Hundurinn merkir inni. Hvað er hægt að gera?
Þegar hundar eru almennt húshreinir en pissa reglulega á ákveðna hluti eða á fasta staði er talað um að hundurinn merki. Það er algengast að rakkar merki mikið en þó eiga sumar tíkur það til. Þetta er hvimleitt vandamál og það er oft mjög tímafrekt að stoppa þetta. Vinnan er þó þess virði þegar til lengri tíma er litið.
Útilokið þvagfærasýkingu
Ef fullorðinn hundur byrjar allt í einu að pissa inni er fyrsta skref að útiloka þvagfærasýkingu með ferð til dýralæknis. Merki um þvagfærasýkingu eru t.d. ef hundurinn virðist leka, ef hann á erfitt með að halda lengi í sér, hann pissar í sig í svefni og ef blóð er í þvagi.
Þrif
Það fyrsta sem maður gerir til að koma í veg fyrir merkingar er að þrífa allt hátt og lágt. Það er ekki nóg að þrífa með venjulegri sápu heldur þarf að þrífa með vatnsblönduðu ediki eða sápu sem er sérstaklega gerð til að fjarlægja pissulykt. Hundar geta greint pissulykt sem fólk finnur alls ekki. Ef það er pissulykt eru miklar líkur á að hundurinn merki yfir lyktina, aftur og aftur.
Afmarka svæði
Næsta skref er að afmarka svæði. Best er að hafa rými hundsins svo afmarkað að þú getir alltaf fylgst með honum. Það er gott að nota barnahlið til að afmarka svæði en það munar um allt, til dæmis að loka öllum hurðum. Ef þú getur ekki afmarkað svæði skaltu setja hundinn í taum innan dyra. Þá geturðu alltaf fylgst með honum.
Að koma í veg fyrir að hundur merki
Nú er það þetta erfiða. Að fylgjast með hundinum öllum stundum og koma í veg fyrir að hann pissi inni! Þú vilt semsagt stoppa hann áður en hann merkir. Maður þarf að vera snöggur. Þú sérð löppina byrja að lyftast og þá stekkurðu upp, nærð athygli hundins og hrósar! Svo þarf auðvitað að passa að hundurinn þurfi ekki hreinlega að pissa. Farðu oft út og láttu hundinn tæma blöðruna alveg.
„Pissa“
Annað sem er gott að gera til að koma í veg fyrir merkingar er að kenna stikkorðið „pissa“. Það er mög auðvelt að kenna þetta stikkorð. Þú segir einfaldlega „pissa“ með rólegri röddu þegar hundurinn pissar. Ekki segja þetta ef hundurinn er bara að merkja. Segðu þetta þegar hann er t.d. að pissa í fyrsta skipti á morgnanna og þegar þú ert nokkuð viss um að það komi ágætis buna. Þú þarft ekki að hrósa eða gera neitt mál úr þessu. Þú ert einfaldlega að tengja orðið „pissa“ við það að hundurinn pissi. Með tímanum byrjar hundurinn að ná þessari tengingu og þá geturðu gefið þetta stikkorð og hundurinn pissar. Þetta er mjög þægilegt ef maður er til dæmis að drífa sig í göngutúr. Passaðu samt að ofnota ekki þessa skipun og snúa alltaf við um leið og hundurinn er búinn að pissa. Hundar eru fljótir að læra að halda í sér ef þeir fatta að göngutúrinn er búinn um leið og þeir eru búnir að létta á sér.
Ef allt annað bregst, hafið samband við hundaatferlisfræðing
Ef ofangreind ráð virka ekki er líklega dýpra vandamál að hrjá hundinn, til dæmis stressvandamál. Hafið samband við hundaatferlisfræðing og fáið hjálp hjá fagaðila.