1) Þeir eru einfaldlega að kanna heiminn. Þeir skoða hluti með því að setja þá upp í sig, rétt eins og ungabörn gera.

2) Þegar hvolpar eru um fjögurra mánaða gamlir byrja þeir að missa hvolpatennurnar sínar og fullorðinstennur koma í staðinn. Á meðan þetta gerist klæjar þá mjög mikið i góminn og þurfa stanslaust að hafa eitthvað að naga. 189944_1811615522404_4839070_n Hvolpar átta sig ekki á því hversu beittar hvolpatennurnar eru eða hversu fast þeir eru að bíta. Þess vegna þurfum við að kenna þeim hvað má og hvað má ekki. Það á ekki að skamma hvolpa fyrir að bíta/naga. Frekar en að skamma, sýnir þú hvolpinum hvað naga og hversu fast. Það er góð regla að vera með dót eða bein um alla íbúð fyrstu mánuðina. Eitt í vasanum, eitt undir pullunni í sófanum, eitt í hverri hillu og hvar sem þér dettur í hug. Að sjálfsögðu er líka gott að hafa dót og bein á mörgum stöðum sem hvolpurinn nær til. Þá er alltaf hægt að grípa í eitthvað sem hvolpurinn má naga og gefa honum það í staðinn fyrir það sem hann má ekki naga.

Ef hvolpurinn er að naga peysuna þína sækir þú einfaldlega dót/bein og réttir honum það í staðinn. Svo hrósar þú hvolpinum þegar hann byrjar að naga það. Það er sniðugt að skipta þessu dóti og beinum reglulega út svo hvolpurinn sé sífellt að prófa nýtt dót og mismuandi áferðir. 1 árs Ekki nota hendurnar til að leika við hvolpinn. Að minnsta kosti ekki á meðan þú ert að kenna honum hvað má naga og hvað má ekki. Notaðu alltaf dót og hrósaðu þegar hann leikur sér fallega.

Hér er aðferð til að kenna hvolpum hvað má og hvað má ekki þegar kemur að glefsi:

  1. Þegar hvolpurinn byrjar að naga þig gefurðu honum eina viðvörun. Til dæmis ,,Varlega!“.
  2. Ef hvolpurinn heldur áfram, segir þú skýrt ,,Æjæj!“ (eða annað orð sem þú velur). Svo stendur þú upp og ferð í annað rými eða færir hundinn í annað rými. Það er mikilvægt að rýmið sem hvolpurinn er skilinn eftir í sé hundhelt og frekar óáhugavert. Ef þetta rými er mjög skemmtilegt og fullt af öðru fólki eða dóti þá virkar þetta ekki eins og refsing á hundinn.
  3. Eftir 30-60 sekúndur kemur þú aftur. Ef hvolpurinn byrjaði að væla þegar þú fórst frá honum skaltu bíða þar til hann er orðinn rólegur áður en þú ferð aftur til hans. Ef hvolpurinn byrjar strax aftur að glefsa í þig segir þú strax aftur ,,Æjæj!“ og endurtekur skref 2.
  4. Með tímanum byrjar hvolpurinn að læra á viðvörunina. Þegar hann heyrir ,,Varlega!“ byrjar hann að naga lausar eða finnur sér eitthvað annað að naga. Þá hrósar þú hvolpinum og staðfestir þannig að þú sért ekki að fara. Þessi aðferð hentar vel stórum fjölskyldum þar sem fólk hefur misháan þröskuld á því hversu fast hvolpurinn má glefsa og naga. Það er mikilvægt að gefa viðvörunina aðeins einu sinni og enn mikilvægara er að standa við þá viðvörun og fara ef hvolpurinn heldur áfram. Sama hvort þið eruð að horfa á sjónvarpið, að kúra uppí rúmi eða að hafa það notalegt á góflinu. Þetta kostar ákveðna vinnu, en á móti þá virkar þetta hratt og vel.

Sumir vilja nota þá aðferð að ýlfra hátt áður en þeir standa upp og fara en margir hvolpar æsast upp við lætin og fatta ekki alveg hvað þessi læti áttu að vera. Ég mæli því síður með þeirri aðferð. Sumir fullorðnir hundar eru ennþá með mikið hvolpaglefs. Ef til vill hefur þeim aldrei verið kennt hvað má og hvað má ekki. Svo eru sumir hundar sem hafa einfaldlega mjög mikla nagþörf.

Fyrir svona hunda er mikilvægt að hafa alltaf mikið úval af nagdóti og nagbeinum. Það er einnig mikilvægt að kenna hundum að slaka á. penni copy-2 Margir fullorðnir hundar með mikla nagþörf naga hendur á fólki sem kemur í heimsókn. Til að koma í veg fyrir það skaltu rétta hundinum dót/bein áður en gestirnir koma. Ef hann gerir þetta við þig skaltu vera með dót/bein tilbúið við útidyrahurðina og rétta honum áður en þú heilsar hundinum. Hrósaðu honum mikið þegar hann heldur á dótinu/beininu. Ef hann sleppir dótinu/beininu hunsar þú hundinn og hættir að heilsa honum. Bentu hundinum aftur á dótið/beinið og hvettu hann til að taka það aftur upp og hrósaðu þegar hann gerir það. Biddu gesti um að gera það sama. Ef fullorðinn hundur er mikið að naga hluti heima til og skemma eru góðar líkur á að hundinum leiðist. Þá vantar hann verkefni – ekki endilega bara göngutúr heldur eitthvað sem reynir á heilann. Kynnið ykkur heilaleikfimi fyrir hunda og notið hugmyndaflugið!


administrator

Berglind á íslenska fjárhundinn Hektor og whippetana Blossa og Takt. Hún hefur mikla reynslu af hundum og er lærður hundaþjálfari og -atferlisfræðingur. Hún lærði í bandaríska skólanum The Academy for Dog Trainers. Berglind er að læra dýrahjúkrunarfræði og vinnur hjá Dýralæknamiðstöðinni í Grafarholti, ásamt því að reka hundaskólann Hundasetrið. Berglind lærði hundanudd í Chicago School of Canine Massage. Hún er með BSc í sálfræði og hefur unnið með Dýrahjálp Íslands.