að blendingar komi oft vissulega vel út og margir hverjir frábærir til vinnu og heimilis.

Hreinræktaðir hundar eru vissulega með ýmsa kvilla og þeir kvillar eru margir breytilegir eftir tegund, en það geta blendingarnir haft líka. Það er jú verið að blanda saman þessum hreinræktuðu hundum til þess að búa til blendinginn og hvolpurinn getur erft þessa kvilla og hann jafnvel verið berandi fyrir fleirri en einn sjúkdóm. Gen geta verið ýmist ríkjandi eða víkjandi. Hundur sem ber kvilla, en genið er víkjandi, er samt ennþá með kvillan í genasamsetningu sinni og kemur það til með að erfast til hvolpanna. Þá er bara spurningin hvort genið sé víkjandi eða ríkjandi.

Svo stóra svarið við þessari spurningu er það, að blendingar eru ekki heilsuhraustari en hreinræktaðir hundar og hreinræktaðir hundar ekki heilsuhraustari en blendingar. Það má segja þetta sé svoldið genalottó. Eigandinn veit þó betur við hverju hann á að búast með hreinræktaðann, en það er meira ‘happa glappa’ með blending.

Einnig er gott að hafa í huga að hundur sem er blandaður af tegundum sem hafa gjörólík ræktunarmarkmið, getur verið fyrirferðamikil og krefjandi útkoma.

Hvolpar og aðrir hundar

Ef þú átt hund nú þegar sem er fullorðinn og ert að íhuga að bæta við hvolpi í fjölskylduna, er gott að hafa eldri hundinn í huga og taka tillit til hans. Eldri hundar eru oft ekki mikið gefnir fyrir hvolpaleiki. Best er að láta hundana hittast í fyrsta sinn á hlutlausum stað svo ólíklegra sé að fullorðni hundurinn fari að verja t.d eigur sínar eða mat, og þar af leiðandi skemma möguleika á jákvæðri upplifun þeirra á milli. Samskipti þeirra ættu að vera undir skynsamlegum mörkum og ætti fullorðni hundurinn ekki að fá að ”aga hvolpinn til”. Eigandi ætti alltaf að stoppa athafnir hundanna ef öðrum hvorum líður óþægilega og þeim kennt að vera saman með skynsemi og ró. Æskilegur leikur milli hunda af svo ólíku þroskastigi væri ef til dæmis eldri hundurinn liggur. Það ætti að varast of mikinn hamagang. Þyngdarmunurinn er svo mikill að hvolpurinn gæti hlotið skaða af.

Mikilvægt er að hvolpurinn hitti aðra hvolpa á sama þroskastigi og þyngd. Þar þarf ekki að gæta jafn mikillar varúðar, en þó að vera til staðar fyrir hvolpinn sinn og stoppa aðra hvolpa af ef þeir eru að áreita hann. Svæðið í kring um eiganda ætti að vera honum til varnar og á hann að geta leitað þangað í skjól. Hvolpurinn er þá líklegri til að hlaupa til eiganda síns í ógnandi aðstæðum, heldur en frá honum.

Ef þú átt hvolp nú þegar og ert að hugsa að fá þér annan hvolp, eða jafnvel ert að skoða got og getur ekki valið milli tveggja hvolpa, langar mig að byðja þig að hugsa þetta vel út. Við viljum að hvolpurinn okkar tengist okkur sem allra best og það að hafa jafnaldra með sér gerir þá tengingu erfiðari fyrir. Hvolparnir koma til með að velja hvern annan. Ég myndi segja að 1.5 – 2 ár sé fínn aldur milli hunda sem deila heimili.

Öll vinna í kring um hundana er tvöföld ef annar hundur er tekinn á heimilið og sérstaklega er hún erfiðari ef um tvo óvita er að ræða. Vissulega eru til tegundir sem kunna sig betur með öðrum hundum á heimili og eru sleðahundar gott dæmi um þá hunda.

Þegar kemur að því að velja seinni hundinn er gott að horfa enn og aftur í eðli hans. Ef annar hundurinn er af tegund sem eiga erfiðara með að vera einir heima, þá er æskilegt að velja tegund með honum sem á auðvelt með að vera einn heima. Sem dæmi á American Cocker Spaniel oft erfitt með að vera einn heima, á meðan Labrador hættir ekki eins til þess. Labradorinn kæmi vonandi til með að hafa róandi og góð áhrif á Cockerinn frekar heldur en t.d annar Cocker myndi gera – það geta þó allir hundar þróað með sér ”einn heima” vandamál ef þeim er ekki kennt, en tilhneigingin er vissulega sterkari í sumum tegundum, frekar en öðrum.

Börn og hundar

Sumum tegundum er auðveldara ógnað en öðrum og henta þær því síður á heimili með börnum en aðrar. Aldur barnanna hefur einnig mikið að segja. Smáhundar og margir smalahundar eru gott dæmi um hunda sem auðveldlega er ógnað. Smáhundunum vegna þess hve smáir þeir eru og smalahundarnir vegna ræktunarmarkmiðs.

Þegar kemur að hundum og börnum er mjög mikilvægt að samskiptin þarna á milli séu innan allra skynsamlegra marka og barnið þarf að læra inn á tungumál hundsins. Barnið þarf að vita hvenær hundurinn er að biðja um frið og hvað má og má ekki gera við hundinn. Barnið verður að læra að hundar túlka hinar ýmsu athafnir allt öðruvísi en við. Það er til dæmis rosalega gott að fá knús, en hundi gæti þótt það óþægilegt og ógnandi þó að meiningin sé falleg á bak við það. Barninu ætti að vera kennt að halda ákveðinni fjarlægð við hundinn og tengjast honum á rólegan máta og ættu börn og hundar ekki að fá að vera saman án eftirlits fullorðins einstaklings.

Við ættum alltaf að hafa tungumál hundanna okkar í huga. Hundar hafa ‘orðaforða’ upp á ca 38 merki (sem eru þau merki sem við erum kunnug um eins og er, við erum alltaf opin fyrir að þróa og víkka skilning okkar á hundum og trúum við því að merkin gætu verið ennþá fleiri.)

Ógnandi merkin eru færri en sefjandi/róandi merkin. Glefs og bit eru einungis tvö af þessum ógnandi merkjum og vil ég vekja athygli á mikilvægi þess að þekkja til hinna merkjanna, sem hundurinn svo gjarnan sýnir áður en hann grípur til frekari aðgerða. Merkin gefa vísbendingu um tilfinningalegt og hugarfarslegt ástand hundsins. Árásargirni er náttúrulegt samskiptaform og ef öll merki hundsins eru hundsuð, eru líkur á að hundurinn glefsi frá sér á endanum.

Höfundur: Elísa Hafdís Hafþórsdóttir hundaþjálfari og atferlisfræðinemi