óþekkur hvolpur?
Er hvolpur óþekkur fyrir að tæta bangsa?

Hvernig áttu að bregðast við þegar hundurinn er óþekkur?

Forvarnir Með forvörnum kemur þú í veg fyrir að hundurinn nái að sýna óæskilega hegðun. Hér koma dæmi um forvarni: Að hafa ekkert rusl í nálægð við hundinn svo hann nái ekki að stela því. Það að ná ruslinu er verðlaunandi og ef þú eltir hundinn verður eltingarleikurinn að enn meiri verðlaunum. Að hafa hundinn í taumi innan dyra til að koma í veg fyrr að hann merki/pissi inni. Að gefa hundinum kong (eða aðra heilaleikfimi) áður en það koma gestir í heimsókn til að koma í veg fyrir gestalæti.

Þjálfaðu æskilega hegðun

Kenndu hundinum hvað hann á að gera. Verðlaunaðu hann þar til hegðunin er fulllærð. Þannig ertu ekki að skamma hundinn fyrir það sem má ekki heldur ertu að sýna honum hvað þú vilt að hann geri, sem eru mun skýrari kröfur fyrir hund. Dæmi um þetta eru að kenna hundi að setjast í staðinn fyrir að flaðra og að liggja á hundabæli í stað þess að sníkja við matarborðið.

Fangaðu athygli og stýrðu hegðun annað

Ef hundur er þegar byrjaður að sýna óæskilega hegðun skaltu fanga athygli hans. Það geturðu til dæmis gert með því að byrja á að kalla nafn hundsins, gera smelluhljóð með munninum eða lokka hann til þín  með mat og stýrða svo hegðun hundsins annað með því að gefa hundinum skipun. Dæmi um þetta er að hundur geltir að glugga, þú fangar athygli með því að segja nafn hundsins, þú gefur skipunina ,,komdu“ og að lokum hrósarðu eins og enginn sé morgundagurinn þegar hann hlýðir.

Fleiri góð ráð

Verðlaunaðu hundinn þinn þegar hann gerir eitthvað rétt. Hrósaðu honum þegar hann gengur slakur í taumi. Gefðu verðlaun þegar hundurinn þinn er spenntur þegar hann hittir nýja manneskju en heldur öllum fjórum löppum á jörðinni (flaðrar ekki). Þið mætir barni í göngutúr en hundurinn togar ekkert í tauminn. Verðlaunaðu! Sýndu hundinum að þú kunnir að meta það hversu stiltur hann er. Þó svo að hegðunin sé fulllærð geturðu hrósað hundinum öðru hvoru og gefið honum nammibita. Ef þig grunar að kvíði eða hræðsla valdi hegðunarvandamálum hundsins (hundurinn er feiminn, hörfar, geltir mikið eða er árásargjarn), hafðu samband við hundaþjálfara með atferlismenntun sem vinnur með þér að lausn við vandamálinu með jákvæðum þjálfunaraðferðum.


administrator

Berglind á íslenska fjárhundinn Hektor og whippetana Blossa og Takt. Hún hefur mikla reynslu af hundum og er lærður hundaþjálfari og -atferlisfræðingur. Hún lærði í bandaríska skólanum The Academy for Dog Trainers. Berglind er að læra dýrahjúkrunarfræði og vinnur hjá Dýralæknamiðstöðinni í Grafarholti, ásamt því að reka hundaskólann Hundasetrið. Berglind lærði hundanudd í Chicago School of Canine Massage. Hún er með BSc í sálfræði og hefur unnið með Dýrahjálp Íslands.