Björt Ólafsdóttir, starfandi umhverfis- og auðlindaráðherra skrifaði undir breytingu á reglugerð í dag sem gerir veitingarhúsaeigendum kleift að leyfa gæludýr ef þeir vilja. Hundasamfélagið fagnar þessum áfanga og vill nýta tækifærið til að minna hundaeigendur á að almennt gilda ákveðnir hundasiðir erlendis.

Ekki fara með hundinn ef hann er stressaður eða líður illa

Hundurinn á alltaf að njóta vafans, ekki neyða hund til að vera á veitingastað ef honum líður illa. Lærðu merkjamálið sem gefur til kynna að hundinum líður illa:
Hröð öndun.
Tungan úti.
„Brosandi“. 
Lágt hratt væl.
Sést í hvítuna á augunum, eins og andlitið sé togað aftur.
Höfuðið niðri eða ber höfuðið lágt.
Skottið á milli lappana eða gerir sig lítinn.

Vertu viss um að hundar séu leyfðir

Það munu ekki allir veitingastaðir leyfa hunda. Sumir veitingastaðir munu bara leyfa hunda á ákveðnum svæðum, innan- eða utandyra. Virðum ákvörðun þeirra veitingahúsa sem vilja ekki leyfa hunda og gerum ekki mál úr því, styrkjum frekar þá staði sem leyfa hunda.

Kenndu hundinum viðeigandi hegðun

Þegar þú ferð út að borða með hundinn er mikilvægt að hundurinn læri að haga sér. Við mælum sterklega með því að taka með teppi eða annað undirlag sem hundurinn þekkir og kann að liggja kyrr á. Vertu einnig viss um að hundurinn geti setið, legið eða verið kyrr á meðan þú borðar og sé ekki að toga í tauminn eða að reyna að komast á milli borða.

Vertu búin að taka göngutúr

Það er ekkert vandræðalegra en að hundur sem fer að merkja húsgögn eða hafi ekki farið á klósettið áður en þú sest niður á veitingastaðnum.

Bannað að betla

Vertu viss um að hundurinn sé ekki að betla frá fólki á næsta borði.

Allar fjórar á gólfinu

Það er einstaklega dónalegt ef einstaklingur færi að standa ofan á stólum á skítugum skónum. Virðum þetta og höldum öllum löppum á gólfinu.

Hafðu eitthvað að gera fyrir hundinn

Það er sniðugt að koma með nagdót eða aðra heilaleikfimi ef hundurinn er ekki vanur að slaka á í þessum aðstæðum. Passaðu bara að nammi sé ekki lyktarsterkt og ekki mæta með tístudót eða annað sem veldur öðrum ónæði.

Ekki binda tauminn við húsgögnin!

Þetta er algengur misskilningur. Borð og stólar eru almennt ekki þung húsgögn og munu dragast til ef hundurinn æðir af stað. Haltu í tauminn, hafðu hundinn bundin við þig eða vertu með handfrjálsa festingu, til dæmis mittisbelti. Vertu með fasta lengd á taumnum og hafðu tauminn stuttan. Njótum þess að geta stoppað á kaffihúsum og veitingastöðum með ferfætlingunum okkar, en pössum að fylgja viðeigandi hundasiðum.


Guðfinna á Dandie Dinmont Terrier rakkann Watson. Hún er hönnuður, situr í stjórn Félags ábyrgra hundaeiganda og Dýraverndarsambands Íslands. Hún lærði um hegðun týndra dýra hjá Missing Animal Response Network. Nú hjálpar hún til við að finna týnda hunda, býr til auglýsingar og ráðleggur við leitir, einnig er hún að vinna að þróun smáforrits fyrir týnd dýr.