Hundur ársins 2015 – Kosning

Óliver

Óliver

Óliver vakti mömmu sína þegar kviknaði í Írabakka fyrr í vetur. Reykskynjarinn hafði ekki farið í gang þar sem eldurinn var í stigaganginum en ekki í íbúðinni sjálfri. Óliver áttaði sig hinsvegar á alvarleika málsins og klóraði og beit í eiganda sinn til að vekja hann. Þegar eigandi hans loksins vaknaði var reykur byrjaður að berast inn í íbúðina. Þau komust þó öll út örugg á endanum. Þá var íbúðin óíbúðarhæf og því lenti eigandi Ólivers í gífurlegum vandamálum og óvíst var hvort þau fengju íbúð saman. Það gekk þó sem betur fer eftir og eftir nokkra leit gátu þau flutt í nýja íbúð saman.

Sondi

Sondi

Sondi missti mömmu sína hana Jolly sama dag og hann fæddist. Hann fæddist með legvatn í lungunum og því voru eigendur syrgjandi móður 3ja hvolpa ásamt því að berjast fyrir lífi Sonda. Sondi þurfti að fá mat á 1-2 tíma fresti allan sólarhringi í gegn um sondu. Sondi lést því miður eftir 4 vikna baráttu.

París

París

París kvaddi þennan heim 22.desember þegar hún var 8 ára gömul. Hún fæddist hjartveik og var aðeins gefið ár áður en hjartað ætti að gefa sig. Hún sannaði sig sem hetja og var ætíð hraust þar til hún fékk þvagstein fyrr á árinu. Þvagsteinninn var einn sá stærsti sem dýralæknarnir höfðu séð miðað við stærðina á París. Hún sannaði sig aftur eftir aðgerðina og var fljót að ná sér en svo um miðjan desember varð hún allt í einu öll stíf og átti erfitt með að anda. Á spítalanum kom í ljós að það var mikill vökvi í lungunum og hjartað orðið svo stórt að það lokaði öndunarveginum.

París fékk bæði þvagræsilyf og hjartalyf með heim. Henni virtist vera farið að líða betur þar til hún stífnaði aftur upp þann 22. desember. Því miður hafði sama gerst aftur og á dýraspítalanum þurfti því miður að kveðja þessa litlu hetju.

Dasy

Dasy

Dasy er 10 ára öðlingur sem hefur staðið með eiganda sínum í gegn um skin og skúrir, eins og eigandinn segir sjálf: ,,Einfaldlega besti vinur minn staðið eins og klettur við hlið mér í mörg ár.. Hún á bara skilið það besta…“

Loki

Loki

Loki var aðeins 18 mánaða þegar hann lenti í bílslysi í maí á þessu ári. Hann slapp frá eiganda sínum og varð fyrir bíl nokkrum metrum frá eigandanum. Hann datt úr mjaðmalið við áreksturinn. Mjöðmin var ekki að lagast og liðurinn var ekki að gróa saman. Því þurfti Loki að fara aðgerð þar sem mjaðmakúlan var fjarlægð.

Við tók mikil endurhæfing sem fól í sér mikla vinnu, erfiði. Eftir þó nokkrar andvökunætur fór Loki loksins að nota löppina aftur og er meira að segja farinn að draga létta þyngd.

Kolmundur Jónsson

Kolmundur Jónsson

Kolmundur er hjálparhundur. Eigandi hans er með almenna kvíðaröskun og glímir við óþægilegar tilfinningar á hverjum degi. Hann fær kvíðaköst vegna hluta sem mörgum finnst eðlilegir.
Sama hvernig eigandanum líður þá gerir Kolgrímur sitt besta til að vera til staðar. Hann er hversdagsleg hetja, eins og eigandinn lýsir svona fallega:

„Hann hefur kanski ekki gert neitt sérstakt á árinu, annað en að finna týndan hamstur og týnda slöngu enda frábær leitarhundur en á hverjum degi gerir hann lífið mitt bærilegra og hjálpar mér í gegnum daginn og hann er litla hetjan mín og ég veit það að ég get treyst á hann sama hvað. Ég væri ekki á lífi í dag ef það væri ekki fyrir hann, hann bjargar mér á hverjum degi“.

Kujo

Kujo

Kujo byrjaði illa í lífinu. Hann átti slæma eigendur til að byrja með og þegar núverandi eigandi tók við honum var hann verulega grannur. Hann pissaði á sig þegar karlmenn komu í heimsókn, hlýddi ekki innkalli og var mjög lélegur í samskiptum við aðra hunda þar sem hann urraði á þá og sýndi mikil streitumerki.
Núverandi eigandi var að ganga í gegnum erfitt tímabil þegar hann fór að hitta Kujo og átti ekki von á því að taka hund með sér heim. Þeir léku sér, kúruðu og þjálfuðu kúnstir í þrjá klukkutíma og hann endaði með að taka Kujo með sér heim.

Í dag er Kujo 6 ára gamall og er í sínu besta formi. Hann býr með öðrum dýrum og hundum og er mjög ungur í anda.
Eigandi Kujo er 16 ára trans strákur sem segir að Kujo hafi hjálpað sér mun meira en öll lyf og sálfræðiviðtöl sem hann hefur kynnst: „Hann passar mig alveg eins og ég passa hann. Hann hefur algjörlega bjargað mér og búin að taka svo miklum framförum, þess vegna finnst mér að hann eigi skilið að vera hundur ársins 2015“.

Emma

Emma

Emma vinnur sem aðstoðarhundur hjá eiganda sínum sem er þroskaþjálfi og menntaður sérfræðingur í meðferð með aðstoð dýra. Emma vinnur með einstaklingum sem yfirleitt sækja lítið eða ekkert í líkamssnertingu með mannfólki. Hún lokkar fram bros hjá öllum, sama í hvaða skapi þeir eru og einn mjög einhverfur einstaklingur sem er einstaklega lítið fyrir líkamssnertingu sækir mikið í Emmu og nýtur þess í botn að kúra með henni.

Hún bætir sannarlega lífsgæði og vellíðan skjólstæðinga sinna.

Herkúles

Herkúles

Herkúles fæddist með bláann og dáinn fót. Naflastrengurinn hafði farið utan um fótinn og komið var mikið drep í hann. Það var talið að ekkert væri hægt að gera fyrir fótinn og hann yrði tekinn af en mælt var þó með því að nudda löppina og reyna að koma einhverju blóðflæði í gang. Ingibjörg, eigandi Herkúles, gafst ekki upp og á endanum þurfti aðeins að taka eina tá, sem háir honum ekkert í dag. Herkúles er nú langstærstur og sterkastur og sæmir nafni sínu því vel.

Lotta

Lotta

Lotta át mikið magn af sandi, svo mikið að maginn á henni stíflaðist og allt leit út fyrir að hún þyrfti aðgerð. Maginn á henni varð eins og steypa og það var mikil hætta á að drep myndi myndast í þörmunum. Dýralæknarnir ákváðu þó að bíða með aðgerð og sjá hvort hún gæti losað sig sjálf við sandinn. Lotta sannaði sig og náði að losa sig við sandinn sjálf.

https://www.facebook.com/photo.php?fbid=10153684860652591&set=gm.941057559311495&type=3&theater
https://www.facebook.com/photo.php?fbid=10208321366339590&set=gm.942011539216097&type=3&theater

Kátur

Kátur

Kát­ur lenti fyr­ir bíl í apríl og missti þá hægri aft­ur­löpp­ina en hann hef­ur náð undra­verðum ár­angri á stutt­um tíma. Bíl­slysið þar sem Kát­ur missti fót­inn líður Jó­hanni seint úr minni. Hann var að bera sófa inn á heim­ili sitt við Rauðar­ár­stíg og missti aug­un á Káti í smá stund. Kát­ur hljóp á eft­ir ketti út á götu og beint fyr­ir bíl sem nauðhemlaði og bremsaði þannig að dekkið fór yfir löpp­ina á hon­um. Káti brá eðli­lega og áður en Jó­hann gat náð til hans var hann hlaup­inn í burtu.

„Ég sá þetta ekki ger­ast en ég heyrði það, ég hljóp á eft­ir hon­um en hann var svo fljót­ur að ég missti af hon­um. Þá hringdi stelpa í mig og sagði mér að hann væri blóðugur efst á Skóla­vörðustígn­um“.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/07/06/hleypur_upp_esjuna_a_thremur_fotum/

Loki

Loki

Loki er Labrador sem óvænt varð að fullkomnum hjálparhundi fyrir Ísabellu. Ísabella Eir er 6 ára stúlka sem er ein af þremur á landinu með Smith-Magenis heilkenni (SMS) sem er þungt og fjölþætt heilkenni. Helstu einkenni SMS eru miklar svefntruflanir, skertur vitsmuna- og tilfinningaþroski, seinkaður málþroski, gífurleg hegðunarvandamál og sjálfskaði.

„Ég gerðist stuðningsforeldri fyrir hana þegar hún var rúmlega 3 ára, til að hvíla illa sofna fjölskyldu sem var að takast á við algjörlega ókunnan heim. Allar götur síðan hef ég orðið vitni að ótrúlegum atvikum og augnablikum sem hafa skilið mig eftir agndofa. Að horfa á hundana mína sem eru óþjálfaðir og skemmtilega óþekkir labradorar, ganga inn í hlutverk hjálparhunda. Loki (5 ára) er fremstur í flokki og hefur verið fyrirmynd fyrir hina, enda átti ég bara hann þegar Ísabella fór að koma til mín. Loki hefur sannað fyrir mér að hjálparhundar eru ekki endilega bara þeir hundar sem hafa farið í gegnum langa og stranga þjálfun. Það er sumum hundum einfaldlega í blóð borið“.

http://hundalifspostur.is/2015/10/28/isabella-og-hundarnir/

Morris

Morris

Morris er 9 ára björgunarsveitarhundur. Hann er kominn á ellilífeyri eftir að hafa unnið hörðum loppum að því að bjarga mannslífum. Hann er þó ekki búin að gleyma þjálfuninni. Jóhanna Þorbjörg, eigandi Morris, lýsir ótrúlegu augnabliki þegar fyrrum hermaður með mikla áfallastreituröskun, eða PTSD, féll í yfirlið í heimsókn hjá Þorbjörgu.

„Við prufuðum að sækja Morris og það næsta sem gerðist var ekkert minna en magnað. Morris lagðist hjá honum og haggaði sér ekki. Skyndilega byrjar Patrick að öskra í sífellu ,,hvar er ég, hvar er ég“ ég hélt að þá yrði Morris hræddur og myndi fara... Nei aldeilis ekki, hann lagðist ofaná hann og byrjaði að sleikja hann í framan og því meira sem Patrick öskraði því meira sleikti hann hann í framan! Eftir smá stund vaknar Patrick og sér að hann er bara hjá olkur og stendur á fætur. Gamli minn gerði það líka, dillaði rófunni og náði svo í boltann sinn og hljóp út að leika sér bara eins og hann hefði aldrei gert annað“

http://www.dv.is/frettir/2015/12/20/hundur-johonnu-kom-vini-hennar-til-bjargar-thad-naesta-sem-gerdist-var-ekkert-minna-en-magnad/