Þú hefur ákveðið að taka að þér hund. Þú gerir þér grein fyrir þeirri vinnu sem því fylgir og þú áttar þig á því að þetta er margra ára skuldbinding. Þú ert tilbúin(n) að eyða þeim peningum, tíma og orku sem þarf til að ala upp hund. Þetta er góð byrjun en enn vantar svör við mörgum spurningum. Lífstíll þinn, húsnæði, staðsetning og fleira hefur áhrif á það hvaða hundur hentar þér og þinni fjölskyldu. Tegund, aldur og kyn hundsins getur líka skipt máli.
Það er til fjöldinn allur af tegundum, af öllum stærðum og gerðum. Nú, svo er auðvitað hægt að blanda öllum þessum tegundum saman. Hvernig geturðu mögulega vitað hvaða hund þú vilt? Sumir hafa mörg skilyrði á meðan aðrir halda möguleikunum opnum. Hér eru nokkrar spurningar sem gott er að fara yfir áður en ákvörðun er tekin.

Hvaða tilgang mun hundurinn þinn hafa?
Það er mjög mikilvægt að þú áttir þig á því hvaða tilgang hundurinn mun hafa í lífi þínu. Viltu nota hann sem veiðihund? Viltu hund sem veitir þér öryggi og vaktar húsið með gelti? Viltu leikfélaga og vin fyrir börnin? Eða viltu, eins og flestir, hreinlega bæta hundi við fjölskylduna út af þeim mikla vinskap sem hundurinn er til í að bjóða hverjum sem vill?
Þessi grunnhlutverk hundsins skipta miklu máli þegar velja á hund. Veiðimenn velja tegund sem hentar þeirri veiði sem þeir stunda, þar sem hundar eru ræktaðir fyrir sérstök verkefni og líkamleg geta þeirra misjöfn. Labrador er ræktaður með þann hæfileika að geta skilað bráðinni heilli og óskaddaðri. English Pointer er ræktaður til að benda veiðimanninum á staðsetningu bráðarinnar. Enskur Springer Spaniel er ræktaður til að finna fugl og koma honum á flug. Greyhound er svo hins vegar ræktaður til að elta uppi og drepa héra og önnur smádýr. Allir þessir hundar eiga það sameiginlegt að vera veiðihundar en enginn vinnur eins. Það er því ekki eingunis nóg að vita hvaða tilgang hundurinn mun hafa á þínu heimili heldur þarf einnig að vita hvað hundurinn var ræktaður til að gera.
Það að hundur hafi verið ræktaður til að veiða þýðir þó ekki að það megi eingungis nota hundinn í það. Þeir sem vilja fá venjulegan heimilishund geta valið úr mörgum, mörgum tegundum. Það er þó æskilegt að leyfa hundinum reglulega að fá útrás fyrir eðli sínu. Flestir hundar eru sjaldan jafn glaðir og þegar þeir fá að gera það sem þeir voru ræktaðir til að gera. Þannig er hægt að leyfa labrador að sækja gervibráð í vatni, greyhound getur tekið þátt í beituhlaupi og smalahundar geta farið á smalanámskeið.
Skiptir kyn hundsins máli?
Það er mjög persónubundið hvort fólk sé hrifnara af tíkum eða rökkum. Sumir vilja meina að það sé enginn munur á milli þeirra en margir eru þó sammála um ákveðin einkenni sem eru ólík þeirra á milli.
Rakkar eru oft meiri félagsverur og þeir eiga oft auðvelt með að tengjast mörgum. Ógeldir rakkar geta verið með mikið strokueðli og þeir eiga það til að merkja (pissa lítið í einu) í göngutúrum. Sumir merkja inni en það er algengara hjá smáhundum. Sumir ógeldir rakkar eru leiðinlegir í umgengni við aðra ógelda rakka en oft er hægt að koma í veg fyrir það vandamál með góðri umhverfisþjálfun. Það er mikilvægt að láta rakka kynnast mörgum hundum strax frá upphafi. Gætið þess að hundarnir sem þið hittið séu góðir og ljúfir.
Tíkur eru heimakærari og þær mynda oft sterka tengingu við eina manneskju, þó svo að þær tengist öðrum að sjálfsögðu líka. Flestar tíkur lóða tvisvar sinnum á ári eða með 5-8 mánaða millibili. Á þessu tímabili, sem tekur um 3 vikur, þarf að passa þær mjög vel og það má aldrei hafa þær eftirlitslausar. Þá þarf að halda sér frá hundasvæðium og ekki sleppa þeim lausum nema á öruggu svæði.
Skiptir aldur hundsins máli?
Hvort sem þú færð þér hvolp eða fullorðinn hund, er um ákveðna kosti og galla að ræða. Ef þú ert að fá þinn fyrsta hund er fullorðinn hundur hugsanlega góð hugmynd.
Hvolpar kosta mikla vinnu. Það er líka erfiðara að gera sér grein fyrir því hvernig persónuleiki hundsins mun verða. Á móti kemur að þú hefur mun meiri áhrif á það hvernig hundurinn mun verða í framtíðinni. Erfðir hundsins skipta vissulega miklu máli en uppeldi og umhverfi hundsins hefur óneitanlega mikil áhrif.
Þegar þú tekur að þér hvolp eyðir þú mun meiri tíma í almenna þjálfun en ef þu tekur að þér fullorðinn hund. Þú þarft að kenna hvolpinum að pissa úti, allar helstu skipanir, taumgöngu, umgengni við fólk og dýr. Hvolpurinn mun naga allt sem hann kemst í og hann mun taka tímabil þar sem þú skilur ekki hvaðan öll þessi orka kom. Svo er það auka kostnaður við bólusetningar, geldingu/ófrjósemisaðgerð (ef það á að gera það) og hvolpanámskeið. Hreinræktaðir hvolpar eru einnig dýrari en fullorðnir hundar.
Sumir elska þennan tíma á meðan aðrir geta ekki hugsað sér að ala upp hvolp.
Fullorðnir hundar hafa marga kosti. Einn stærsti kosturinn er það öryggi sem fylgir þeim. Þú veist (nokkurn veginn) hvernig hundur þetta er. Þú getur valið þér rólegan og auðveldan hund eða þú getur valið þér æstan hund sem þarfnast þjálfunar. Þú veist hversu stór hann er, hversu mikið hann fer úr hárum o.s.frv. Í samráði við dýralækni geturðu einnig athugað hvernig heilsufar hundsins er.
Það er alltaf gott að geta hjálpað hundum í neyð. Dýrahjálp Íslands auglýsir heimilislaus dýr og þar eru margir hundar (hvolpar og fullorðnir) sem leita að réttu fjölskyldunni.

Skiptir stærð hundsins máli?
Stærðin segir ekki allt. Ég hef heyrt af áttræðri konu sem á 50 kílóa rottweiler. Hún hefur fullkomna stjórn á honum og þau passa mjög vel saman. Sömuleiðis veit ég af þrítugum, hraustum karlmanni sem á 2ja kílóa smáhund sem hann ræður ekkert við.
Geta fólks til að þjálfa hunda er misjöfn. Stærð fólksins, aldur, greind, félagsleg geta og störf skipta máli en það er ekkert mikilvægara en geta fólks til að þjálfa hund.
Stórar tegundir kosta meira að öllu leyti. Þær þurfa stærri hundabæli, stærri dalla, meiri mat og dýralæknakostnaðurinn er hærri. Litlir hundar eru ódýrari í rekstri en þeir þurfa alveg jafn mikla þjálfun og stórir hundar. Eðli tegunda segir mun meira en stærðin.
Litlu hundarnir eru þægilegir upp á það að þeir taka ekki jafn mikið pláss (í íbúðinni og í bílnum). Þegar þeir toga í tauminn er auðveldara að ráða við þá og það fer oft minna fyrir þeim á heimilinu.

Hversu mikla hreyfingu viltu bjóða hundinum?
Það hversu mikla hreyfingu þú stundar og vilt stunda með hundinum þínum skiptir miklu máli. Ef þú vilt taka hundinn með út að skokka á hverjum degi henta tegundir með kramið trýni líklega ekki. Ef þú vilt fara á fjöll og í langar göngur er sniðugt velja tegund sem er ekki með sögu um mjaðmalos.
Viltu hund sem sættir sig við rólega taumgöngu í hverfinu eða viltu hund sem þarf að komast reglulega út að teygja úr sér? Eða viltu eitthvað þarna á milli?
Mundu að allir hundar þurfa einhverja hreyfingu. Hundar eru ekki innidýr og þeir þurfa bæði andlega og líkamlega örvun til að dafna og líða vel.
Hversu mikið pláss hefurðu?
Hér er ekki einungis verið að tala um plássið sem þú hefur heima hjá þér heldur á svæðinu í kring. Áttu heima í miðbæ Reykjavíkur eða býrðu á bóndabæ í Fljótshlíð? Ertu tilbúin(n) að keyra út fyrir bæinn til að leyfa hundinum að vera laus?
Ef þú átt stóran garð skaltu passa að gleyma ekki göngutúrunum. Margir telja að það sé nóg að fara í boltaleik í garðinum en hundar þurfa mun meira en það. Það er mikil andleg örvun fyrir hunda að fara í göngutúr og að kynnast nýrri lykt.
Margir telja að til að eiga stóran hund, þurfi maður stór húsnæði. Það er ekki rétt. Margir stórir hundar sofa mikið og þeir þurfa oft minni hreyfingu en litlu hundarnir. Sömuleiðis þurfa minni hundar oft mikla hreyfingu en allir hundar þurfa að hafa möguleika á að komast reglulega út á gott svæði.

Hversu miklum tíma viltu eyða í feldhirðu?
Hundar sem fara ekki úr hárum þurfa að komast reglulega í snyrtingu. Hárin þeirra detta ekki af en þau síkka og síkka. Slíkar tegundir þurfa að reglulega burstun og bað.
Hundar sem fara mikið úr hárum þurfa einnig reglulega burstun, sérstaklega þeir sem eru með tvöfaldan feld. Undirfeldurinn getur fests við húð hundsins og valdið honum óþæginum, ef hún er ekki tekin.
Það er mismikil lykt af hundum. Sumir þurfa að vera baðaðir mjög reglulega á meðan aðrir haldast alltaf hreinir.
Viltu hreinræktaðan hund eða blending?
Það eru kostir og gallað við bæði hreinræktaða hunda og blendinga. Kostir við hreinræktaða eru að þú veist betur hvað þú ert að fá í hendurnar. Þú getur skoðað ættbókina og útilokað sjúkdóma eða vitað af þeim. Þú getur valið hund með góðar mjaðmir og sem er laus við augnsjúkdóma. Þú veist nokkurn veginn hvernig skapgerðin á að vera og hvers hundurinn þarfnast frá þér. Svo er ómetanlegt að hafa góðan ræktanda sem getur hjálpað manni við alls kyns hluti.
Blendingar eru að sjálfsögðu ekki síðri. Þeir eru bara meira lottó. Þú getur fengið frábæran og hraustan hund en þú getur líka verið óheppin(n). Sumir blanda saman tegundum sem passa mjög illa saman, annað hvort skapgerðarlega séð eða beinabyggingarlega séð. Það er eitthvað sem gott er að vera meðvitaður um. Fáðu að hitta báða foreldra og spurðu út í heilsufar þeirra.
Það er gömul mýta að blendingar séu heilbrigðari en hreinræktaðir. Það er ekki rétt. Sumar hreinræktaðar tegundir eru með mjög lélegt heilsufar á meðan aðrar eru mjög heilsuhraustar. Kynntu þér þá tegund, eða þær tegundir, sem þú hefur áhuga á.
Innblásið af: http://www.peteducation.com/article.cfm?c=2+2106&aid=843