Garður sem lítur út eins og jarðsprengjusvæði var á óskalistanum hjá fæstum sem fengu sér hund. Það er þó raunveruleiki margra hundaeigenda þar sem sumir hundar grafa þar til ekkert er eftir af garði eigandans nema moldarhaugar.
Af hverju grafa hundar?
Hundar grafa út af mismunandi ástæðum. Helstu orsakir þess eru:

- Þeir eru að leita að pöddum, smádýrum eða öðru lifandi í jörðinni.
- Þeim leiðist.
- Þeir eru að finna sér kaldan svefnstað.
- Þeir eru að fela hluti.
- Þeir eru að leita að mat.
- Þeir eru að flýja (t.d. grafa undir girðingu).
Hvað geturðu gert til að fá hundinn til að hætta að grafa?
Veldu einn stað þar sem hundurinn má grafa. Fyrstu tvær vikurnar eftir að þú velur stað, skaltu fela nammi og dót í moldinni, sem hundurinn hefur leyfi til að grafa í. Hundurinn byrjar að tengja þennan stað við eitthvað gott og skemmtilegt. Grafðu með hundinum á þessum stað og hrósaðu honum þegar hann byrjar. Leiktu við hann með dótinu sem hann finnur.
Eftir þessar tvær vikur skaltu reglulega fela góðgæti og dót á þessum stað til að halda uppi áhuga hundsins.
Hafðu hundinn aldrei eftirlitslausan í garðinum.
Fylgstu alltaf með hundinum, þó svo að hann sé farinn að grafa alltaf á réttum stað. Ef hann byrjar að grafa á stað sem er ekki leyfilegur skaltu kalla hundinn á réttan stað og hrósa honum þegar hann grefur þar.
Hvað ef hann er alltaf að grafa?
Ef hundurinn eyðir miklum tíma í að grafa í garðinum getur verið að honum leiðist. Gæti verið að hundurinn sé geymdur of mikið í garðinum? Er ástæða fyrir því að hundurinn er alltaf geymdur í garðinum? Gætir þú þurt aðstoð hundaþjálfara til að gera hundinn heimilishæfan?
Ég vil ekki að hundurinn minn grafi í garðinum.
Ef þú vilt alls ekki að hundurinn grafi og þú hefur engan stað í garðinum sem þú ert tilbúin/n að fórna, þarftu að finna aðrar leiðir til að eyða þeirri orku sem hundurinn eyðir annars í að grafa. Ekki geyma hundinn úti í garði. Ef hundinum leiðist er gott að finna önnur verkefni fyrir hann. Kynntu þér þefleiki og hugarleikfimi fyrir hunda. Þessir leikir eyða mikilli orku og koma í veg fyrir að hundurinn finni fyrir þörf til að grafa. Gættu þess líka að hundurinn fái næga hreyfingu.
Hafðu alltaf einhver verkefni í gangi fyrir hundinn á meðan hann er í garðinum og hafðu hann undir stöðugu eftirliti. Breyttu æsta gröfuhundinum í þreyttan dótanagara.