Hvolpaglefs er eitthvað sem allir hvolpaeigendur þurfa að búa sig undir. Þetta er mikilvægur hluti af þroska og skynjun hvolps á umhverfi sínu. Sturla Þórðarson, hundaþjálfari og atferlisfræðingur fer hér yfir hvolpaglefs. Afhverju hvolpar glefsa, hvernig er best að bregðast við glefsi og hvernig er best að kenna hvolpi að hætta að glefsa í okkur.

Hvað er það og af hverju er það mikilvægt fyrir uppvöxt hvolpsins?

Hvolpar byrja að kanna hvern annan í kringum 5 vikna aldurinn, það er þá sem við byrjum að heyra ýmis hljóð frá hvolpakassanum. Það er þá sem hvolparnir eru að prófa sig áfram með þessum flugbeittu tönnum sínum, það er á þessum tíma sem hvolparnir eru að finna út hversu fast þeir megi bíta. Hversu fast má ég bíta án þess að leikurinn stoppi? Á þessum tíma læra hvolparnir hversu fast þeir megi nota kraftinn í kjálkunum á sér í samskiptum við fólk og hunda. Þegar hvolpurinn er  orðinn 8 til 12 vikna fer hann venjulega á nýtt heimili og þá færist ábyrgðin frá mömmunni og systkinum, yfir á okkur sem tökum við honum að halda áfram að kenna honum hversu fast hann megi bíta í leik. Þar verða hendur og fætur oft fyrir barðinu á tönnunum og þá er mjög gott að hugsa út í að byrja með að fá bitið til að vera lausara en ekki að fá hvolpinn strax til að hætta að glefsa. Þegar hann hefur náð betri stjórn á kraftinum þá getum við farið að hugsa út í að fá hann til að minnka hversu oft hann glefsar. Ef hvolpurinn lendir í erfiðum aðstæðum þegar hann eldist þá viljum við að hann hafi stjórn á kraftinum sem hann beitir í aðvörunarskyni og í leik.

Hvað gerist ef við refsum hvolpinum alltaf fyrir að glefsa?

Ef við refsum hvolpinum alltaf fyrir að glefsa t.d. með því að klípa, slá, ýta harkalega frá eða beita hörku á annan hátt þá aukum við hættuna á að hundurinn byggi upp hræðslu. Það getur  valdið því til dæmis að hann bíti fastar í framtíðinni, byrjar að forðast okkur, tekur því sem hluta af leiknum og byrjar að bíta til að fá athygli frá okkur(neikvæð athygli er betri en engin). Oft hefur maður séð að því harðari sem tíkin er við hvolpana því harðari verða þeir við aðra hunda. Það er hlutur sem gott er að hafa í huga ef við viljum bera okkur saman við hvernig tíkin elur hvolpana upp.

Þjálfun

Nú er hægt að fara í tíma í hundaskólum þar sem hvolpar fá að hitta aðra hvolpa í leik, sem er mjög gott ef það er í stuttan tíma í hvert skipti þar sem við viljum ekki ofþreyta hvolpinn. Of þreyttur hvolpur missir stjórn á sjálfum sér og þá getur hann farið að taka mikið fastar í en venjulega sem getur auðveldlega pirrað okkur og setur af stað vítahring. Ef hvolpur glefsar í útlimi þá er mikilvægt að vera ekki með hraðar hreyfingar því það fær fram enn meiri leikgleði og fastari bit til að ná „bráðinni”. Best er að væla og færa okkur um leið frá í smá stund til að kenna hundinum að ef hann gerir of fast þá er leikurinn búinn, muna að gera þetta í smá skrefum í staðinn fyrir að reyna að gera allt í einu. Oft getum við séð mynstur í því á hvaða tíma sólarhrings hvolpurinn er rólegur og hvenær hann er hvað æstastur, svo við getum verið tilbúin með eitthvað fyrir hann að naga (nagbein, frosinn soðbleyttan taukaðal). Þegar maður sest niður með hvolpinn er gott að vera með leikfang eða eitthvað álíka til að afvegleiða hann og láta hann bíta í það í staðinn fyrir hendurnar á okkur.

Sturla Þórðarson Hundaþjálfari og atferlisfræðingur