Það eru til ótal mismunandi tegundir af beislum sem henta mis vel fyrir hundinn, ef hundurinn nær ekki að hreyfa sig rétt eða líður af einhverjum ástæðum illa í beislinu er hætta á því að hundurinn fari að beita sér vitlaust sem eykur hættu á eymslum. Ef hundurinn togar í göngutúrum er enn mikilvægara að beislið passi vel og sé ekki að meiða hundinn.

Þar af leiðandi vefjast beisli mikið fyrir fólki, hvernig snið hentar best? Hvað þarf að hafa í huga? Það er ekkert skrýtið þar sem það er hundar hafa rosalega mismunandi í líkamsbyggingu og því er mjög mismunandi hvað hentar hverjum og einum, en það eru ákveðnir grunn eiginleikar sem þarf að hafa í huga við val á beisli.

Hundar eru ekki með neitt viðbein. Þetta gerir þeim kleift að rétta framfætur vel fram og aftur til að hámarka hraða. Þetta sést best á mjóhundum, hundategund sem hefur verið ræktuð sérstaklega til að hámarka hraða þeirra á hlaupum. Þetta á þó við um allar hundategundir, stórar sem smáar. Hvort sem beislið er ætlað sem göngubeisli eða í lausagöngu er mikilvægt að hundurinn hreyfi sig án vandræða. Þú getur prufað að láta hundinn standa kyrran og toga aðra framlöppina fram og aftur og séð hvort það náist án þess að beislið sé fyrir, skérist í vöðva eða sitji vitlaust framan á eða ofan á hundinum.

Að hundurinn geti teygt úr útlimum

Það eru til margar mismunandi tegundir af beislum, ótal mismunandi göngubeisli og dráttarbeisli. Það þarf að passa sérstaklega upp á að hreyfanleiki framfóta, það þarf að vera hægt að toga mjúklega framfætur bæði fram og aftur. Ef hundur togar í taum og hættir því skyndilega í nýju beisli er möguleiki á því að beislið hefti hreyfingar hundsins og geri þær óþæginlegar.

Ef beislið heftir hreyfingar útlima…


Hér sést myndband sem sýnir hund á hlaupum, beisli þarf að geta leyft þessar hreyfingar óheftar.

Hér sést vel hvernig aftari hluti beislisins þarf að liggja vel aftur á bakið á hundinum og má ekki tengjast neðri hluta beislisins með því að liggja í handakrikanum á hundinum. Oft er hægt að stilla neðri hlutan sem liggur undir bringuna.
Hér sést vel hvernig aftari hluti beislisins þarf að liggja vel aftur á bakið á hundinum og má ekki tengjast neðri hluta beislisins með því að liggja í handakrikanum á hundinum. Oft er hægt að stilla neðri hlutan sem liggur undir bringuna.

Ef hundurinn togar þarf álagið á bringuna að vera rétt

Þegar hundurinn togar á miðpunkturinn á beislinu framan á hundinum að liggja þægilega á bringubeininu og dreyfa álaginu vel.
Ef þú horfir framan á hundinn ætti álagið að mynda bókstafinn Y eins og sést á myndinni hér fyrir neðan til þess að axlir og framhandleggur nái að hreyfast óhindrað.
Ef beislið nær of hátt uppfyrir bringubeinið er hætta á að beislið þrengi að öndunarvegi hundsins við tog.
Rétt átak – togpunktur aftan við herðablöð.
Smellan fyrir tauminn á að vera aftar en herðarblaðið á hundinum eins og sést á myndinni hér fyrir ofan, þar er gula bandið nægilega langt fyrir aftan herðarblöðin til þess að krækjan er fyrir aftan axlir.

Passið alltaf að beislið sé ekki of þröngt, hann á að geta staðið, setið og legið þæginlega í beislinu og geta þanið út brjóstkassann, til dæmis þegar hann er að hlaupa.

Að beislið sé í góðu jafnvægi, úr þægilegu efni og sé létt

Ef það er bara smella öðru megin á beislinu er hætta á því að hundurinn beiti sér vitlaust.
Það er ekki mælt með að vera með hliðartösku á sér til lengri tíma nema að skipta reglulega um handlegg, þar sem það er ekki hægt á beislinu er mikilvægt að skoða hvar smellur og annar búnaður á beislinu er staðsettur því jafnvægi er mikilvægt.
Efnin í beislinu geta þæft feldinn.
Það er ekki bara hætta á að það skemmi feldinn ef efnið þæfir feldinn, heldur getur það líka verið óþæginlegt fyrir hundinn. Það getur jafnvel valdið nuddsárum í verstu tilfellum.
Beisli eiga ekki að vera of þung.
Beisli mega ekki vera úr hörðu efni eða þung, það veldur óeðlilegu álagi á hryggjasúlu og mænuna og eykur hættuna á því að hundur beyti sér vitlaust. Það er ekkert að því að hengja poka með þyngd á hliðarnar á beislinu inn á milli ef beislið dreyfir þunganum rétt. Þá má ekki vera járnplata eða annað í beislinu þar sem það liggur á hryggjasúlunni.

Hér sést beinabygging hunds og hvað þarf að skoða vel.
1) Að beislið sé fari ekki upp í háls við tog, liggi þægilega á bringubeininu og hamli ekki hreyfingu á öxlunum.
2) Að staðsetning á smellum og öðrum íhlutum á beislinu sé í jafnvægi og ekki of þungt.
3) Liggi ekki óþæginlega í handakrika eða hamli hreyfingu.
4) Að beislið sé ekki of langt í hliðarnar eða undir bringunni svo það skerist í mjúkvef hundsins, beislið á að liggja utan um rifbein hundsins á hliðunum og að neðan.
5) Að krækjan fyrir tauminn sé fyrir aftan herðablöðin þannig að það myndist rétt álag á líkamann við tog.

Þessi grein er unnin í samvinnu við Kolbrúnu Örnu Sigurðardóttir, fagdýrahjúkrunarfræðing með réttindi í sjúkraþjálfun og endurhæfingu hunda og katta.


Guðfinna á Dandie Dinmont Terrier rakkann Watson. Hún er hönnuður, situr í stjórn Félags ábyrgra hundaeiganda og Dýraverndarsambands Íslands. Hún lærði um hegðun týndra dýra hjá Missing Animal Response Network. Nú hjálpar hún til við að finna týnda hunda, býr til auglýsingar og ráðleggur við leitir, einnig er hún að vinna að þróun smáforrits fyrir týnd dýr.