Matvælastofnun hefur sent hund úr landi vegna falsaðra innflutningsgagna. Vill stofnunin brýna fyrir innflytjendum gæludýra að ganga úr skugga um að öll tilskilin vottorð séu til staðar og að þau séu gefin út af þar til bærum aðilum.

Í tilkynningu frá stofnuninni segir að vottorð um mótefnamælingu vegna hundaæðis sé eitt þeirra skilyrða sem sett er vegna innflutnings hunda og katta til Íslands. Nýlega var hundur fluttur til Íslands sem var með gilt innflutningsleyfi en vottorð vegna mótefnamælingar var hins vegar falsað. Þetta var staðfest af dýralæknayfirvöldum í viðkomandi landi. Innflytjandi hafði lagt undirbúning innflutnings í hendur ræktanda hundsins og svo virðist sem dýralæknir, sem sá leitaði til þar í landi, hafi lagt fram þessa fölsuðu blóðprufuniðurstöðu.

Samkvæmt reglugerð nr. 935/2004 um innflutning gæludýra og hundasæðis ber að lóga dýri eða senda það úr landi ef vottorð eru fölsuð. Hið síðarnefnda varð niðurstaðan í máli þessa hunds og var hann sendur úr landi eftir nokkurra daga dvöl í einangrun og þar með féll innflutningsleyfið samstundis úr gildi.

Falsanir vottorða er raunverulegt vandamál sérstaklega frá þriðju ríkjum til EES landa. Því er öllum innflytjendum gæludýra bent á að ganga úr skugga um að allt undirbúningsferlið (bólusetningar, blóðprufur o.fl.) fari fram samkvæmt settum reglum. Matvælastofnun mun í framhaldi af þessu mæla með að innflytjendur notist við rannsóknarstofur viðurkenndar af ESB vegna mótefnamælinga fyrir hundaæði.

http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/hundur-sendur-ur-landi-vegna-falsad-vottords 


Guðfinna á Dandie Dinmont Terrier rakkann Watson. Hún er hönnuður, situr í stjórn Félags ábyrgra hundaeiganda og Dýraverndarsambands Íslands. Hún lærði um hegðun týndra dýra hjá Missing Animal Response Network. Nú hjálpar hún til við að finna týnda hunda, býr til auglýsingar og ráðleggur við leitir, einnig er hún að vinna að þróun smáforrits fyrir týnd dýr.