Ísland skilgreinir aðeins leiðsögu- og hjálparhunda sem þjónustuhunda. Þeir eru flokkaðir sem hjálpartæki í reglugerðum og þurfa að vera taldir nauðsynlegir fyrir notanda.

Hjálpartæki er skilgreint í 2. mgr. 26. gr. laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008.
Þar segir að hjálpartæki sé tæki sem ætlað er að draga úr fötlun, aðstoða fatlaða við að takast á við umhverfi sitt, auka eða viðhalda færni og sjálfsbjargargetu eða auðvelda umönnun. Hjálpartækið þurfi auk þess að teljast nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs. Þá hefur verið sett reglugerð um styrki vegna hjálpartækja, nr. 1138/2008. Auk þess hefur verið sett reglugerð um úthlutun á hjálpartækjum á vegum Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, nr. 233/2010, þar sem leiðsöguhundar eru taldir upp í viðauka. Þeir aðstoði við rötun og umferli, sé úthlutað til einstaklinga sem taldir eru að undangengnu mati geta nýtt sér hund til aukins sjálfstæðis við umferli. Úthlutun sé fylgt eftir með þjálfun hjá sérþjálfuðum hundaþjálfurum og umferliskennurum. Úthlutun fylgi mat á aðstæðum einstaklinga og mat á pörun einstaklings og hunds.

Það er ekki langt síðan leiðsögu- og hjálparhundar voru ekki öryggir í fjölbýlishúsum. Samþykktar voru breytingar á lögum um fjöleignarhús (1994 nr. 26) í apríl 2011. Þá var bætt við eftirfarandi klausu:

[33. gr. d.Leiðsögu- og hjálparhundar

Sé eigandi, eða annar varanlegur íbúi í hans skjóli, blindur eða fatlaður á annan máta þannig að hann þurfi á sérþjálfuðum leiðsögu- eða hjálparhundi að halda er honum heimilt að halda slíkan hund óháð fyrirmælum og takmörkunum laga þessara.

Slíkur hundur skal vera sérþjálfaður og skráður sem leiðsögu- eða hjálparhundur og fyrir skulu liggja vottorð sérfræðinga um þörf hans og þjálfun. Skulu gögn um það afhent húsfélaginu ásamt fróðleik og leiðbeiningum um slíka hunda, þjálfun þeirra og hvernig beri að umgangast þá.

Stjórn húsfélagsins skal láta þinglýsa yfirlýsingu um að leiðsögu- eða hjálparhundur sé í húsinu. Einnig skal stjórnin láta þess getið í yfirlýsingu húsfélags í tengslum við sölu íbúða.

Sé eigandi eða einhver í hans fjölskyldu með ofnæmi fyrir hundum á svo háu stigi að sambýlið við leiðsögu- eða hjálparhund sé óbærilegt og læknisfræðileg gögn staðfesta það skal kærunefnd húsamála leita lausna að fengnu áliti ofnæmislækna, leiðsögu- eða hjálparhundaþjálfara og sérfræðinga á öðrum sviðum ef því er að skipta.]

Lög um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu er hægt að finna á althingi.is

Leiðsöguhundar


Hérlendir leiðsöguhundar eru eign Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, miðstöðin hefur eftirlit með þeim og rétt til að grípa inn í ef vandamál verða í samskiptum hins blinda og hundsins og gagnvart öðrum.
Leiðsöguhundar eru þjálfaðir af Drífu Gestsdóttir fyrir blinda og sjónskerta.
Þeir eru sérþjálfaðir í að:

  • forðast hindranir á gönguleið, bæði á jörðu og í höfuðhæð (t.d. trjágreinar og skilti).
  • hindra að notandinn hrasi um vegkanta eða tröppur.
  • stöðva við öll gatnamót.
  • fara yfir umferðargötur á öruggan hátt með því að forðast að ganga í veg fyrir bíla og önnur farartæki.
  • fylgja fjölda fyrirmæla sem notandinn gefur.

Leiðsöguhundar eru flokkaðir sem hjálpartæki og þurfa að vera úthlutaðir frá Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.

Rétt eins og hvíti stafurinn er leiðsöguhundur skilgreindur sem hjálpartæki í umferli. Ákvarðanir um hvert skal farið eru alfarið í höndum notandans sem stýrir hundinum. Notandinn er í stöðugu sambandi við hundinn til þess að stýra ferðinni að áfangastað. Þess vegna er nauðsynlegt að notandinn sé vel áttaður í umhverfinu sem gengið er um, viti hvar hann er og hvert skuli haldið.

Íslenskir leiðsöguhundar

Bergvin Oddson, formaður Blindrafélagsins greindi frá því í fréttatíma stöðvar2 í apríl á seinasta ári að þörfin á blindrahundum væri mikil. Aðeins 7 hundar væru starfandi á Íslandi en helmingi fleiri væru á biðlista eftir hundum. Hver hundur kostar um 10 milljónir í þjálfun og geta starfað í að jafnaði 10 ár.
Einnig lýsir Halldór Sævar Guðbergsson reynslu sinni af hundinum Bónó, sem hann fékk afhentan snemma árið 2015. Halldór greindi frá því að Bónó hefur núþegar forðað honum frá hættum sem hann hefði ekki komist framhjá einsamall, frá því að falla ofan í skurð sem búið var að grafa þvert yfir gangstétt sem dæmi.

Halldór og Bónó á Hamborgarafabrikkunni.
Halldór og Bónó á Hamborgarafabrikkunni.


Halldór og Bónó komust í fréttirnar nokkrum mánuðum seinna þegar Halldóri var meinað um afgreiðslu á Kringlukránni út af Bónó. Þar kom upp sá misskilningur starfsmanns að leiðsöguhundar væru ekki undanskildir almennum reglum Matvælastofnunar.
Þann 18. september 2015 var tekið viðtal við Lilju Sveinsdóttur sem lýsir sinni reynslu af því að hafa leiðsöguhund. Hún var að fá sinn annan blindrahund þar sem hinn var kominn á eftirlaun. Einnig var rætt við Drífu Gestsdóttir, hundaþjálfara, um nýja hundinn sem hún er að með í þjálfun fyrir þann næsta á biðlistanum og hvað felst í að þjálfa góðan blindrahund.

Hjálparhundar

Viðar Sigurðsson og Tryggur. Ljósmynd frá Auði Björnsdóttir
Viðar Sigurðsson og Tryggur. Ljósmynd frá Auði Björnsdóttir úr sperdill.is


Hjálparhundar hjálpa fötluðum einstaklingum með daglegar þarfir. Hreyfihamlaðir, heyrnalausir og flogaveikir hafa til dæmis rétt á hjálparhundi. Hjálparhundar eru hinsvegar ekki flokkaðir sem hjálpartæki nema hann sé metinn lífsnauðsynlegur. Hundarnir þurfa að vera metnir nauðsynlegir notanda af sérmenntuðum, en þar sem þeir hafa ekkert félag sem sér um hundana líkt og er með leiðsöguhunda þá er það hægara sagt en gert. Það er ekkert félag sem ákveður hvaða hundaþjálfarar geta þjálfað hjálparhunda, veita þeim leyfi eða niðurgreiða þjálfunina.
Þar sem Tryggingarmiðstöð samþykkir ekki hjálparhunda sem hjálpartæki þurfa notendur að standa sjálfir í kostnaði fyrir þjálfun sem getur auðveldlega farið yfir hálfa milljón.
Auður Björnsdóttir þjálfar hjálparhunda og Drífa Gestsdóttir þjálfar bæði leiðsögu- og hjálparhunda. Þær hafa barist fyrir rétti hjálparhunda í kerfinu, þær hafa báðar þjálfað hunda í gegn um árin en hafa ekki fengið félag eða stofnun sem er tilbúin til að taka ábyrgð á hjálparhundum.
Í breytingu á lögum um fjöleignarhús stendur:

Fatlað fólk getur eins og aðrir haft gagn og gaman af hundum. Hundar geta jafnframt hjálpað fólki á margan hátt, til dæmis hreyfihömluðum, heyrnarlausum og flogaveikum. Eins munu hundar hafa góð og almennt heilsubætandi áhrif á andlega fatlað fólk, einhverfa og aldraða. Yfirleitt er ekki um að tefla sérþjálfaða hjálparhunda heldur gæluhunda. Þó munu vera til örfáir hjálparhundar fyrir hreyfihamlaða sem hafa hlotið einhverja þjálfun í því skyni. Ekki er hægt að einskorða hjálparhunda við leiðsöguhunda í þessum lögum. Í útlöndum eru hjálparhundar fyrir fatlað fólk af margvíslegum toga. Líklegt er að hjálparhundum fyrir aðra en blinda muni fjölga á næstu árum. Þegar um aðra hjálparhunda en leiðsöguhunda er að ræða að verður að gera sambærilegar kröfur og til leiðsöguhunda fyrir blinda og lýst er áður. Gæluhundar þótt þægir séu og þjálfaðir geta ekki talist hjálparhundar í þessum lögum. Sömuleiðis falla ýmsir þarfahundar, til dæmis löggæsluhundar, fíkniefnahundar, björgunarhundar og leitarhundar, utan hugtaksins „hjálparhundur“ samkvæmt lögum þessum.

Þessi klausa finnst ekki í núverandi lögum en gefur okkur viðmið um hver skilgreining hjálparhunds er.

Íslenskir hjálparhundar

Hjálparhundar sem vinna erlendis með kvíðasjúklingum og andlega fötluðum hafa þau réttindi að geta fylgt eiganda sínum í oft erfiðar aðstæður. Edda Indriðadóttir sagði frá atviki í viðtali við DV.is í enda apríls í fyrra þar sem hundurinn Loppa hjálpaði eiganda sínum að rata heim, en hún týndi stað og stefnu eftir flogakast.

Við búum hérna tvö saman, ég og kærastinn minn. Loppa hefur algjörlega bjargað mér. Ég er flogaveik og fæ alls kyns flog. Um daginn fékk ég ráðvilluflog og ég vissi ekkert hvar ég var og vissi ekki einu sinni nafnið á hundinum. Eina sem ég kom út úr mér var „Heim“ og hún Loppa vísaði mér leiðina inn hérna heima. Ég veit ekki hvar ég hefði endað ef ekki væri fyrir hana Loppu.

Edda

Einnig er ekki alltaf um hunda að ræða, Friðrik Þór lýsti því í viðtali við DV.is í sama viðtali og Edda hversu mikils virði kettirnir hans eru honum og hans geðrænu heilsu.

Sumt lætur maður bara ekki yfir sig ganga. Hún Aþena hefur búið hjá mér undanfarin níu ár eða frá því árið 2006 þegar ég fór að leigja af Öryrkjabandalaginu. Aþena bjargaði mér upp úr þunglyndinu og ég læt hana ekki frá mér. Það kemur bara ekki til greina,

segir Friðrik Þór sem ætlar að standa fast á sínu.

Ég ætla ekki að gera neitt í þessu. Þú getur alveg eins sent bréf á fólk og beðið það að gefa frá sér börnin sín. Þeir verða þá bara að rifta leigusamnininum mínum.

Tryggur að hjálpa Viðari syni Auðar
Tryggur að hjálpa Viðari syni Auðar


Fyrir 9 árum birtist grein á mbl.is þar sem Auður Björnsdóttir, hundaþjálfari, ýtrekar þá nauðsyn að Tryggingastofnun aðstoði við þjálfun þjónustuhunda. Auður þjálfaði Trygg fyrir son sinn, Viðar, sem er fatlaður. Það tók um 6 mánuði að þjálfa Trygg sérstaklega til að aðstoða hann. Við höfðum samband við Auði og spurðum út í aðstæður í dag. Tryggur er fallinn frá og Viðar treysti sér ekki til að fá sér nýjan hund strax. Hann ætlar að endurskoða málin þegar hann verður eldri. Auður rifjar upp minningar um Trygg og lýsir honum sem vinnusömum hundi.

Tryggur rètti Viðari allt sem hann missti, studdi hann á göngu þegar Viðar var yngri og lèt vita með gelti ef Viðar þurfti á aðstoð að halda. Hann fylgdi honum eftir út um allt. Èg kenndi Trygg ýmislegt fleira eins og að opna hurðar, kveikja ljós, aðstoða fólk úr sokkum, buxum og jökkum og margt fleira enda var hann mjög vinnusamur og fljótur að læra

Auður Björnsdóttir

Hjálparhundar erlendis

Erlendis eru víða samþykktar mun fleiri tegundir hjálparhunda fyrir fólk með fötlun, raskanir og/eða sjúkdóma sem hamla getu notenda þeirra. Þjónustuhundar eru meðal annars sérþjálfaðir fyrir fólk í hjólastólum, þá sem hafa skert jafnvægi og mismunandi heilsufarsleg eða geðræn vandamál. Hundarnir læra að tilkynna yfirvofandi flog eða köst. Þeir láta vita af lágum blóðþrýstingi eða róa niður eigandann þegar hann er í kasti t.d. af völdum einhverfu, kvíða eða áfallastreituröskunnar.
Hundarnir geta sótt hluti sem viðkomandi nær ekki í. Þeir læra að opna og loka hurðum og kveikja og slökkva á ljósarofum. Þeir gelta þegar þörf er á aðstoð fyrir eigendur sína og í sumum tilfellum eru hundarnir þjálfaðir til þess að yfirgefa eiganda sinn til að finna næstu manneskju og leiðbeina henni að eiganda sínum.
Hundar geta einnig unnið sem stuðningstæki fyrir einstaklinga með skert jafnvægisskyn með því að halla sér að manneskju og mynda þannig mótjafnvægi.

Þjónustuhundurinn Georg og Bella
Þjónustuhundurinn Georg og Bella.


Erlendis eru þjónustuhundar bæði fengnir frá athvörfum og úr sértækum ræktunum. Hundarnir eru þjálfaðir af sjálfboðarliðum sem gengið hafa í gegn um sérstakan þjálfunarskóla. Algengast er að þjónustuhundar séu annaðhvort hreinræktaðir eða blöndur af Golden Retrievers og Labrador Retrievers. Þjónustuhundar geta þó verið af öllum stærðum og gerðum, þar sem þarfir eiganda eru svo misjafnar. Þjónustuhundar eru þó alltaf merktir með sérstökum búnaði, oftast jakka, bakpoka eða beisli.

Lagarammar erlendis

Til eru sérstök lög sem gilda í Bandaríkjunum, Ástralíu, Kanada, Japan, Nýja-Sjálandi og Bretlandi þar sem þjónustuhundar eru sérstaklega varðir sem hjálpartæki samkvæmt lögum og eru flokkaðir í þrjá mismunandi flokka:

  1. „Blindrahundar“ eru þjálfaðir sérstaklega fyrir blinda og sjónskerta einstaklinga.
  2. „Heyrnarhundar“ eru þjálfaðir sérstaklega fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta einstaklinga.
  3. „Þjónustuhundar“ eru þjálfaðir sérstaklega fyrir einstaklinga sem eru með aðra fötlun, hömlun eða sjón- eða heyrnarleysi.

Hægt er að skoða grunnin að lögunum hér. Assistance Dog International eru félagssamtök sem halda utan um grunninn af lögunum sem gilda í ofangreindum löndum.
Svipuðum réttindum þarf að koma á hérlendis svo öryrkjar fái þann rétt til að halda sinn þjónustuhund. Leigumarkaðurinn leyfir dýrahald, en algengt er að katta- og hundahald sé bannað á leigumarkaðinum, oftast er katta- og hundahald bannað af húsfélagi, en stundum er það eigandi leiguhúsnæðis. Bæði í félagsíbúðum og íbúðum öryrkjabandalagsins eru dýrahald bannað. Sökum þess hversu kostnaðar- og tímafrekt það er að fá sérþjálfaðan hjálparhund þá er það ekki möguleiki fyrir þá sem þurfa á þeim að halda. Það getur jafnvel verið lífsnauðsynlegt fyrir manneskju að hafa þann rétt að halda dýr. Nýlega birtist frétt um Sverrir, hann greindist með geðklofa fyrir 23 árum. Honum var meinað að hafa hund hjá sér sem hann fær stundum í heimsókn til að minnka einveruna.
Fólk er oft einangrað, kvíðið eða jafnvel upp á ókunnugt þjónustufólk komið með einfaldar daglegar athafnir, eins og að klæða sig, eða fara út í búð. Hundar myndu veita mörgum af þessum aðilum aukið sjálfstæði. Hundar núþegar sýnt og sannað mikilvægi sitt fyrir andlega og líkamlega heilsu fólks almennt, sérstaklega fyrir fólk sem á við vandamál að stríða, hvort sem um ræðir geðræn/andleg eða líkamleg vandamál. Því væri réttast að endurskoða lagarammann hérlendis um hvað felist í raun og veru í því að vera hjálparhundur.


Guðfinna á Dandie Dinmont Terrier rakkann Watson. Hún er hönnuður, situr í stjórn Félags ábyrgra hundaeiganda og Dýraverndarsambands Íslands. Hún lærði um hegðun týndra dýra hjá Missing Animal Response Network. Nú hjálpar hún til við að finna týnda hunda, býr til auglýsingar og ráðleggur við leitir, einnig er hún að vinna að þróun smáforrits fyrir týnd dýr.