Aðsend grein Hundasamfélagið minnir á að ekkert eitt er rétt fyrir alla hunda og við mælum alltaf með að ráðfæra sig við dýralækni ef farið er í fóðurskipti, sérstaklega ef hundurinn er veikur eða viðkvæmur. Engar raunprófaðar rannsóknir hafa sýnt að rétt uppsett þurrfóður sé síðra en hráfóður. Rétt uppsett hráfóður hentar þó mörgum hundum. Mikilvægt er að kynna sér hlutina með gagnrýnum augum.
Flestir, ef ekki allir, hundaeigendur kannast við gleðina hjá ferfætlingnum þegar dallurinn er dreginn fram og matmálstíminn hefst. Skottið fer á fullt, munnvatnskirtlarnir vinna yfirvinnu og besti vinurinn getur varla hamið sig. Þeir málglöðu hefja matmálsóperuna og smalahundurinn gerir sitt besta við að drífa tvífætlinginn í átt að dallinum og til baka. Snati veit ekkert betra, matmálstíminn er alltaf besti tími dagsins. Eftir allt þá spilar maturinn stóran þátt í sambandsmyndun okkar við Snata og til að auðvelda þjálfun verður maturinn að vera góður og áhugaverður. Hundruðir tegunda þurrfóðurs, í allskonar stærðum og gerðum, fylla hillur gæludýra- og matvörubúða. Úrvalið er svo mikið að margir hundaeigendur standa í góðan tíma fyrir framan hilluna og klóra sér í höfðinu. Umbúðirnar og sölumenn lofa öllu fögru og áreitið verður til þess að margir grípa það fyrsta sem þeir sjá eða það sem aðrir mæla með. Ónóg þekking eða snilldarlega dulkóðuð innihaldsefni verða til þess að við endum upp með besta vininn sem klórar sér stanslaust, teppaleggur íbúðina með hárum og sýnir jafnvel matnum lítinn sem engan áhuga. Með auknu upplýsingaflæði, þekkingu fagaðila og gangrýnni hugsun almennings velja sífellt fleiri hundaeigendur að leita aftur til uppruna hundsins og gefa Snata mat sem líkist því sem forverar hans átu. Með tilkomu tilbúins hráfæðis á markaðinn erlendis sáu fleiri sér fært að geta uppfyllt næringarþörf Snata án þess að standa marga klukkutíma í viku við skurðabrettið með blóð upp að olbogum. Mörgum fallast einfaldlega hendur við tilhugsunina og sjá sér ekki fært að eyða tíma og frystiplássi í að undirbúa mat fyrir mánuði í senn. Hinsvegar er hægt, með smá rannsóknarvinnu og skipulagi, að undirbúa góðan og næringarríkt hráfæði fyrir besta vininn á stuttum tíma og án mikillar fyrirhafnar. Hráfæði er eitt orð yfir nokkrar mismunandi tegundir fæðis. Í þessari grein verður farið í tvær helstu tegundirnar, BARF (Body Appropriate Raw Food / Bones And Raw Food) og PREY Model Raw. Hvorug aðferðin hefur fengið verðugt íslenskt nafn og hafa íslenskir hráfæðistvífætlingar notast við BARF og PMR sem einföldun.
Líffræðilegar ástæður fyrir því að við ættum að velja hráfæði
Hundar eru kjöt- og hræætur, mjög aðlögunarhæfar, en kjötætur samt sem áður. Þessar áhrifamiklu, stóru og beittu tennur eru hannaðar til að grípa í, rífa og bryðja kjöt og bein. Hundar hafa enga flata jaxla sem al- og jurtaætur nota til að mylja niður plöntufæði og grjón. Jaxlar þeirra eru oddhvassir og liggja í skærabiti sem hakka niður kjöt og bein á stuttum tíma áður en því er kyngt. Ef við berum hundskjaft saman við kjaft á svartbirni sjáum við að alætan (björninn) hefur beittar og stórar tennur fremst en aftar hefur hann flata jaxla sem mauka niður plöntufæði og grjón. Bit hunda er gríðarlega sterkt og vöðvar í kjálka og hálsi hjálpa til við að halda í bráð og vinna sig í gengum kjöt, bein, brjósk og sinar. Ílöng hauskúpan veldur því að kjálkinn opnast mikið og lokast hratt og örugglega í upp-niður hreyfingu en ekki til hliðar eins og hjá al- og plöntuætum. Meltingarkerfi hunda er sérhannað til að melta hrátt kjöt og bein. Munnvatn þeirra inniheldur ekki sömu ensím og munnvatn al- og plöntuæta sem hefja meltingu kolvetna. Magi þeirra er mjög teygjanlegur og getur geymt mikið magn mats. Meltingarfærin eru einföld og hönnuð til að koma kjötinu í gegn eins hratt og hægt er, áður en það fer að rotna. Smáþarmarnir eru stuttir og ristillinn styttur og sléttur. Þetta útskýrir afhverju kolvetni koma oftar en ekki ómelt út um óæðri endann, það gefst einfaldlega ekki tími til að melta þau auk þess sem dvöl þeirra í meltingarfærunum getur valdið vindgangi og óþægindum. Með því að gefa kjötætum kolvetni aukum við álag á brisið sem neyðist til að framleiða mikið magn amylasa til að melta kolvetnin og sterkjuna. Gjöf kolvetna er mjög umdeild í heimi hráfæðis sem útskýrir þessar tvær megintegundir hráfæðis, annarsvegar BARF og hinsvegar PMR.
BARF
BARF (Body Appropriate Raw Food / Bones And Raw Food) samanstendur af fersku/frosnu kjöti, beinum, fisk, eggjum, innmat ávöxtum og grænmeti. Hér ákveða sumir eigendur að gefa mjólkurvörur/kornmeti. Hópur þeirra sem gefa BARF skiptist í tvo hluta. Annar hópurinn lýtur á hundinn sem alætu og gefur honum kolvetni eftir því. Hinn hópurinn telur hundinn valfrjálsa kjötætu og gefur kolvetni en þó í mun minna magni en fyrrnefndur hópur. Margir hráfæðisfylgendur byrja á því að gefa BARF en færa sig síðar út í PMR.
Hlutföll BARF eru:
70% vöðvakjöt 10% hrá kjötmikil bein 10% innmatur (lifur 5%) 10% kolvetni (ávextir, grænmeti, stöku mjólkurvörur eða kornmeti) Hér má gefa kjöt/bein hakkað eða heilt en ávalt óeldað/óhitað. Kornmat þarf að sjóða fyrst ef hann er á annað borð gefinn og helst ætti að gufusjóða grænmeti til að ná hámarksupptöku. Egg og fisk skal ávalt gefa óeldað en frysta þarf fiskinn til að koma í veg fyrir ormamengun ef hún skyldi vera til staðar.
PMR
PMR eða Prey Model Raw samanstendur af fersku og óelduðu kjöti, beinum, fisk og innmat. Þeir sem gefa PMR telja hunda sannar kjötætur og leitast við að gefa fæðu sem endurspeglar það sem forverar hunda átu í náttúrunni. Þeir sem eru einna harðastir gefa heila villibráð með fjöðrum/húð og öllum innyflum en flestir halda sig þó við sláturhúsmatinn í samansettum skömmtum.
Hlutföll PMR eru:
80-85% vöðvakjöt 10-15% hrá kjötmikil bein 5-10% innmatur (lifur 5%) Fylgendur PMR gefa ekki ávexti, grænmeti, mjólkurvörur, kornmat né mikið af fæðubót. Þeir sem leggja ekki í að gefa heila villibráð reyna að fá sem fjölbreyttast af vöðvakjöti og beinum. Þar sem fæstir hundaeigendur hafa aðgang að villibráð skiptir miklu máli að hafa matinn sem fjölbreyttastan þar sem fjöldaframleidd sláturdýr hafa ekki sama aðgang að fæðu og villidýr sem veldur því að kjötið þeirra gæti verið næringarsnauðara. Hér er allt gefið óhakkað og ávalt óeldað/óhitað.
En hvað á ég að gefa og hversu mikið
Hvort heldur sem þú vilt fylgja BARF eða PMR þá er nær því ótakmarkað af kjöti, beinum, kolvetnum og innmat sem þú getur gefið. Hér ræður ímyndunaraflið og fjölbreytni er lykilatriði.
Vöðvakjöt | Hrá, kjötmikil bein, HKB | Innmatur | Kolvetni (BARF) |
Vöðvar | Fiðurfé, beinagrind (60% bein) | Lifur | Brokkólí/gulrætur/sætar kartöflur |
Hjörtu | Lamba/svínarif (45% bein) | Nýru | Grænar baunir/grænkál |
Lungu | Fiðurfé, leggir og vængir (35% bein) | Milta | Gúrka/paprika |
Magi | Svínafætur (60% bein) | Heili | Ananas/bláber/epli |
Meltingarfæri | Hænsnalappir (27% bein) | Bris | Quinoa/hafrar/hýðishrísgrjón |
Græn vömb (1-2 í viku) | Kalkúna/hænsnahálsar (42% bein) | Augu | |
Fiskur | Eystu | ||
Egg (heil, 1-2 í viku) | |||
Tunga |
Almennt er talað um að gefa 2-3% (taflan byggir á 2,5%) af fullorðinsþyngd (IAW = Ideal adult weight) á dag en flestir þurfa að aðlaga þá tölu að eigin hundi. Eftir mánuð ætti að sjást vel hvort hundurinn þurfi minna eða meira og má þá minnka/stækka skammtin um 0.5% í annan mánuð þar til fullkominn skamtur næst. Hundur sem þarf að léttast ætti að fá 1,5% af IAW á meðan hundur sem þarf að þyngjast ætti að fá 3.5%. Hvolpar ættu að fá 2-3% af IAW eða 10% af eigin þyngd. Munið að telja þjálfunarnammi og aukabita með. Margir gefa á sumrin og minna á veturnar til að líkja sem best eftir náttúrulegu fæðuframboði.
5kg | 125g |
10kg | 250g |
15kg | 375g |
20kg | 500g |
25kg | 625g |
30kg | 750g |
35kg | 875g |
Hvolpum undir 12 vikna skal gefa 4x á dag, 4-6 mánaða skal gefa 3x á dag og 6 mánaða og eldri skal gefa 1-2 á dag. Athugið að margir eigendur gefa hundunum sínum stór bein, stoðkerfisbein (t.d lærleggi), til að japla á og telja þau ekki til beina í samansetningunni. Mikla aðgát skal hafa við gjöf á þeim beinum þar sem þau eru mjög þétt og geta valdið því að tennur fá míkrósprungur sem að lokum leiða til þess að þær brotna eða skemmast. Almennt er mælt með því að sleppa gjöf þeirra alveg og halda sig einungis við HKB (hrá, kjötmikil bein) en þau eru meira en nóg til að viðhalda tannhreinsun hjá hráfæðisferfætlingum.
Kostir og gallar hráfæðis
Ef hráfæði er gefið rétt þá eru engir gallar aðrir en fyrirhöfn. Kostir felast m.a í fallegum feld, réttu hlutfalli líkamsfitu, styttri afturbata hjá vinnandi hundum, inni líkur á lífshættulegri þembu, heilbrigðum endaþarmskirtlum, hreinum tönnum, góðri meltingu, heilbrigðari ónæmiskerfi, aukinni átgleði og litlu hárlosi. Auk þess er auðveldara að komast að því hvað það er sem veldur ofnæmi og forðast það. Þú ættir að sjá mun á Snata strax á fyrstu vikunni, hægðirnar verða reglulegar og minna magn í einu, lyktin gæti einnig skánað (eða horfið alveg) og hundurinn losar minni/eða engan illa lyktandi vind. Eftir því sem þú gefur hrátt lengur þá minnkar hárlos og feldurinn verður mjúkur og glansandi. Tennur ættu ekki að mynda tannstein og andadrátturinn ætti að vera lyktarlaus. Fullur árangur ætti að nást eftir samfellda 2 mánuði af hráfæði. Helstu gallar sem nefndir hafa verið eru kostnaður og fyrirhöfn. Kostnaðurinn er hinsvegar ekki meiri, og oftast minni, en sambærilegur skammtur af 1. flokks þurrfóðri. Sem dæmi má nefna að matarkostnaðurinn á mínu heimili (Schafer og Labrador) er um 6000kr fyrir mánuðinn og er það töluvert ódýrara en það sem ég myndi borga fyrir þurrmat. Fyrirhöfnin, eftir að rútína næst, er lítil en ég eyði að meðtal talið klukkustund á mánuði í að skera niður, vikta og setja í dallana. Kvöldið áður tek ég síðan skammtinn út og skelli í boxinu, í vaskinn. Ef ég fer í ferðalag út á land með hundana þá tek ég annaðhvort með í kæliboxi og set í frysti á áfangastað eða kaupi 2 dagskammta í einu í næstu búð og geymi í skugga. Misjafnt er hvernig undirbúningnum er háð. Flestum finnst best að kaupa hráefnin í mánaðarskömmtum og skammta strax niður í plastbox/poka sem fara í frystinn og bíða tilbúin eftir gjöf. Aðrir hafa ekki frystiplássið eða tímann fyrir þesskonar undirbúning og kaupa frekar í vikuskömmtum og geyma í ísskáp/frystihólfi til að setja saman þegar matartíminn rennur upp. Umræður hafa einnig komið upp um það magn baktería sem finnst í hráu kjöti. Eins og ég nefndi hér að ofan þá er meltingarkerfi hunda sérhannað til að vinna á hrækjöti og munnvatn þeirra inniheldur lysozyme, ensím sem brýtur niður og eyðileggur skaðlegar bakteríurLíkurnar á því að hundur verði veikur af bakteríum sem finnast í því eru litlar en það getur þó gerst EF hundurinn er með veikt ónæmiskerfi. Þá hafa rannsóknir sýnt að magn baktería í munni og hægðum hunda er meira hjá þeim sem eru á búðarkeyptum þurrmat heldur en þeim sem eru á hráfæði. Með því að kaupa af viðurkenndum sláturhúsum og frysta afurðina ásamt almennri skynsemi við meðhöndlun getum við minnkað líkurnar allverulega að hundarnir eða við veikjumst. Ég hvet þá sem hafa áhyggjur af bakteríum og snýkjudýrum að kynna sér málið frekar þar sem ég mun ekki fara nánar í þá umræðu hér en set nokkrar greinar og vefsíður hér fyrir neðan.
Hvernig byrja ég
Skiptar skoðanir eru á því hvernig skiptin á milli þurrmats og hráfæðis eiga að fara fram. Flestir eru þó sammála því að ekki eigi að gefa hráfæði og þurrmat saman enda meltast þeir á mismunandi hraða og getur það valdið vindgangi, uppþembu og óþægindum. Mörgum hefur reynst vel að svelta (gefa bara vatn) í 24-48klst og byrja síðan á hráfæði án þess að gefa þurrmat með/aftur. Það er gert til þess að allar leyfar þurrmats séu farnar úr meltingarfærunum en þurrmatur meltist almennt hægt og situr lengi eftir í meltingarfærunum. Það getur tekið þurrmatsvoffa nokkra daga að koma sér upp góðri þarmaflóru og geta fyrstu dagarnir einkennst af niðurgangi. Það er einnig mikilvægt að finna gott svæði til að gefa hundinum matinn þar sem líkur eru á því að hann dragi matinn úr skálinni og finni sér góðan stað til að kjamsa. Svæðið þarf að vera laust við aðra hluti og auðþrífanlegt auk þess sem hann þarf næði og frið. Hreinar flísar, málbik, steinstétt, handklæði eða plastmotta eru allt góðir valkostir.
Hvar leita ég að hráefnum
Flest sláturhús eru tilbúin að selja þér „hundamat“ sem getur verið allt frá afgangskjöti, beinum, innyflum og öðrum sláturúrgangi. Út á landi hefurðu etv fleiri möguleika á því að nálgast sláturhús en á suðurlandi hefurðu möguleikan á því að fá sent með flytjanda fyrir lítinn pening. Ekki vera hræddur við að biðja um eitthvað ákveðið og skrítið. Heimaslátrun á oft líka spennandi nýjungar sem þú getur fengið að nýta þér. Alltaf bjóðast til þess að greiða fyrir þó að þú sért að taka „afgangana“. Í frysti- og kælideild matvöruverslana leynist oft góðgæti, hér geturðu fengið lifur, hjörtu, súpukjöt og vængi/leggi alifugla. Skoðaðu líka ethnic búðir, t.d asíumarkað en þeir eiga oft til eitthvað sem þú færð ekki í íslenskum stórmörkuðum. Kjöt- og fiskiborð eiga oft afganga sem þú gætir fengið og ef þú þekkir sjómenn geturðu fengið að kíkja í trogið eftir spennandi kostum. Einnig eru hreindýraveiðimenn sem verka sjálfir stundum tilbúnir að láta afganginn. Flestir sem hafa gefið PMR eða BARF í einhvern tíma eiga lista af einstaklingum sem þeir eiga viðskipti við og gætu verið til í að deila því með þér. Reyndu að velja fjallgengið, lífrænt og lyfjalaust.
Algengar spurningar og svör
Má ég elda kjötið?
Ekki samkvæmt viðmiðum hráfæðis nei. Með því að elda matinn ertu búin að gera hann líffræðilega óviðeigandi þar sem eldun fjarlægir mikilvæg næringarefni, bæði ensím og lífsnauðsynlegar fitusýrur. Eldun myndar flókin efnasambönd milli próteins og sterkju, milli vítamína, snefilefna og steinefna sem meltingarfæri hundsins kannast ekki við. Meltingin nær ekki að vinna úr næringarefnunum og líkaminn getur hafnað og myndað ofnæmisviðbrögð við fæðunni.
Þarf ég ekki að nota einhver bætiefni?
Nei. Ef þú ert meðvitaður um að hafa úrvalið eins fjölbreytt og hægt er þá er Snati að fá öll þau næringarefni sem hann þarfnast. Sum gæludýr, eins og við mannfólkið, hafa hinsvegar auknar þarfir vegna undirliggjandi sjúkdóma/ástand og þá þarf að bregðast við því. T.d má nefna hunda með mjaðmalos en þar má skoða að auka magn glúkósamíns og gelatíns, annaðhvort með bætefnum eða með breytingum á samsetningum fæðunnar (beinaseyði t.d). Þá gefa sumir hundaeigendur eitthvað af eftirfarandi; hörfræ/olía, kókosolía, selolía, husk, kefir, turmerik, hunand, eplaedik, beinaseyði, hafraseyði, mjólkurþistill, spirulina, glúkósamín, MSM, manganese, vítamín E ofl ofl. Bætiefni eru efni í heila grein.
Þarf hundurinn beinin?
Já. Þau innihalda lífsnauðsynleg steinefni, t.d kalsíum og fosfór sem viðhalda beinastyrk og þroska. Auk þess þrífa beinin þarmana að innan eins og trefjar gera hjá mannfólkinu, halda tönnunum hreinum og sjá Snata fyrir afþreyingu.
Afhverju er nauðsynlegt að gefa innyfli?
Ef við berum næringarinnihald innyfla saman við vöðvakjöt þá sjáum við að innyflin eru mun næringarríkari í minna magni. Þau innihalda stóra skammta af Bvítamínum, t.d B1, B2, B6, fólinsýru og B12. Þau eru einnig stútfull af steinefnum, t.d fosfór, jár, kopar, magnesíum og joð. Auk þess inniheldur innmatur mikilvægt Dvítamín, fitusýrur, omega 3 fitusýrur (EPA og DHA).
Afhverju má ég ekki gefa meira en 5% lifur?
Af öllum innmat virðist vera auðveldast að fá lifur. Hún er eitt öflugasta líffæri líkamans og innheldur mikið magn A vítamíns, fólinsýru, B vítamína (sérstaklega B12) og kopars. Lifur hefur sýnt fram á eiginleika til að aðstoða súrefnisflutningsgetu hemóglóbíns sem er einstaklega mikilvægt í vinnandi hundum. Hinsvegar geta hundar fengið A vítamín eða kopareitrun ef magnið fer yfir ráðlögð 5%. Þá þarf að athuga sérstaklega magnið hjá hundum með nýrnavandamál þar sem hún inniheldur fosfór og purín sem geta aukið álag á nýrun og því þarf jafnvel að taka hana alveg út þar. Lifur skal helst ekki elda þar sem hún missir mikið magn næringarefna við það.
Hversvegna svona lítið/ekkert af kolvetnum?
Í mannfólkinu sjá kolvetni okkur fyrir meginmagni orkunnar (sykrunum) sem við þurfum til að fúnkera í daglegu lífi. Eins og við fórum yfir hér að ofan þá er meltingarkerfi hræætunnar ekki hannað til að taka við og melta sterkjuna sem nær alltaf fylgir kolvetnum. Hér greinast BARF og PMR fylgjendur alveg í sitthvoran hópinn eins og stendur hér að ofan. Orka hundsins kemur alltaf frá kjöti og kolvetnin eru einungis gefin með en eru aldrei undirstaða fæðunnar.
Afhverju hefur hundurinn færri og minni hægðir en áður?
Hann meltir betur er einfalda svarið. Hámarksnýting fæðunnar veldur því að minna skilar sér út.
Hann drekkur miklu minna en áður, er það eðlilegt?
Já algjörlega. Hráfæði er mun vökvameira en þurrfóður.
Geta hundar fengið niðurgang eða harðlífi á hráfæði?
Já ef maturinn er ekki rétt samsettur. Það er frekar auðvelt að stilla skammtin af eftir því hvernig hægðirnar lýta út. Hvítar, þurrar og harðar hægðir = of mikið af beinum. Mjúkar og dökkar hægðir eða niðurgangur = of mikið af innyflum. Slímugar hægðir = of mikið af fitu og húð. Réttar hægðir eru mjúkar en þéttar, brúnar og lyktarlitlar.
Hundurinn minn er svolgrar matinn í sig / stingur af með hann / tyggur ekki
Margir hundar eiga við þessi vandamál að stríða, einfaldlega vegna þess að þeim hefur ekki verið kennt að éta. Flestir hvolpar sem alast upp við hráfæði læra mjög fljótt að éta rétt en öðrum þarf að kenna. Hundur sem svolgrar matinn í sig kann annaðhvort ekki að tyggja eða er hræddur um að matnum verði stolið áður en hann nær að klára. Hér getur hjálpað að gefa einn lítinn bita í einu, halda í einn enda á matnum, gefa frosið eða gefa hundinum algjöran frið á meðan hann borðar. Með tímanum læra flestir að það þarf að tyggja vel en það er þó ekkert stórmál ef hann gerir það ekki. Meltingarfæri hunda eru hönnuð til að taka við stóru magni og meltingin fer að mestu fram í þörmunum en ekki kjaftinum. Hundur sem stingur af með matinn sinn hefur einnig áhyggjur af því að maturinn verði tekinn áður en hann nær að klára. Hér þarf að gefa algjöran frið og gefa matinn á lokuðu svæði þar sem enginn annar hundur/manneskja er sjáanleg. Hér er mjög mikilvægt að muna að hráfæði hefur mikið gildi og það ætti ALDREI að taka mat af hundi nema gefa honum eitthvað betra í staðinn þannig að hann þró ekki með sér vandamál.
Þarf ég að gefa alltaf á sama tíma?
Nei, og eiginlega er það verra. Hráfæði meltist mun hraðar en þurrfóður og sumir hundar upplifa gall-uppköst þegar maginn þeirra er tómur. Þetta gerist sérstaklega þegar hundurinn er vanur að fá matinn alltaf á sama tíma. Þegar matartíminn nálgast þá kastar hundurinn upp litlu magni af gulgruggugum vökva, galli, til að undirbúa magann undir komandi mat. Með því að gefa á mismunandi tímum þá getum við komið í veg fyrir uppköstin með því að lengja matargluggan örlítið, í staðin fyrir að gefa milli 17 og 18 gefum við milli 17 og 20 í staðinn. Ef gall-uppköstin halda áfram þá getur verið nauðsynlegt að skipta matnum niður í fleiri gjafir eða gefa jafnt yfir daginn.
Verður hundurinn minn blóðþyrstur af því að fá hrátt kjöt?
Nei. Hundar eru hinsvegar rándýr og það er þeim eðlislægt að elta uppi bráð. Það er okkar hlutverk sem eigendur að þekkja hundinn okkar og koma í veg fyrir það að hann geti skaðað aðra lífveru.
Ég er hrædd um að maturinn standi í hundinum
Það er alltaf möguleiki á því að það sem hundur setur upp í sig standi í honum, hvort sem það er þurrmatur, dental prik, steinar, spítur, vatn, boltar, leikföng eða hráfæði. Þumalputtareglann er sú að þú fylgist alltaf með hundinum þínum þegar hann er að leika sér eða borða og gefur honum ekki eitthvað sem hann ræður ekki við.
Má virkilega gefa kjúklingabein/fiskbein?
Óelduð, algjörlega. Engar rannsóknir benda til þess að óelduð kjúklingabein/fiskbein valdi köfnunarhættu, stífli eða gati garnirnar. Mun meiri líkur eru á því að tennisboltar, sokkar, gerfibein, spottar, glerbrot, önglar og annað sem hundurinn innbyrgðir valdi vandræðum en óelduð bein sem gefin eru undir eftirliti.
Get ég gefið kjöt/bein/innmat úr hvaða dýri sem er?
Stutt svar; já. Best er að gefa úr fjallagengnu, sýklalyfjalausri heimaslátrun. Ekki gefa kjötætum aðrar kjötætur þar sem villtar kjötætur myndu ekki veiða sér aðrar kjöt/hræætur til matar nema að lífið lægi við. Haltu þig frá kjöti í stórmörkuðum nema þú nauðsynlega þurfir þar sem mikið magn er salt/sykursprautað og það getur valdið niðurgangi.
Hvaða fisk er best að gefa?
Því feitari, því betri. Fiskur inniheldur mismikið magn af kvikasilfri og það er mikilvægt að hafa það í huga. Best er að gefa fisk heilan og vinsælir kostir eru m.a lax, silungur og sardínur. Mjög mikilvægt er að frysta fisk í amk 2 vikur (frá því að hann er gegnfreðinn) fyrir gjöf til að drepa snýkidýr sem kunna að finnast í honum.
Hundurinn minn borðar ekki/vill ekki (kjöt, innmatur, bein)
Hlustum á hundinn okkar. Hann veit oft betur en við og þá sérstaklega þegar eitthvað fer illa í hann. Ef hundurinn þinn snertir ekki við kálfahjörtu en borðar kjúklingahjörtu af bestu lyst er líklegt að kálfurinn sé að fara illa í hann. Það er hundum eðlislægt að vilja að borða og ef hann borðar ekki þá er undirliggjandi ástæða. Hér á ég ekki við hungurverkfall frekjudollunar sem veit að þú bætir hnetusmjöri við matinn ef hann setur upp fýlusvip. Önnur ástæða þess að hundurinn lýtur ekki við einhverju ákveðnu getur verið áferðin, lyktin osfr. Gefðu honum tíma. Hundar sem hafa bara fengið hakkað eða þurrfóður geta alveg fengið klýju þegar við setjum eitthvað slímugt og blóðugt fyrir framan nefið á þeim. Þeir þurfa tíma til að smakka og prófa sig áfram, gefðu litla bita og gerðu matartímann skemmtilegan/áhugaverðann. Þetta kemur allt saman.
Get ég hakkað allt saman og gefið þannig?
Ekki ef þú ætlar að fylgja viðmiðum hráfæðis. Hráfæði, og þá sérstaklega PMR, snýst allt um að gefa hundinum það sem hann myndi borða ef hann væri villtur í náttúrunni. Líkurnar á því að hann myndi finna for-hakkaðan héra eru engar. Það er mun heilbrigðara og náttúrulega fyrir meltingarfærin og tennurnar að fá að nota þessa sterku kjálka til að borða bráðina eins og hún leggur sig. Auk þess er það mun skemmtilegra.
Hvað með mjólkurvörur?
Flestir hundar melta ekki laktósa og ættu því ekki að fá mjólkurvörur. Eins og aðrar kjöt-, hræ-, al- og grænmetis/ávextaætur þá drekka hundar ekki mjólk eftir að þeir hafa verið vandir af spena.
En kornvörur?
Hundar geta ekki melt sterkjuna sem fylgir kornvörum. Best er að sleppa þeim alveg þar sem Snati nýtir hvort eð er ekki næringarefnin og meltingin sterkjunnar setur óþarfa álag á brisið.
Það eru án efa margar spurningar sem þessi grein svarar ekki eða fer ekki nægilega ýtarlega í og því bendi ég á eftirfarandi síður og til frekari lesturs. www.preymodelraw.com www.primalpooch.com www.rawfed.com www.perfectlyrawsome.com www.therawfeedingcommunity.com
Aðsend grein
Svava er 26 ára háskólamær með mikinn áhuga á þjálfun og næringu hunda. Hún hefur gefið hráfæði síðan 2009 og á núna Labradortíkina Siyuh og Schaferrakkann Sky sem bæði byrjuðu á hráfæði 8 vikna.