Þegar kenna á hundi taumgöngu þarf fyrst að átta sig á muninum á því að ganga fallega í taum og að ganga við hæl. Það er vissulega fallegt að sjá hund rölta rólega við hæl eiganda síns í göngutúr en það er í raun alls ekki nauðsynlegt. Maður vill að sjálfsögðu að hundurinn gangi fallega í taum en mér persónulega finnst allt í lagi að hundur hafi leyfi til að skoða umhverfið, þefa og hafa gaman í göngutúr. Maður fer nefnilega í göngutúr með hundinum sínum, ekki með hundinn sinn.

Göngutúrinn er ekki aðeins fyrir þig heldur líka fyrir hundinn. Þess vegna ætti maður að vilja leyfa hundinum að fá eins mikið út úr göngutúrnum og hægt er. Hundar fá mun meira út úr göngutúr þar sem þeir fá að þefa og rölta um í tveggja metra taum en þar sem þeir þurfa að ganga fullkomlega við hæl eiganda síns án þess að fá að gera svo mikið sem þefa af einum brunahana. Þetta þýðir ekki að þú látir hundinn draga þig áfram eða að þú þurfir að draga hundinn í burtu frá hverjum einasta ljósastaur sem þið mætið.

Þetta er spurning um hinn gullna milliveg. Hafðu tauminn ágætlega langan (1,8-2 metrar er góð lengd) og þá hefur hundurinn ákveðið frelsi. Hann þarf þó að ganga á þínum hraða. Það eru mjög margar aðferðir við að kenna hundum að ganga fallega í taum. Áður en ég fer nánar út í þær þá mæli ég með að lesa „Hvernig hálsól/beisli á ég að nota í göngutúrum?“. Hér nefni ég þrjár vinsælar aðferðir til að kenna taumgöngu. Í öllum þessum aðferðum á það við að þú notar enga kippi og engar skammir! Taumurinn er ekki stjórntæki.

Aðferð 1: Snúa við

Þessi aðferð er góð fyrir þá sem vilja nota nammi. Hún hentar vel fyrir hunda sem vantar meiri hvata í göngutúrum og sem eru óöruggir. Þegar hundurinn byrjar að toga, bakkar þú snögglega (gengur aftur á bak, gott að beygja sig aðeins í hnjánum til að ná athygli hundsins) og kallar á hundinn til þín. Um leið og þú nærð athygli hundsins býðurðu honum nammi, hrósar og heldur áfram göngu. Ef hundurinn tekur ekki við namminu er það allt í lagi, þú skalt samt alltaf bjóða honum nammið. Svo endurtekurðu ef hundurinn byrjar aftur að toga. Þú getur líka notað þessa aðferð og sleppt nammi. Í staðinn fyrir að gefa nammi heldur þú göngu áfram um leið og hundurinn slakar á taumnum. Verðlaunin eru að halda áfram göngu.

Aðferð 2: Stoppa

Ef þú ert með mjög æstan hund hentar þessi aðferð vel. Hér notarðu ekkert nammi heldur er það að hundurinn komist áfram í göngutúrnum nógu verðlaunandi til að kenna honum að það er bannað að toga í tauminn. Þegar hundurinn byrjar að toga, stoppar þú og stendur eins og steinn. Um leið og hundurinn slakar á taumnum eða sýnir þér athygli, heldur þú áfram göngu.  Svo endurtekurðu ef hundurinn byrjar aftur að toga. Það er mjög mikilvægt að hundurinn komist aldrei upp með að toga þig áfram. Þú skalt aldrei láta undan, ekki einu sinni nokkra metra þegar hundurinn er æstur. Þú skalt hugsa þetta þannig að hundurinn muni aldrei aftur komast eitt skref áfram með togi.

Aðferð 3: Skipta um stefnu

Þegar hundurin byrjar að toga, skiptir þú um stefnu og byrjar að labba í allt aðra átt. Gerðu athyglihljóð (t.d. með því að smella í góm) til þess að ná athygli hundsins á sama tíma og þú skiptir um stefnu. Þetta nægir oft til þess að hundurinn verður forvitinn og eltir þig. Hér skiptir miklu máli að hafa ekki áhyggjur af því að nágranninn sé að fylgjast með. Þú munt líklega ekki komast neitt rosalega langt áfram fyrstu skiptin en þetta virkar!


administrator

Berglind á íslenska fjárhundinn Hektor og whippetana Blossa og Takt. Hún hefur mikla reynslu af hundum og er lærður hundaþjálfari og -atferlisfræðingur. Hún lærði í bandaríska skólanum The Academy for Dog Trainers. Berglind er að læra dýrahjúkrunarfræði og vinnur hjá Dýralæknamiðstöðinni í Grafarholti, ásamt því að reka hundaskólann Hundasetrið. Berglind lærði hundanudd í Chicago School of Canine Massage. Hún er með BSc í sálfræði og hefur unnið með Dýrahjálp Íslands.