Hundamenning á Íslandi hefur þróast og breyst hratt síðastliðinn áratug. Hlutir sem þóttu sjálfsagðir í hundauppeldi fyrir nokkrum árum, eru ekki boðlegir í dag. Sömuleiðis er kominn fjöldinn allur af hundaþjálfurum sem eru ýmist með menntun hvaðanæva úr heiminum, eða alls enga menntun. Hundaþjálfari er ekki lögverndað starfsheiti svo hver sem er getur kallað sig hundaþjálfara. Við hvetjum hundaeigendur til að lesa vel yfir þennan lista áður en hundaþjálfari er valinn.

  • Notar jákvæðar þjálfunaraðferðir.
  • Er góður í að hlusta og gefa ráð.
  • Þekkir merkjamál hunda.
  • Hefur góða nærveru og lætur þér líða vel.
  • Notar jákvæðar leiðir til að vinna í neikvæðri hegðun.
  • Notar engin tæki eða tól sem valda hundinum óþægindum (t.d. hengingaról).
  • Spyr ítarlegra spurninga um fyrri sögu hundsins þíns.
  • Leggur áherslu á að allir í fjölskyldunni taki þátt.
  • Kennir þér að þjálfa hundinn.
  • Gerir allt til að hundinum þínum líði vel.
  • Talar ekki um skyndilausnir á hræðsluvandamálum, heldur tekst á við rót vandans.
  • Hefur menntun og sýnir plagg um það.

Forðastu hundaþjálfara sem:

  • Talar um alpha hunda/leiðtoga/valdapýramída/valdabaráttu.
  • Talar um að hundurinn þinn sé dóminerandi/að reyna að vera foringi.
  • Talar niður til þín eða lætur þér líða illa.
  • Býður upp á óraunhæfar skyndilausnir við hræðsluvandamálum.
  • Notar aðferðir eins og að snúa hunda á bakið.
  • Kippir í taum eða segir þér að gera það.
  • Notar hengingarólar eða segir þér að gera það.
  • Lætur hundinum þínum líða illa.
  • Tekur hundinn sjálfur í þjálfun án þess að kenna þér réttu tökin.
  • Hefur enga menntun eða getur ekki sýnt plagg frá menntun sinni.

Spurningar fyrir hundaþjálfarann:

  • Hvernig leiðréttir þú hegðun?
  • Notar þú verðlaun í þjálfun? Hvernig?

Ef þú færð ekki skýr og nákvæm svör eða ef þér líst ekki á svörin…. Haltu áfram leitinni! Hundaþjálfarar eru ekki alvitrir. Ef þér finnst eitthvað óþægilegt sem hundaþjálfarinn segir eða mælir með að gera, þarft þú ekki að gera það.


administrator

Berglind á íslenska fjárhundinn Hektor og whippetana Blossa og Takt. Hún hefur mikla reynslu af hundum og er lærður hundaþjálfari og -atferlisfræðingur. Hún lærði í bandaríska skólanum The Academy for Dog Trainers. Berglind er að læra dýrahjúkrunarfræði og vinnur hjá Dýralæknamiðstöðinni í Grafarholti, ásamt því að reka hundaskólann Hundasetrið. Berglind lærði hundanudd í Chicago School of Canine Massage. Hún er með BSc í sálfræði og hefur unnið með Dýrahjálp Íslands.