Í taumgöngu er algengt vandamál að hundar gelti á aðra hunda, ketti eða fólk. Það geta verið margar ástæður að baki en algengast er líklega að um skort á umhverfisþjálfun sé að ræða.

Ein æfing sem gott er að gera til að vinna í þessu vandamáli er að fá hund (eða manneskju, hvað sem hundurinn er að gelta á), sem er rólegur og góður í kringum aðra hunda, í lið með sér. Þá byrjið þið með mjög langt bil á milli ykkar.

Markmiðið er alltaf að koma í veg fyrir að hundurinn þinn verði æstur.

Þú vilt alltaf halda hundinum þínum í yfirveguðu ástandi. Ef hundurinn þinn verður mjög spenntur eða byrjar að gelta, bakkar þú og eykur bilið vegna þess að þú ert komin(n) of langt. Hundurinn ræður ekki lengur við aðstæðurnar.

Þegar þú ert búin(n) að finna þá vegalengd sem hentar ykkur gerir þú skemmtilegar æfingar með hundinum. Þú getur til dæmis æft hundinn í að setjast og leggjast, æft kúnstir, hælgöngu eða gert slökunaræfingar. Hvað sem hundinum finnst gaman að gera.
Eftir smá tíma í þessari stöðu getið þið fært ykkur aðeins nær hundinum, ekki þó svo nálægt að hundurinn þinn verði spenntur. Aftur gerið þið æfingar og hafið gaman. Svona vinnið þið ykkur nær og nær erfiða áreitinu. Athugið að þetta er ekki æfing sem maður klárar á einum degi. Það er gott að æfa oft en stutt í einu. Þú vilt alltaf hætta æfingunni áður en hundurinn þinn verður þreyttur. Hundurinn á að tengja þetta við eitthvað rosalega skemmtilegt og róandi, ekki við stress. Æfingin getur verið allt frá einni mínútu og upp í klukkutíma, það fer allt eftir þoli hundsins. Æfðu þetta eins oft og tími leyfir. Best væri að gera svona æfingu á hverjum degi, svo lengi sem þetta gengur vel og hundurinn er slakur og glaður. Ef hundurinn verður stressaður ertu að fara of geyst í æfinguna en það er allt í lagi, þá tekurðu einfaldlega nokkur skref aftur á bak og finnur þann stað sem hundurinn er öruggur á.

Þegar hundurinn þinn er kominn frekar nálægt hinum hundinum og allir eru rólegir og góðir, getið þið breytt æfingunni aðeins. Þá getið þið til dæmis farið saman í taumgöngu. Passið alltaf að hafa það mikið bil á milli hundanna að þeir séu báðir rólegir. Aukið bilið ef annar hvor hundurinn æsist upp.

Það er hægt að leika sér endalaust með þessa æfingu. Æfið ykkur í að mætast, í að koma og fara, koma fyrir horn og mæta hundi, hlaupa framhjá hundinum, láta hundinn hlaupa framhjá ykkur, hvað sem ykkur dettur í hug. Reglan er þó alltaf sú að ekkert er gert sem hundurinn ræður ekki við. Ef hundurinn spennist upp farið þið nokkur skref til baka og vinnið ykkur hægar að erfiðari aðstæðum.

Gætið þess að þó svo að hundurin sé búinn að mastera þessa æfingu í einu ákveðnu umhverfi, þarf ekki að vera að hann ráði við þetta í öðrum aðstæðum. Það þarf að gera svona æfingar á fjölbreyttum svæðum og með mismunandi hundum/fólki til að hún geri sem mest gagn.


administrator

Berglind á íslenska fjárhundinn Hektor og whippetana Blossa og Takt. Hún hefur mikla reynslu af hundum og er lærður hundaþjálfari og -atferlisfræðingur. Hún lærði í bandaríska skólanum The Academy for Dog Trainers. Berglind er að læra dýrahjúkrunarfræði og vinnur hjá Dýralæknamiðstöðinni í Grafarholti, ásamt því að reka hundaskólann Hundasetrið. Berglind lærði hundanudd í Chicago School of Canine Massage. Hún er með BSc í sálfræði og hefur unnið með Dýrahjálp Íslands.